Fantasían ryður sér til rúms

5. janúar, 2011

Lítið hefur farið fyrir fantasíuskrifum hér á Íslandi. Fyrr en nú. „Á Íslandi hefur hefðin fyrir þessum bókmenntum ekki skapast og mig langar að sjá breytingu á því,“ segir Emil H. Petersen, höfundur bókarinnar Saga eftirlifenda – Höður og Baldur.

Emil - FréttEmil Hjörvar Petersen hafði gefið út tvær ljóðabækur við góðan orðstír þegar hann sneri sér að fantasíuskáldskap. Hann hlaut Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs árið 2008 fyrir ljóðabók sína Refur, og tveimur árum síðar gaf hann út fantasíuna Sögu eftirlifenda – Höður og Baldur, fyrsta bindið í fantasíuþríleik sem kom út hjá Nykri um haustið 2010. Þar með var Emil Hjörvar kominn í hóp brautryðjenda, því lítið hafði kveðið að fantasíuskrifum á Íslandi fram að því.

Saga eftirlifenda fjallar um æsina og bræðurna Höð og Baldur – þann blinda og þann hvíta. Atburðarásin á sér stað 7010 árum eftir Ragnarök, og hefst í nokkurs konar hliðstæðri útgáfu af Íslandi og miðausturlöndum nútímans. Brátt fer sagan þó að teygja anga sína víðar. Bræðurnir tveir eru á meðal þeirra sem eftir standa í kjölfar Ragnaraka, og eru hvor með sínum hætti á höttunum eftir að endurheimta æsku sína. Myrk og máttug öfl sem stýrt er af öðrum eftirlifendum Ragnaraka láta þó fljótlega á sér kræla, og framtíð mannkynsins er harla tvísýn ef enginn grípur í taumana.

Emil sækir í brunn hins norræna goðheims, en í sögunni bregður einnig fyrir persónum og minnum úr grískri og persnerskri goðafræði. Morgunblaðsrýnirinn Bjarni Ólafsson lýsti bókinni sem „dúndurgóðri íslenskri fantasíu“ og Illugi Jökulsson tók í sama streng í Kiljunni: „Heimurinn er sannfærandi sem Emil býr til og frásögnin er skemmtileg.“

Sagenhaftes Island átti spjall við höfundinn, sem stundar nú framhaldsnám í bókmenntum við Háskólann í Lundi.

„Fantasían; hún yrði mín málpípa“

Áður en Saga eftirlifenda kom út hafðirðu einungis gefið út tvær ljóðabækur sem höfðu ekki augljósa tengingu við fantasíubókmenntir. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að frumraun þín sem prósahöfundur skyldi verða fyrsta íslenska fantasían?

„Áður en ég fékk hugmyndina að Sögu eftirlifenda hafði ég gert SagaEftirlifenda_kapatilraunir með að byrja á skáldsögum, þar sem ég reyndi að fella textann að því sem ég hafði vanist að lesa í íslenskum skáldskap. Ég veit núna af hverju ég hélt því ekki til streitu: Það hentaði mér ekki. En ég útiloka að sjálfsögðu ekkert í framtíðinni, því ég er mjög opinn gagnvart öllum tegundum skáldskapar.

Ljóðabækurnar eru ekki beint fantasískar en eru þó fullar af allskyns vísunum og endurvinnslum á goðsögum og samskonar furðufyrirbærum. Ég virðist vera gagntekinn af þesslags efnivið. Ég hafði ekki áttað mig á þeirri staðreynd fyrr en nýlega, eftir að ég kláraði fyrstu bókina í þríleiknum. En varðandi prósann: Ég vildi skrifa eitthvað margbrotið, sem væri í senn skemmtilegt og áhugavert. Mig langaði að segja góða sögu, en hafa líka eitthvað að segja. Mig langaði að hreyfa við fólki og um leið vekja það til umhugsunar. Einnig að lesturinn væri spennandi og fróðlegur. Fantasían; hún yrði mín málpípa. En enginn hafði skrifað íslenska fantasíu áður.

Sénsinn sem ég tók. Það tók á taugarnar lengi vel. En nú hefur sagan fengið góða dóma og góðar viðtökur lesenda. Ég er mjög þakklátur. Það besta sem ég veit er að heyra af því að almennur lesandi hrífist af sögunni. Ég skrifa sögu sem ég myndi vilja lesa og það er frábært að vita til þess að aðrir hafi gaman að henni.“


Ertu sjálfur unnandi fantasíubókmennta? Áttu þér einhverjar bókmenntalegar fyrirmyndir innan geirans?

 „Algjörlega. Ég held ég hafi reyndar aldrei farið leynt með aðdáun mína á Neil Gaiman. Hann er að mínu mati einn mesti sagnameistari samtímans. China Miéville er líka geggjaður og Susanna Clarke er frábær, svo dæmi séu nefnd. Ég skoða sem sagt mikið af „urban-fantasy“ eða borgarfantasíum. Sagan mín mætti einmitt flokkast sem slík. Það sem kallast „New Weird“ finnst mér líka mjög athyglisvert.

Málið er að markaðurinn erlendis fyrir fantasíur, vísindaskáldsögur og fleiri „genre“ í þeim dúr er svo gríðarlega stór. Það er svo margt að gerast. Bókmenntirnar skiptast í allskyns undirflokka og höfundar innan geirans eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir, þeir leika sér með stíl og form, finna alltaf upp á einhverju nýju til að segja frá.  Á Íslandi hefur hefðin fyrir þessum bókmenntum ekki skapast og mig langar að sjá breytingu á því. Miðað við meðbyrinn og viðtökurnar á Sögu eftirlifenda sé ég að Ísland er mjög svo opið fyrir fantasíum.“


Að skrifa þriggja binda fantasíu getur ekki verið neitt áhlaupaverk, hvað þá sem frumraun. Hefurðu engar áhyggjur af því að þetta risaverkefni hreinlega éti þig með húð og hári?

„Já, þetta er risaverkefni. Rannsóknarvinnan er gífurleg. Karaktersköpunin, að tvinna saman söguþráðinn, að gera þetta heilsteypt og trúverðugt, að halda áfram að þróa og skapa heimsmyndina, að gera textann sem bestan og gjarnan listrænan þegar það á við – allt er þetta mikil vinna.

Ég hef engar áhyggjur af því að þetta éti mig, því það er þegar búið að því. Að skrifa fyrstu bókina var mjög erfitt á köflum. Ekki bara það að þetta væri frumraun mín á skáldsagnasviðinu, heldur tók mest á að hafa trú á sögunni og trú á að ég væri ekki að eyða tíma og kröftum til einskis.

Núna veit ég að hverju ég geng, og sagan hefur sannað sig. Það skemmir heldur ekki fyrir að ég hef botnlausan áhuga á viðfangsefninu og þar af leiðandi er það að skrifa söguna það skemmtilegasta sem ég geri. Sem dæmi var ég í hálfgerðu spennufalli eftir að Höður og Baldur kom út, var kominn aftur til Lundar og vissi varla hvað ég ætti af mér að gera; hafði litla eirð í að lesa bókmenntateóríur fyrir skólann. Að lokum opnaði ég punktaskjölin í tölvunni og skrifbækurnar mínar og skrifaði inn í nýtt skjal: „Saga eftirlifenda – önnur bók – fyrsti kafli“. Að hefja skrifin aftur, þótt pásan hefði nú ekki verið löng, og að byrja að lifa og hrærast með sögunni og karakterunum aftur, var vægast sagt einstakt. Ég áttaði mig á því að það að skrifa heldur hversdegi mínum saman, gefur mér fyllingu til að gera allt annað. Ég hafði fengið svipaða tilfinningu margsinnis áður við vinnslu á fyrstu bók, en þessi var svo sterk að ég vissi að ekki væri aftur snúið; ég verð að segja sögur.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir