Þýsk listastofnun sýnir stuðning í verki

29. september, 2010

Listastofnun Nordrhein-Westfalen styrkir þýðingu Íslendingasagna myndarlega.

Listastofnun Nordrhein-Westfalen (Kunststifung NRW) hefur ákveðið að styrkja eitt helsta þýðingarverkefni Íslendinga á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011, þegar Ísland er heiðursgestur. Um er að ræða nýja þýðingu á öllum Íslendingasögunum, en þýska forlagið S. Fischer gefur þær út í fimm bindum, og styrkir stofnunin verkefnið með 100 þúsund evrum eða liðlega fimmtán milljónum króna. Í þessu framlagi felst mikil viðurkenning á hlutverki Íslendingasagnanna í menningarsögu Evrópu.

Fyrir tilstilli stofnunarinnar hafa þýðendurnir þingað þrisvar sinnum í þýðingarmiðstöðinni í Straelen í Þýskalandi, fyrst árið 2009, og lagt línurnar fyrir vinnu sína. Hafa þeir m.a. notið góðs af þeim vinnubrögðum sem þróuð voru við enska heildarþýðingu sagnanna á vegum Bókaútgáfu Leifs Eiríkssonar á sínum tíma. Sömu aðilar standa nú að þýðingu sagnanna á norsku, sænsku og dönsku. Hin nýja þýska útgáfa verður kynnt með viðhöfn haustið 2011 í klaustrinu Corvey við Höxter í Nordhrein Westfalen. Þar verða umræður, kynningar, upplestrar sem og alþjóðleg ráðstefna og stendur hátíðin í nokkra daga.

Forsvarsmenn Listastofnunar NRW, þau Regina Wyrwoll, framkvæmdastjóri, og Dr. Fritz Schaumann, stjórnarformaður, leggja áherslu á að eitt af helstu markmiðum hennar sé að styðja við þýðingar og þar skipi Ísland nú veglegan sess, enda hafi íslenskar bókmenntir lengi notið virðingar í Nordrhein Westfalen, fjölmennasta fylki Þýskalands.

Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sagenhaftes Island, segir samstarfið við þýðingarmiðstöðina í Straelen skipta miklu og framlag Kunststiftung Nordrhein Westfalen ekki síður: „Hver einasti Íslendingur kann að meta þennan frábæra stuðning við að koma okkar sígildu verkum á framfæri.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir