Íslendingasögur í Corvey

5. september, 2011

Í tilefni af útkomu nýrrar heildarþýðingar Íslendingasagna á þýsku verður blásið til alþjóðlegrar ráðstefnu í klaustrinu Corvey, í Þýskalandi, þann 15. september.

Þann 15. september verður blásið til þriggja daga alþjóðlegrar ráðstefnu um Íslendingasögur í klaustrinu Corvey, í tilefni af útkomu nýrrar heildarþýðingar þeirra á þýsku 9. september næstkomandi. Þar munu fræðimenn og þýðendur flytja erindi um sögurnar, ásamt því að leiklesið verður upp úr hinum nýju þýðingum.

Heildarþýðing Íslendingasagna á þýsku er hornsteinninn í heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt. Útgáfan er jafnframt einn af hápunktum 125 ára afmælis útgefandans, bókaforlagsins S. Fischer, sem er er eitt það virtasta í Þýskalandi.

Á ráðstefnunni verða tólf Íslendingasögur fluttar af fjölda leikara langt fram eftir kvöldum. Þær verða óstyttar og má búast við því að lesturinn taki allt að tuttugu og eina klukkustund í flutningi. Undir lestrinum munu svo leika tónar íslenska tónlistarhópsins Caput og Ólafs Arnalds, auk annarra tónlistarmanna frá Noregi, Danmörku og Þýskalandi.

Helstu sérfræðingar á sviðum norrænna fræða og Íslendingasagna, frá Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Íslandi, munu ræða um sögurnar; menningarleg áhrif þeirra, sögulegt samhengi og lagakerfi. Á ráðstefnunni munu þýðendur einnig ræða um reynslu sína af því að þýða miðaldabókmenntir yfir á nútímamál. Keníski rithöfundurinn Ngugi wa Thiongo'o, sem var gestur Bókmenntahátíðar Reykjavíkur árið 2009, mun svo flytja fyrirlestur um Íslendingasögurnar sem ber heitið „Reading the Sagas under the sub-Saharan Sun“.

Framhaldslíf Íslendingasagna í skrifum nútímarithöfunda, íslenskra og erlendra, verður einnig tekið til umfjöllunar á ráðstefnunni. Munu rithöfundarnir Sjón, Ulf Stolterfoht, Roy Jacobsen og Einar Kárason ræða um endurnýjun sagnanna í nútímabókmenntum.

Ráðstefnan er samstarfsverkefni Literaturbüro Ostwestfalen-Lippe, Sögueyjunnar Íslands og S. Fischer Verlag. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast hér, á heimasíðu Literaturbüro Ostwestfalen-Lippe.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir