Opnanir í Frankfurter Kunstverein

18. ágúst, 2011

Tvær listsýningar opnuðu þann 18. ágúst í samtímalistasafninu Frankfurter Kunstverein í tilefni af heiðursári Íslands í Frankfurt.

Tvær listsýningar opnuðu þann 18. ágúst í samtímalistasafninu Frankfurter Kunstverein í tilefni af heiðursári Íslands í Frankfurt.  Hér er um að ræða fyrstu stóru einkasýningu Ragnars Kjartanssonar í Þýskalandi, „Endless Longing, Eternal Return“, og ljósmyndasýninguna „Frontiers of Another Nature – Contemporary Photography in Iceland“ þar sem sýnd verða verk eftir íslenska ljósmyndara og margmiðlunarlistamenn.

Sýningarnar eru samvinnuverkefni Fotografie Forum Frankfurt, Frankfurter Kunstverein og Sögueyjunnar Íslands og standa þær yfir til 16. október.

Endalaus þrá, Eilíf endurkoma

Ragnar KjartanssonSkemmst er að minnast sex mánaða langs gjörnings Ragnars Kjartanssonar á Feneyjar-tvíæringnum árið 2009, sem vakti mikla athygli og umtal. Titill sýningarinnar, „Endless Longing, Eternal Return“, vísar til gegnumgangandi stefs í verkum Ragnars – sífellda endurtekningu ákveðins viðburðar í langan tíma, þar sem reynt er á úthald og þolmörk áhorfenda og listamannsins sjálfs. Ragnar hefur kallað sig ólæknandi rómantíker, en í verkum hans má sjá hvernig það brýst fram í samspili „weltschmerz“, eða lífsleiða, við klisjur og íroníu nútímamannsins. Á yfirlitssýningunni í Frankfurter má sjá meira en fimmtán myndbandsverk, ljósmyndaraðir og innsetningar Ragnars frá síðastliðnum tíu árum. Í tilefni af sýningunni mun Ragnar að auki svipta hulunni af nýrri höggmynd.

Mæri annarrar náttúru

„Imported Landscapes“Ljósmyndasýningin „Frontiers of Another Nature“ samanstendur af úrvali ljósmynda frá nafnkunnum og upprennandi íslenskum ljósmyndurum og margmiðlunarlistamönnum. Þema sýningarinnar er togstreitan milli náttúrulegs landslags og mannvirkja, en listamennirnir eiga það sammerkt að hafa tekist á við umfangsmiklar efnahagsbreytingar og síaukna þéttbýlismyndun á Íslandi í verkum sínum. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Ingvar Högni Ragnarsson, Hrafnkell Sigurðsson, Bára Kristinsdóttir, Haraldur Jónsson, Katrín Elvarsdóttir, Pétur Thomsen, Icelandic Love Corporation (Sigrún Hrólfsdóttir, Jóní Jónsdóttir og Eirún Sigurðardóttir), Einar Falur Ingólfsson og Spessi. 



Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir