Útkall á þýsku

16. júní, 2010

Samningur var undirritaður í vikunni í Hamborg um útgáfu á bókinni Útkall - árás á Goðafoss. „Ég held að nú sé rétti tíminn fyrir Þjóðverja að lesa um það sem raunverulega gerðist þarna úti fyrir Garðskaga í stríðinu,“ segir Óttar Sveinsson, höfundur bókarinnar.

Samningur var undirritaður í vikunni í Hamborg um útgáfu á bókinni Útkall - árás á Goðafoss eftir Óttar Sveinsson. Bókin er í Útkallsbókaröð Óttars, en hún hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi síðustu ár. Útgefendur eru Stefan og Julia Krücken hjá Ankerherz Verlag.

„Við erum mjög ánægð með þetta samstarf,“ segir Óttar. „Stefan hugsar nánast eins og ég. Hann er blaðamaður, rithöfundur og útgefandi, og við eigum mikið sameiginlegt. Nú byrjum við að vinna saman og endurskrifum bókina að hluta. Hann kemur til Íslands seinni hluta sumars ásamt ljósmyndara til að fá meira myndefni og ítarlegri viðtöl við fólkið sem lifði Goðafoss árásina af eða tengdist henni. Við stefnum að því að fullgera handritið í apríl og bókin kemur út seinnihluta næsta árs sem hluti af framlagi á bókasýningunni í Frankfurt þegar Ísland verður heiðursgestur.“

Óttar Sveinsson - GoðafossÁ myndinni hér til hægri má sjá Óttar Sveinsson og Stefan Krücken útgefanda hjá Ankerherz í vikunni. Myndin er tekin á hinum sögufræga stað, Landungsbrücken í Hamborg, sem Þjóðverjar kalla gjarnan „Dyrnar að heiminum“. Stefan heldur á ljósmynd af Goðafossi, sem tekin er við Landungsbrücken þegar Goðafoss er að sigla heim til Íslands hlaðinn vörum, áður en stríðið skellur á.

Árásin á Goðafoss var mesti mannskaði og missir Íslendinga í seinni heimsstyrjöldinni. Kafbáturinn U 300 sökkti skipinu 10.nóvember 1944 við Garðskaga, þegar skipið átti aðeins eftir tveggja tíma siglingu til Reykjavíkur. Um borð voru 43 Íslendingar, og 19 Bretar sem áhöfnin og farþegar höfðu bjargað úr sjónum skömmu áður. Af þeim 19 Íslendingum sem komust af eru 5 enn á lífi. Jafnframt eru enn á lífi þýskir kafbátsmenn sem voru um borð í U 300.


- Hvaða erindi á bókin við Þjóðverja?

„Góð spurning. Þetta er mjög örlagaþrungin saga og Þjóðverjar hafa sýnt henni mikinn áhuga. Ég held að nú sé rétti tíminn fyrir Þjóðverja að lesa um það sem raunverulega gerðist þarna úti fyrir Garðskaga í stríðinu. „Ég vissi þetta ekki, má ég fá að vitameira?“ segja Þjóðverjar sem síðustu ár afa æ meir rætt og fræðst um stríðið.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir