Á Njáluslóð

29. júní, 2011

Ferðaskrifstofan Riding Iceland skipuleggur hestaferðir um söguslóðir Njálu. „Öll okkar sem vorum í þessari ferð eigum eftir að lesa söguna allt öðruvísi héðan í frá,“ segir Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur og fararstjóri.

RidingIceland-Njala„Öll okkar sem vorum í þessari ferð eigum eftir að lesa söguna allt öðruvísi héðan í frá,“ segir Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur. Hann var einn fararstjóra í hestaferð um söguslóðir Njálu, sem skipulögð var af ferðaskrifstofunni Riding Iceland. „Hugmyndin er að tengja saman fólk sem hefur áhuga á hestamennsku og Íslendingasögunum. Þeir sem fara akandi á söguslóðir eru bundnir bílveginum. Á hestbaki setur maður sig frekar í spor sögupersónanna í Njálu, eða öllu heldur þær aðstæður sem höfundur bókarinnar setti sínar persónur í. Það eru til að mynda mörg mannvíg í Njálu sem gerast við Rangá. Það var mjög forvitnilegt að komast á milli þessara staða á hestbaki, upp að Keldum og upp að Gunnarssteini. Hugmynd manns um tengsl landafræðinnar og bókmenntanna gjörbreytist.“

„Í ferðinni áttaði maður sig á því að Njála er ekki bara bókmenntaverk, sem var mjög áhugavert. Hún er um sögupersónur í mjög raunverulegu landslagi,“ segir Tim Machan prófessor í enskum bókmenntum við Marquette háskólann í Wisconsin í Bandaríkjunum. „Ferðin gekk vel. Veðrið var ágætt og við fórum á nokkra af lykilstöðum Njálu: Hlíðarenda, Gunnarshólma og lukum ferðinni á Bergþórshvoli. Það gefur manni líka sérstaka tilfinningu fyrir verkinu að fara um staðina á hestbaki. Hlíðarendi er til að mynda langt frá Bergþórshvoli. Gunnar og Njáll voru bestu vinir, samt sem áður eru einir 20 kílómetrar á milli þessara staða!“

Hvar stendur Njála að þínu mati í bókmenntasögu heimsins?

„Við ræddum mikið um þetta atriði á ferðalaginu. Ég er þeirrar skoðunar að Njála er ekki eins þekkt bókmenntaverk og hún ætti að vera. Þetta er stórbrotið skáldverk. Sá sem skrifaði Njálu skapaði ekki síðri persónur en Shakespeare í sínum verkum.“

Frekari upplýsingar um hestaferðirnar á Njáluslóð má nálgast hér.


Ljósmynd: Riding Iceland


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir