Fjöruverðlaunin

23. mars, 2011

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt í fimmta sinn þann 20. mars í Iðnó. Um hundrað gestir sóttu hátíðina í þetta skiptið.

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt í fimmta sinn þann 20. mars í Iðnó. Skáldsagan Ljósa (Forlagið) eftir Kristínu Steinsdóttur hlaut þar verðlaun í flokki skáldverka . Í flokki barnabóka fengu þær Agniezka Nowak og Vala Þórsdóttir verðlaun fyrir bókina Þankaganga / Myślobieg (höfundar gáfu út) og bók Kristín Loftsdóttur Konan sem fékk spjót í höfuðið (Háskólaútgáfan) var verðlaunuð í flokki fræðirita.

Þetta er í annað skiptið sem Kristín Steinsdóttir fær verðlaunin en bók hennar Á eigin vegum vann til þeirra árið 2007. Í rökstuðningi dómnefndarinnar sagði að texti bókarinnar væri hæglátur og léti lítið yfir sér en hann bæri augljós merki þess að Kristín hefði „meistaraleg tök á fléttu og sjónarhorni.“ Barnabókin Þankaganga / Myślobieg er fyrsta bókin sem er skrifuð á bæði íslensku og pólsku. Í þessari fjörlegu sögu er greint frá fjölskyldulífi pólsk-íslenskrar stúlku og þótti dómnefndinni hún auka við fjölbreytni í íslenskri barnabókaútgáfu auk þess að vera „bráðskemmtileg og falleg bæði hvað varðar útlit og innihald.“ Í fræðibókinni Konan sem fékk spjót í höfuðið eru hugtök og kenningar mannfræðinnar sett fram á aðgengilegan hátt með skírskotunum til persónulegrar reynslu höfundarins af vettvangi. Í rökstuðningi dómnefndarinnar var bent á að bókin höfði til breiðs hóps og að lesandinn njóti „frásagnar Kristínar án þess að þurfa að vera heima í fræðunum.“

Það er Góuhópurinn, grasrótarhópur kvenna sem vinnur að því að styrkja stöðu og viðurkenningu íslenskra kvenrithöfunda, sem stendur að verðlaununum. Um hundrað gestir sóttu hátíðina í þetta skiptið en auk verðlaunaafhendingarinnar voru flutt erindi um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi.


Allar fréttir

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2023 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Hagþenk­ir hef­ur frá ár­inu 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings og til­nefnir tíu höf­unda og bæk­ur sem til greina koma. Viður­kenn­ingaráð Hagþenk­is, skipað fimm fé­lags­mönn­um, velur verkin.

Nánar

Allar fréttir