„Þannig uppgötvar heimurinn stundum fjarlægar eyjar...“

19. október, 2010

Þann 10. október 2010 tók Ísland formlega við titlinum „Heiðursgestur Bókasýningarinnar í Frankfurt“

Mynd eftir Helgu Brekkan

Þann 10. október 2010 tók Ísland formlega við titlinum „Heiðursgestur Bókasýningarinnar í Frankfurt“ af Argentínumönnum, sem voru handhafar titilsins 2010. Á athöfninni mættust rithöfundarnir Guðbergur Bergsson og Juan Gelman, frá Argentínu, í upplestri. Í skála Argentínumanna voru dregin upp menningarleg tengsl þjóðanna og hafði Guðbergur samið sérlegan texta af því tilefni undir titlinum „Maðurinn frá Patagóníu“. Þetta er endurminning úr Grindavík, æskuþorpi hans, þar sem argentínsk menning kemur við sögu.

„Það fór afskaplega vel á því,að við skyldum taka við keflinu af Argentínu,“ segir Halldór Guðmundsson verkefnisstjóri. „ Fulltrúar beggja þjóða lögðu áherslu á þau bókmenntalegu tengsl sem eru milli þeirra, ekki síst fyrir tilstuðlan Jorge Luis Borges, sem á sínum tíma þýddi Gylfaginningu á spænsku í félagi við konu sína Mariu Kodama. Hún kom til Íslands og kynntist íslenskum skáldum og listamönnum.“

Í skálanum var sýnd stuttmynd eftir Helgu Brekkan, sem undirstrikaði samband Borgesar við Ísland. Í myndinni má sjá legstein hans, skreyttan að hætti víkinga með tilvitnun í Völsungasögu.

Á athöfninni var „heiðurskeflið“ – listmunur, sérstaklega hannaður fyrir bókasýninguna,  sem á eru ritaðar tilvísanir bókmenntir viðkomandi lands – látið ganga á milli fulltrúa þjóðanna. Síðastliðið sumar óskaði Sagenhaftes Island eftir tillögum frá áhugafólki um íslenskar bókmenntir um mögulega tilvitnun fyrir íslenska keflið. Fjölmargar tillögur bárust, allt frá eddukvæðum til samtímabókmennta, og fyrir valinu varð textabrot úr skáldsögunni Möttull konúngur eða Caterpillar eftir Þorstein frá Hamri.

Móðir mín var snauð og hafði ekkert handa mér nema skáldskap, það var allt sem hún átti og kunni, arfur frá óteljandi gleymdum formæðrum úr gleymdum dölum og fjörðum; ljóð og stef sem virtust ort af vindinum, annar höfundur var sjaldan til nefndur, nema ef menn vildu heldur eigna þau fiskum eða fuglum, það var ef til vill eins leyfilegt, en ekkert framyfir það. Þegar konurnar fyrr á tímum í fjarlægum ættlöndum okkar veifuðu klútum sínum til sjómannanna áður en þeir renndu í vör, bar vindurinn þeim þessi ljóð utanaf hafi, og þau settust að í hugskoti þeirra og skúmaskotum bæjanna og umdu í þvottastögunum þegar var skinnklæðaþerrir. Svo fundu börnin þau og stefin fóru samanvið leikfaungin og fundust kannski af hendíngu innaní skeljum þegar allir héldu þau væru týnd, og voru þá loks orðin hlutir, sýnileg veðruð og formföst fyrirbrigði sem ferðalángar voru skæðir með að hirða og stela, hafa með sér og sýna. Þannig uppgötvar heimurinn stundum fjarlægar eyjar firði og dali og nýtur góðs af.

Kjörorð við hæfi fyrir komandi ár. Nú fer í hönd spennandi tími fyrir íslenskar bókmenntir og listir. Fjöldi íslenskra ritverka mun koma út í Þýskalandi á næstu tólf mánuðum og mun Sagenhaftes Island standa fyrir margvíslegum viðburðum á komandi ári þar sem íslensk menning verður í brennidepli. „Friður sé með þeim sem fara og koma til Frankfurt,“ svo vitnað sé orðrétt í ávarp Guðbergs Bergssonar.


Allar fréttir

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2023 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings og til­nefnir tíu höf­unda og bæk­ur sem til greina koma. Viður­kenn­ingaráð Hagþenk­is, skipað fimm fé­lags­mönn­um, velur verkin.

Nánar

Allar fréttir