Íslenskir rithöfundar ferðast um heiminn og kynna bækur sínar í erlendum þýðingum

25. september, 2018

Þeir koma fram á bókmenntahátíðum, upplestrum og öðrum viðburðum, oft með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

  • Kapumyndir-hruga-okt-2017_1520853966832

Íslenskir rithöfundar fara oft utan til að fylgja þýðingum bóka sinna eftir og kynna þær nýjum lesendum, með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Margir þeirra verða á ferðinni í haust og vetur og taka þátt í bókmenntahátíðum, upplestrum, útgáfuhófum og öðrum viðburðum tengdum útgáfu bóka sinna á hin ýmsu tungumál víða um heim. Hér eru nokkur dæmi um höfunda á ferðinni.

Auður AvaLilja SigurðardóttirRagnar JónassonAuður Ava, Lilja, Ragnar og Sjón á bókmenntahátíðinni í Edinborg

Bókmenntahátíðin í Edinborg er haldin árlega en þar koma saman höfundar alls staðar að úr heiminum, yfir 800 viðburðir eru á dagskrá og um 250 þúsund gestir leggja leið sína þangað. Í ágúst síðastliðnum tóku Auður Ava ÓlafsdóttirLilja SigurðardóttirRagnar Jónasson og Sjón þátt með skemmtilegum umræðum um bækur sínar, persónur, skáldskapinn og ýmislegt fleira.

SjónSjón í Iowa og Malasíu

Sjón hefur verið boðið á bókmenntahátíðina Iowa City Book Festival í október þar sem hann mun lesa úr verkum sínum og taka þátt í umræðum með öðrum höfundum. Í nóvember fer hann svo til Malasíu og kemur fram í margvíslegri dagskrá á George Town Literary Festival í Penang.

Jónas Reynir GunnarssonArngunnur ÁrnadóttirKristín Ómarsdóttir

Arngunnur, Kristín og Jónas Reynir kynna verk sín í Englandi

Í sumar komu út enskar þýðingar á Að heiman eftir Arngunni Árnadóttir, Millilendingu eftir Jónas Reyni Gunnarsson og ljóðasafni Kristínar Ómarsdóttur. Af því tilefni var höfundunum boðið til London og Oxford til að vera viðstödd útgáfuhófin, lesa þar upp úr verkum sínum og hitta lesendur.

Jón Kalman

Jón Kalman á Ítalíu í september

Jón Kalman Stefánsson tók þátt í bókmenntahátíðinni Festivaletteratura í Mantova á Ítalíu í byrjun september, með samtali við blaðamanninn Alessandro Zaccur um skáldsöguna Saga Ástu sem er nýkomin út í ítalskri þýðingu Silviu Cosimini. Hann tekur einnig þátt í bókamessunni í Gautaborg í lok september og kemur þar fram í mörgum dagskrárliðum, en þar koma einnig fram höfundarnir Áslaug Jónsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir. Nánar um íslensku höfundana í Gautaborg hér.

Kristian GuttesenKristian Guttesen til Úkraínu með ljóð sín

Bókaútgáfan Krok gefur út úrval ljóða Kristian Guttesen frá árunum 2004-2017 á úkraínsku. Af því tilefni er höfundinum boðið á bókmenntahátíðina Lviv International Book Fair & Literature Festival í Úkraínu í september. 

Linda Vilhjálmsdóttir

Ragnar Helgi Ólafsson

Íslands-dagar í Þýskalandi, Linda og Ragnar Helgi 

Dagana 28. ágúst til 2. september voru haldnir Íslands-dagar í borginni Bremerhaven í Þýskalandi. Þar tóku Linda Vilhjálmsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson þátt í upplestrarkvöldi og spjalli við þýðandann Wolfgang Schiffer í tilefni þess að ljóðabækur þeirra voru komnar út í þýskri þýðingu hans.

Einar Már GuðmundssonKristín Marja BaldursdóttirEinar Már, Jón Kalman og Kristín Marja á bókmenntakvöldum í Kaupmannahöfn

Sendiráð Íslands, í samvinnu við Birgi Thor Møller hjá Norðurbryggju, stendur að þremur íslensk-dönskum bókmenntakvöldum í tilefni fullveldisafmælisins. Miðvikudaginn 22. ágúst var samtal milli Jóns Kalmans Stefánssonar og Carsten Jensen, mánudaginn 8. október kl. 20 verður samtal á milli Kristínar Marju og Merete Pryds Helle og þann 14. nóvember ræða þeir Einar Már Guðmundsson og Søren Ulrik Thomsen saman.

Gerður Kristný

Gerður Kristný á ljóðahátíð í Cornwall

Gerði Kristnýju hefur verið boðið á ljóðahátíðina Cornwall Contemporary Poetry Festival á Englandi sem fram fer dagana 23.-25. nóvember. Þar hittir hún lesendur sína og les fyrir þá upp úr Drápu sem kom út hjá Arc Publication í vor enskri í þýðingu Rory McTurk. 

Ófeigur SigurðssonÓfeigur Sigurðsson kynnir Öræfi í Bandaríkjunum

Fyrirhuguð er kynning víða í Bandaríkjunum á skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, í enskri þýðingu Lytton Smith. Bandaríska útgáfufyrirtækið Deep Vellum hefur skipulagt þátttöku Ófeigs í bókmenntahátíðum, bókabúðum, háskólum og viðburðum í Scandinavia House í New York.

Eiríkur Örn NorðdahlEiríkur Örn til Króatíu 

Illska eftir Eirík Örn Norðdahl kemur út í króatískri þýðingu á næstunni og er höfundinum af því tilefni boðið á bókmenntahátíðina Sa(n)jam knjige u Istri (e. Book Fair(y) in Istria), sem haldin er í desember ár hvert í bænum Pula í Króatíu. Yfir 100 dagskrárliðir verða á hátíðinni þar sem bækur og höfundar eru kynntir, umræður og vinnustofur fara fram, sýningar, tónleikar ofl. er á dagskrá. 

Arnar Már ArngrímssonHildur Knútsdóttir

Sigríður Hagalín

Yrsa Sigurðardóttir

Fimm íslenskir höfundar á Festival Les Boréales

Bókmennta- og menningarhátíðin Festival Les Boréales í Normandí í Frakklandi verður haldin 15.-25. nóvember og taka þau Arnar Már Arngrímsson, Einar Már Guðmundsson, Hildur Knútsdóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir þátt í fjölbreyttri dagskránni. Eystrasaltslöndin verða í brennidepli í fyrri viku hátíðarinnar en í þeirri seinni er sjónum beint að rithöfundum frá Norðurlöndunum sem fara m.a. í skóla, bókasöfn og bókabúðir til að spjalla um bækur sínar við franska lesendur.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um ferðir höfunda sem Miðstöðin hefur styrkt, til að kynna verk þeirra erlendis í þýðingum. 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir