Fréttir

Bókmenntahátíð í Reykjavík haldin dagana 6. til 9. september 2017

Spennandi dagskrá með á þriðja tug þekktra erlendra og íslenskra höfunda. Jafnframt verður sérstök dagskrá fyrir erlenda útgefendur og umboðsmenn. 

22.8.2017

Bókmenntahátíð logo Bókmenntahátíð í Reykjavík fer fram í þrettánda sinn dagana 6. til 9. september og fara viðburðir fram í Norræna húsinu, Iðnó og víðar.

Á Bókmenntahátíð í Reykjavík gefst gestum einstakt tækifæri til þess að hitta íslenska og erlenda höfunda, heyra um nýjar bækur og fá innblástur úr öllum heimshornum. 

Han-Kang

EkaJón KalmanDagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík er metnaðarfull og spennandi, en von er á 17 virtum og vinsælum erlendum höfundum, auk þess sem margir helstu höfundar Íslands taka þátt. Meðal erlendu gestanna er hin kóreska Han Kang sem hlaut alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin árið 2016 fyrir bókina Grænmetisætuna. Tveir höfundar sem tilnefndir hafa verið til sömu verðlauna, Eka Kurniawan og Jón Kalman Stefánsson, koma fram í sameiginlegu pallborði og ræða fegurð og ljótleika í bókmenntum. Hinn indónesíski Kurniawan, sem er þekktastur fyrir bók sína Fegurð er sár, flytur aðra opnunarræðu hátíðarinnar en hina ræðuna flytur handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016, Auður Ava Ólafsdóttir.

Af öðrum gestum hátíðarinnar í ár má nefna bandaríska sagnfræðinginn Timothy Snyder, sem sló í gegn síðastliðinn vetur með bók sinni On Tyranny. Lessons from the 20th Century sem hann skrifaði í kjölfar kjörs Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta. Snyder flytur fyrirlestur Jóns Sigurðssonar hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og verður einnig í viðtali við Halldór Guðmundsson. Norrænu ljóðskáldin Aase Berg og Maja Lee Langvad lesa upp úr verkum sínum og taka þátt í pallborðsumræðum og Hiromi Kawakami, höfundur skáldsögunnar Stjörnurnar yfir Tókýó, les úr verkum sínum á japönsku. Hinn sænski Fredrik Sjöberg, sem vakti heimsathygli með bók sinni Flugnagildran, og hinn norski Morten Strøksnes, sem m.a. hefur skrifað um hákarlaveiðar úti fyrir Lofoten, ræða saman um manninn og náttúruna, auk þess sem ísraelski rithöfundurinn og kvikmyndaleikstjórinn Etgar Keret og hin ganversk-bandaríska Yaa Gyasi lesa úr bókum sínum og taka þátt í umræðum. Af íslenskum höfundum sem taka þátt má nefna Kristínu Eiríksdóttur, Sigrúnu Pálsdóttur, Bubba Morthens, og Arnald Indriðason en öll lesa þau upp úr væntanlegum jólabókum á hátíðinni.

Í ár er jafnframt bryddað upp á þeirri nýbreytni að hefja hátíðina norðan heiða. Tveir höfundar, þær Anne-Cathrine Riebnitzsky frá Danmörku og Esmeralda Santiago frá Púertó Ríkó, taka þátt í upplestrum og umræðum í Hofi á Akureyri áður en dagskrá hefst í Reykjavík. Það er Menningarfélag Akureyrar, ásamt Amtsbókasafninu á Akureyri, sem skipuleggur dagskrána í samstarfi við Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Viðburðir Bókmenntahátíðar í Reykjavík eru ókeypis og öllum opnir. Upplestrar fara fram á móðurmáli höfunda og verður þýðingum varpað upp á tjald  jafnóðum. Samtöl fara fram á ensku. Hægt verður að fylgjast með streymi frá viðburðum á heimasíðu hátíðarinnar og víðar.

Erlendir útgefendur og umboðsmenn hitta íslenska kollega

Á hátíðinni verður sérstök dagskrá fyrir erlenda útgefendur og umboðsmenn sem Bókmenntahátíð í Reykjavík heldur, með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þar fá þeir að kynnast íslenskum rithöfundum, heyra um nýjar bækur, kynna sér styrkjamöguleika hér á landi og hitta íslenska kollega sína. Í ár taka 16 útgefendur og umboðsmenn frá 12 löndum þátt í þessari dagskrá.

Bókmenntahátíð í Reykjavík var fyrst haldin árið 1985 og síðan þá hafa tæplega 300 erlendir rithöfundar sótt Reykjavík heim, en á meðal þeirra eru Svetlana Alexievich, Margaret Atwood, Seamus Heaney, Günter Grass, Haruki Murakami, Kurt Vonnegut, Ngugi Wa Thiong'o og José Saramago.

Allar nánari upplýsingar og dagskrá má finna á vef Bókmenntahátíðar í Reykjavík.