Skyggni ágætt - Erindi um íslenskar nútímabókmenntir

Fyrirlestur Maríönnu Clöru Lúthersdóttur á alþjóðlegu þýðendaþingi í Reykjavík 12. september 2017 í Veröld - húsi Vigdísar

Þetta er í annað sinn sem ég held fyrirlestur um íslenskar nútímabókmenntir og finn mig knúna til að byrja á að tala um Íslendingasögurnar, það er merkilega erfitt að komast frá þeim - það er eins og að eiga að fjalla um Ísland en mega ekki nefna náttúruna. Eins og náttúran hafa sögurnar alltaf verið hluti af landslagi Íslendinga. Jafnvel með því að afneita þeim tökum við afstöðu til þeirra. Og kannski er það ekkert undarlegt – öldum saman voru þær jú okkar eina framlag til heimsbókmenntanna – það liðu svo um það bil sexhundruð ár þar til Halldór Laxness kom til sögunnar.

Þræðir Íslendingasagnanna liggja víða í nútímanum

Þræðir Íslendingasagnanna liggja víða í nútímanum, stundum mynda þeir bara fjarlægan bakgrunn en eru þó alls ekki alltaf ósýnilegir. Laxness reið auðvitað á vaðið með Gerplu en síðustu ár sérstaklega hafa fjölmargir endurskrifað, umskrifað eða skrifast á við þennan arf, hætt hann, gagnrýnt eða rannsakað. Hér má nefna Ármann Jakobsson með Glæsi þar sem rak hann á nýstárlegan hátt sögu illmennisins Þórólfs bægifótar úr Eyrbyggju, svo eru það hinar geysivinsælu og margverðlaunuðu bækur Einars Kárason sem byggja á Sturlungu; Óvinafagnaður, Ofsi, Skáld og Skálmöld sem rekja söguna frá mörgum sjónarhornum og varpa þannig á hana nýju ljósi. Þá má nefna hina nýju Íslendingasögu Geirmundar sögu heljarskinns eftir Bergsvein Birgisson þar sem höfundur setur sig í spor 12. aldar munks og ritar sögu eins valdamesta og ríkasta landnámsmannsins sem við áttum. Ekki má gleyma Blóðhófni Gerðar Kristnýjar sem nýtir sér Skírnismál og smíðar úr þeim nýtt listaverk og eru þá ónefndar þær bækur sem endurskrifa Íslendingasögurnar fyrir yngstu lesendurna eða umbreyta þeim í myndasögur. Ekki þarf þó alltaf heilt bókmenntaverk til að vekja upp þennan ástsæla draug – minnisstæðasta vísunin í Íslendingasögurnar sem ég hef lesið er sennilega gagnrýni ungs kennara í unglingabók Bryndísar Björgvinsdóttur, Hafnfirðingabrandaranum. Kennarinn skilur bæði lesanda og aðalsöguhetju bókarinnar eftir agndofa þegar hann ræðst harðorður að hinni rómuðu kímnigáfu fornbókmenntanna, segir þær meinfýsnar, andstyggilegar og mögulega valdar að öllum þeim ófriði sem einkenndi ritunartíma þeirra.[1]

En eins og áður sagði er ekki undarlegt að sögurnar eigi drjúgan hlut í okkur. Bókmenntalega séð var heldur tíðindalítið milli Íslendingasagnanna og Nóbelskáldsins, skinnhandritin voru helst notuð til að sníða skó og brýnt var fyrir mönnum að bókvitið yrði ekki í askana látið. Auðvitað var ýmislegt skrifað - en ekkert af því varð innlegg í áðurnefndar heimsbókmenntir. Eitt af því fáa sem þó var fest á blað voru staðreyndir á borð við fæðingar, giftingar og jarðarfarir - þetta var allt samviskusamlega skráð í Annálana - þar var líka pláss fyrir eldgos, jökulhlaup og skipsskaða en kannski ekki margt annað. Nema veðrið - Íslendingar hafa alltaf pláss fyrir veðrið, (og raunar mætti færa rök fyrir því að kuldinn og myrkrið séu ein af grundvallar stoðum skandinavísku rökkurbókmenntabylgjunnar sem Ísland hefur svo sannarlega ekki farið varhluta af síðustu ár) en það viðraði sem sagt fremur illa til skáldsagnaritunnar fram eftir öldum. 

Eins mótsagnakennt og það kann að virðast hafði þjóðin þó greinilega alltaf þörf fyrir sögur - þær lifðu góðu lífi í baðstofunni - sérstaklega á vetrum þegar kvöldin voru löng. Kaldir, dimmir vetur kyntu undir þörfinni fyrir sögur og Íslendingasögurnar lifðu í munnlegri geymd - og sama þjóð og saumaði skó úr handritunum leit á Njál og Gunnar, Bergþóru, Hallgerði, Guðrúnu, Egil, Gretti og alla hina sem raunverulega forfeður og -mæður sínar. Þau voru hetjur sem sýndu að kúgaðri þjóð að drepast úr vosbúð og ömurð var ekki alls varnað - eitt sinn höfðu hetjur sannarlega riðið um héruð. En þá litu Íslendingar auðvitað ekki á Íslendingasögurnar sem skáldskap - eða einu sinni skáldskap byggðan á heimildum - þetta voru ævisögur!

Og ævisögur hafa alltaf átt greiðan aðgang að þjóðinni enda má segja að sú bókmenntagrein hafi löngum sameinað tvær helstu dægradvalirnar; ættfræði og slúður. En hér er aftur mótsögn í þjóðarsálinni - við vildum gjarnan vita allt um náungann en virtum hann þó mest ef hann þagði um sín hjartans mál. Þeim var hampað sem „báru harm sinn í hljóði“ og það þótt ekki smart að „bera sorgir sínar á torg“. Ef fólk lenti í hörmungum var sum sé best að það héldi sér saman en ágætt að fá alla sólarsöguna frá þriðja aðila. 

,,Og ævisögur hafa alltaf átt greiðan aðgang að þjóðinni enda má segja að sú bókmenntagrein hafi löngum sameinað tvær helstu dægradvalirnar; ættfræði og slúður."


Knappur og írónískur stíll Íslendingasagnanna ýtti mögulega undir þetta (eða var afleiðing af því) - alvöru hetjur dróu úr - sögðu „hneit þar“[2] eða „þau tíðkast hin breiðu spjótin“[3] þegar þær voru reknar í gegn, voru ekki með neitt „væl“. En hafi Íslendingar þróast eitthvað og breyst á þessum tæpu þúsund árum (sem er ekki víst) þá eru þeir jafnvel búnir að átta sig á að þöglu hetjurnar eru kannski töff, en þær eru ekki endilega sérlega hamingjusamar. Íslendingar hafa uppgötvað þerapíu og eru óðum á leið út úr skelinni – þetta endurspeglast auðvitað líka í bókmenntunum þar sem nú má ræða hlutina í stað þess að tala undir rós. Þar sem áður var skrifað „ég lifði hátt“ má nú segja „ég barðist við alkóhólisma“, í stað „hann elskaði konur“ má segja „hann hélt endalaust fram hjá“ í stað „það fylgdu henni skuggar“ „hún þjáðist af þunglyndi“. Nýjar hetjur eða andhetjur rísa upp af bókfellunum og þær eru ekki lengur þögla, sterka manngerðin. Síðustu ár hafa komið út þó nokkrar bækur sem rífa niður gamalgrónar hugmyndir um íslenska karlmennsku og má þar nefna tvíleik Jóns Kalmans Fiskarnir hafa enga fætur og Eitthvað á stærð við alheiminn sem segja harmræna sögu úr íslensku sjávarþorpi og þar er stærsti harmurinn mögulega þeirra sem trúa því einlæglega að vinnan og þögnin séu besta lausnin, fórnarlömb úrelts feðraveldis suður með sjó. Steinar Bragi hefur sömuleiðis rannsakað hefðbundnar karlmennskuímyndir og komist að skuggalegum niðurstöðum sem og Hallgrímur Helgason í verkum sínum. Í nýjustu skáldsögu sinni, Sjóveikur í Munchen, skoðar hann m.a. þjóðaríþróttina, drykkju, sem enginn telst maður með mönnum nema keppa reglulega í og skýtur föstum skotum að alkóhólíseraða snillingnum sem dreginn er sundur og saman í háði svo lesandinn situr eftir með þá knýjandi spurningu hvort eitthvað sé í raun meira óþolandi en drukkinn Íslendingur sem trúir því að hann sé snillingur. Bók Hallgríms er raunar ævisöguleg skáldsaga, stundum nefnd skáldævisaga en sú tegund bókmennta hefur mjög sótt í sig veðrið á síðustu árum. Vinsældir hinnar hefðbundu ævisögu hafa dalað en segja má að hún hafi endurfæðst í breyttum formum – skáldævisögur og sögulegar skáldsögur hafa tekið hennar stað.

Þessi áhugi á sögulegum skáldsögum er jafnvel einhvers konar tilraun til að fylla upp í eyðuna milli Íslendingasagnanna og Laxness – stoppa í götin í kringum annálanna, en þar er efnið oft ansi gisið – sérstaklega þegar kemur að sögum þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu. Raddir sem ekki heyrðust hafa á síðustu árum fengið nýjan hljómgrunn. Dæmin eru fjölmörg en ég nefni bækur Kristínar Steinsdóttur svo sem sögu Bjarnar-Dísu sem var aldræmdur draugur á fyrri tíð, Kristín rýnir í heimildir og segir okkur nýja sögu af ungri og kraftmikilli konu, sögu sem á lítið skylt við þjóðsöguna þekktu og Vonarlandið en þar rekur Kristín (skáldaða) sögu nokkurra ungra kvenna sem koma til Reykjavíkur á upphafsárum borgarinnar og hefja störf í lægsta þrepi þjóðfélagstigans, við þvottana. Í Mánasteini ferðast Sjón með lesandann aftur til hins sögulega árs 1918 þegar frostaveturinn mikli herjaði, Katla gaus, Spænska veikin lagði stóran hluta Reykjavíkur, Heimstyrjöldinni fyrri lauk og þjóðin fékk fullveldi – inn í þetta magnaða ár skrifar Sjón sögu Mána, samkynhneigðs drengs sem lifir á jaðri samfélagsins. Þá má nefna Ljósmóðurina eftir Eyrúnu Ingadóttur þar sem sögð er saga Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrabakka í kringum aldamótin 1900, sem og bók Gísla Pálssonar um Hans Jónatan, manninn sem stal sjálfum sér – karabíska þrælinn sem flúði frá Danmörk og endaði sem bóndi á Djúpavogi. Allar segja þessar bækur sögur sem lesa þarf milli línanna í hefðbundnum mannkynssögubókum og annálum. Þær stoppa í götin milli sigra námsmanna við Lærða skólann og frásagna af stórbændum, prestum og sýslumönnum.

Segja má að sögulegar skáldsögur en kannski sérstaklega skáldævisögur varpi með tilvist sinni fram spurningum um hugtök á borð við sannleika og minni – hversu óljós og óáreiðanleg þau bæði eru – og í beinu framhaldi hversu áreiðanleg hin hefðbundna ævisaga getur mögulega verið. Frásögn hlýtur jú alltaf að vera sögð frá ákveðnu sjónarhorni, hin hlutlausa frásögn er ekki til – ekki frekar en hið óbrigðula minni. 

Skáldævisagan er reyndar ekki alveg ný af nálinni, Þórbergur Þórðarson reið auðvitað á vaðið með sínum sögum og dró sjaldnast undan sem og Auður Haralds með sinni myljandi fyndnu Hvunndagshetju en nú hafa margir helstu höfundar þjóðarinnar tekið við keflinu: Auður Jónsdóttir með Ósjálfrátt og jafnvel fleiri bækur sínar, Hallgrímur Helgason með áðurnefnda Sjóveikur í Munchen, Vigdís Grímsdóttir með Dísusögu, Guðrún Eva Mínervudóttir með Skegg Raspútíns, Úlfar Þormóðsson með Ugg, Farandskugga og Boxarann að ógleymdum Jóni Gnarr og Oddnýju Eir Ævarsdóttur sem hafa með öllu sínu höfundarverki hlúð að skáldævisögunni.

En það er ekki bara hispurslaus frásögnin sem gefur skáldævisögunum gildi - sannleikurinn mun kannski gjöra þig frjálsan - en skáldskapurinn gefur þér vængi.

Rætur skáldævisögunnar liggja allar í raunveruleikanum en textinn teygir anga sína víða – ljóðræna tungumálsins snýr á staðreyndirnar og raunveruleikann baki þeim, stígur skref fram á við og finnur sér nýtt líf.

En kannski ber hér allt að sama brunni. Jafnvel í annálum Íslandssögunnar var gripið til skáldskaparins, börn rangfeðruð, dánarorsakir loðnar, og einnig þar réði sjónarhorn ritarans miklu um hvað fór yfirhöfuð á blað – Eitt sinn trúðu menn því að Íslendingasögurnar væru áreiðanleg söguheimild – að hvert orð þar væri byggt á grjóthörðum staðreyndum – nú er sá skilningur horfinn – án þess að það dragi úr gildi bókmenntanna. Kannski er öll okkar skráða saga skálduð í einhverjum skilningi. 

,,Við höfum alltaf þurft á skáldskapnum að halda, þótt harmur þjóðarinnar hafi á stundum verið svo stór að orðin stóðu ekki undir honum þá voru það þrátt fyrir allt sögurnar og ljóðin sem báru okkur gegnum aldirnar."


Við höfum alltaf þurft á skáldskapnum að halda, þótt harmur þjóðarinnar hafi á stundum verið svo stór að orðin stóðu ekki undir honum þá voru það þrátt fyrir allt sögurnar og ljóðin sem báru okkur gegnum aldirnar. Eins og segir í Eitthvað á stærð við alheiminn um Um dauðans óvissan tíma: „tímalaus skáldskapur sem huggar alla nema þann sem orti, og þann sem dó“[4] en það hljóta nú að teljast ágætar heimtur. Skáldskapurinn hjálpar okkur að flýja erfiðleika en líka til að horfast í augu við þá og við okkur sjálf, við fortíð og nútíð. Meðvitað eða ómeðvitað spegla rithöfundar eitthvað í samtíma sínum hverju sinni - og má þá einu gilda til hvaða bókmenntagreina skáldverkin teljast. Hvort sem um er að ræða fantasíur, reyfara, barnabækur, ljóð eða hefðbundnari skáldsögur má sjá marga höfunda síðustu ára fjalla um þau málefni sem endurspegla íslenskan veruleika og raunar heiminn allan. Þannig læðast hrunið, náttúruvernd, kynbundið ofbeldi, náttúruhamfarir, stríð og málefni flóttamanna inn alls kyns bókmenntagreinar. Dystópíur hvers konar ná að setja normalíserað ástand í nýtt samhengi og draga upp óhugnanlegar myndir sem eru í senn framandi og kunnuglegar. Hér má nefna fantasíu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eyland, sem kom út fyrir síðustu jól en þar einangrast Ísland frá umheiminum eftir einhverja skelfilega ónefnda atburði og hér hefst sjálfsþurftarbúskapur. Óhugnanlegar spurningar um hverjir eiga rétt á þeim mat, þeirri orku og þeim auðlindum sem hér finnast verða knýjandi – hverjir „mega“ búa hérna og hverjir taka þær ákvarðanir – í krafti hvers? Venjulegir Íslendingar verða líka flóttamenn í ungmennabókum Hildar Knútsdóttur, Vetrarfríi og Vetrarhörkum þar sem geimverur gera innrás á Íslandi. Skelfing og ringulreið stríðs sem bitnar á saklausu fólki sem neyðist til að yfirgefa heimili sín og halda út í óvissuna verður hlutskipti vísitölufjölskyldu úr Reykjavík. Börn í stríði eru svo líka viðfangsefni ævintýrabóka Sigrúnar Eldjárn um krakkana á Skuggaskeri.

,,Meðvitað eða ómeðvitað spegla rithöfundar eitthvað í samtíma sínum hverju sinni - og má þá einu gilda til hvaða bókmenntagreina skáldverkin teljast. Hvort sem um er að ræða fantasíur, reyfara, barnabækur, ljóð eða hefðbundnari skáldsögur má sjá marga höfunda síðustu ára fjalla um þau málefni sem endurspegla íslenskan veruleika og raunar heiminn allan."


Auðvitað þarf þó ekki fantasíu til að tækla málefni heimsins eins og sjá má í Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur þar sem aðalsöguhetjan, Jónas Ebeneser, verður fyrir persónulegu áfalli og hyggst taka líf sitt. Jónas er þó ekkert ef ekki vænn maður og tillitssamur og til að hlífa sínum nánustu við aðkomuna að líkinu ákveður hann að fara til ónefnds stríðshrjáðs lands. Þar sér hann fram á að geta auðveldlega lent í banaslysi – ókunnuga fólkinu sem mun finna hann að meinalausu. Ef ske kynni að banaslysin létu á sér standa tekur Jónas Ebeneser með sér annan borinn sinn, þann minni, til þess að geta fest upp krók ef í harðbakkann slær. En í landi þar sem dauði og eyðilegging stríðs hefur ætt yfir allt og alla og engan skilið eftir ósnortinn verður ekki hjá því komist að Jónas sjái eigin óhamingju í nýju ljósi og skyndilega er ekki eins knýjandi að festa upp krókinn. Það verður úr að hann frestar sjálfsmorðinu – í öllu falli þarf hann fyrst að nota borinn til að hjálpa systkinunum sem reka hótelið sem hann dvelst á að festa nokkrar hurðalamir, laga nokkra glugga og hreinsa úr nokkrum pípum. Án þess að gera lítið úr harmi Jóns tekst Auði að setja hann í samhengi við heiminn og um leið minnka heiminn – Ísland er kannski eyja en enginn maður er eyland svo vitnað sé til John Donne og titils Sigríðar Hagalín.

En hvað einkennir þá íslenskar bókmenntir? Eiga þær eitthvað sameiginlegt - annað en tungumálið? Eru þær allar sprottnar úr kviku eldfjallanna, úr djúpum hafsins og uppúr jökulsprungum? Eða eru slíkar vangaveltur ekkert annað en auglýsingamennska? Gætum við eins sagst finna lunda í íslenskum literatúr? Að einhverju leyti skrifa Íslendingar kannski enn í skugga fjallanna. Rétt eins og þeir finna enn fyrir Íslendingasögunum og Halldóri Laxness, þá finna þeir - eins og allir aðrir sem hér búa - fyrir náttúrunni, fyrir fjöllunum, kuldanum, myrkrinu - en líka fyrir löngum sumarnóttum og ilmandi mosa og birki - einfaldlega af því það er okkar raunveruleiki að einhverju leyti - rétt eins og umferðarhnútar á Bústaðarveginum eða biðraðir fyrir utan Lindex eða HM. Þegar upp er staðið eiga íslenskar bókmenntir það mögulega eitt sameiginlegt að vera skrifaðar af fólki sem bjó eða býr hér - og það skiptir máli að einhverjir sem þekkja þennan veruleika, umferðarhnútana, skítaveðrið og sumarnæturnar séu að skrifa. 

Og góðu fréttirnar eru þær að Íslendingar og fólk búsett á Íslandi er enn að skrifa, þrátt fyrir hækkaðan virðisaukaskatt á bókum og lítinn áhuga stjórnvalda til að styðja við lestur og bókaútgáfu þá eru enn að koma út frumsamdar bækur skrifaðar á íslenska tungu. Þrátt fyrir að Ísland sé það veðrarassgat sem það er og veður oft válynd – þá er merkilegt nokk  - skyggni ágætt í dag.

Október 2017

Maríanna Clara Lúthersdóttir, leikkona og bókmenntafræðingur.


[1] Bryndís Björgvinsdóttir. Hafnfirðingabrandarinn. Reykjavík: 2015 (2. útg.), bls. 232, 233

[2] Vésteinn mælir þessi orð þegar hann er veginn í Gísla sögu Súrssonar, 13. kafla

[3] Atli mælir þessi orð þegar hann er veginn af Þorbirni í Grettissögu

[4] Jón Kalman Stefánsson. Eitthvað á stærð við alheiminn. Reykjavík: Bjartur, 2015, bls. 63.