Íslenskar bækur í sókn um allan heim og þýðingar nær þrefaldast á síðustu tíu árum

Bækurnar þýddar á um fimmtíu tungumál

30. ágúst, 2018

Stuðlað að aukinni útbreiðslu erlendis

Vikulega berast til Miðstöðar íslenskra bókmennta eintök af íslenskum bókum í erlendum þýðingum, sem hlotið hafa þýðingastyrki Miðstöðvarinnar, en eitt af hlutverkum hennar er að stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra erlendis.

Þýtt á fimmtíu tungumál

Bækur eftir íslenska höfunda ferðast sífellt lengra og til fjarlægari landa og eru þýddar á æ fleiri tungumál, en þau eru nú orðin um fimmtíu talsins. Þýðingum hefur fjölgað verulega, hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum, og sýnir eftirspurnin því glöggt þörfina á auknum fjármunum í þennan styrkjaflokk. Ferðalög íslenskra höfunda til að kynna verk sín erlendis hafa líklega aldrei verið fleiri. Það má því með sanni segja að íslenskar bókmenntir séu í sókn um allan heim.

Nýjar þýðingar

Á meðfylgjandi mynd má sjá bækur eftir íslenska höfunda sem eru nýkomnar út í erlendum þýðingum: Ör eftir Auði Övu í norskri þýðingu Tone Myklebost, Koparakur Gyrðis Elíassonar í tékkneskri þýðingu Mörtu Bartošková, Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur í franskri þýðingu Jean-Christophe Salaün, Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson á færeysku í þýðingu Laurinu Niclasen, CoDex 1962 eftir Sjón í enskri þýðingu Victoriu Cribb, DNA eftir Yrsu Sigurðardóttur, þýdd á lettnesku af Ingu Bērziņa, Minning og saga í ljósi Tyrkjaránsins eftir Þorstein Helgason í enskri þýðingu Önnu Yates og Jónu Ann Pétursdóttur og Hálendið eftir Steinar Braga á makedónsku, svo dæmi séu tekin.

Íslenskir rithöfundar á ferðinni

Rithöfundarnir fara oft utan til að fylgja þýðingum bóka sinna eftir og kynna þær nýjum lesendum, með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Núna í ágúst tóku til að mynda Ragnar Jónasson, Auður Ava Ólafsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Sjón þátt í bókmenntahátíðinni í Edinborg og í nóvember verða þau Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Yrsa Sigurðardóttir, Einar Már Guðmundsson og Arnar Már Arngrímsson á bókmenntahátíðinni Festival Les Boréales í Frakklandi og margt fleira er á döfinni.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir