Ljóðstafur Jóns úr Vör veittur í tíunda skiptið

31. janúar, 2011

Steinunn Helgadóttir, myndlistarmaður og ljóðskáld, hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs.

Steinunn Helgadóttir, myndlistarmaður og ljóðskáld, hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Kaf“ í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. Steinunn er tíundi handhafi verðlaunanna en tilgangur samkeppninnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.

Þriggja manna dómnefnd – skipuð Gerði Kristnýju, Jóni Yngva Jóhannssyni og Sigurði Pálssyni – valdi ljóð Steinunnar úr 342 innsendum ljóðum, sem öll bárust samkeppninni undir dulnefni. Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir meðal annars að ljóð Steinunnar bregði „upp áhrifamiklum myndum af síðustu ferð rússneska kafbátsins Kursk sem fórst með allri áhöfn í Barentshafi árið 2000 [...] Höfundur kann vel þá vandasömu list að ljúka ljóði. Lokalínurnar tengjast upphafslínunni með sterku myndmáli  og í lokaorðunum eru örlög skipverjanna gefin í skyn með lágstemmdum en áhrifaríkum hætti.“

Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, að kvöldi fæðingardags Jóns úr Vör, 21. janúar. Þar var að auki kynnt ljóðakver, gefið út af lista- og menningarráði, sem hefur að geyma ljóð allra handhafa Ljóðstafsins frá upphafi, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna skáldin Lindu Vilhjálmsdóttur, Óskar Árna Óskarsson og Gerði Kristnýju. Von er á fyrstu ljóðabók Steinunnar síðar á þessu ári sem bókaforlagið Uppheimar gefur út.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir