Opnunarathöfn Bókasýningarinnar

11. október, 2011

Formleg opnunarathöfn Bókasýningarinnar í Frankfurt fór fram 11. október, fyrir fullu húsi, þar sem Arnaldur Indriðason og Guðrún Eva Mínervudóttir töluðu fyrir hönd íslenskra rithöfunda. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flutti ræðu fyrir hönd heiðursgestsins.

Opnun Bókasýningarinnar í Frankfurt - Arnaldur IndriðasonFormleg opnunarathöfn Bókasýningarinnar í Frankfurt fór fram 11. október, fyrir fullu húsi, þar sem metsöluhöfundurinn Arnaldur Indriðason og hinn ungi rómaði höfundur Guðrún Eva Mínervudóttir töluðu fyrir hönd íslenskra rithöfunda. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flutti ræðu fyrir hönd heiðursgestsins.

Við athöfnina voru einnig viðstödd Gottfried Honnefelder, forseti félags bókaútgefenda í Þýskalandi, Jürgen Boos, framkvæmdarstjóri Bókasýningarinnar í Frankfurt, Petra Roth, borgarstjóri Frankfurt, Jörg-Uwe Hahn, staðgengill forsætisráðherra sambandsríkisins Hessen og Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands.

 Vinir okkar í Þýskalandi eiga ekki minnstan þátt í viðgangi íslenskra bókmennta á erlendri grundu í áranna rás,“ sagði Arnaldur Indriðason í ræðu sinni. „Þeir hafa sýnt þeim áhuga, gefið þær út og lesið. Og nú hafa þeir góðu vinir boðið okkur að vera heiðursgestir í þessari mestu bókaveislu heimsins svo að við getum fengið færi á að sýna að bókmenntir okkar eru vitnisburður um stærð hins smáa.“

Guðrún Eva sagði að skáldskapurinn væri ekki alltaf þægilegur. „Það er mikilvægt að hann eigi í góðvinasambandi við óþægilegan sannleika af öllu tagi. Mikilvægasta hlutverk bókmenntanna er að hreyfa við okkur og hræða okkur, hrista burt doðann, hrífa hugsunina upp á hærra plan, virkja fegurðarskynið og blása okkur í brjóst réttláta reiði, baráttu fyrir réttlætinu og ást til lífsins. Heimur skáldskaparins er ótakmarkaður og okkar hlutverk er að halda áfram að kanna hann og stækka. Og til þess erum við einmitt hingað saman komin.“

„Heiðurssætið sem Ísland skipar er viðurkenning sem við metum mikils,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í ávarpi sínu. „Þetta er vináttuvottur sem við munum lengi hafa í minnum, bautasteinn helgaður þeim sem á fyrri öldum skráðu sögur á skinn og viðurkenning á gróskumikilli uppskeru skáldanna sem mótað hafa okkar tíma, hvatning ungum höfundum um að vera í glímunni við þá mælistiku sem heimurinn telur besta ávallt trúr sínu fólki.“

Að ræðuhöldum loknum lá leiðin í íslenska skálann, sem hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi. Þar gefur að líta myndbandsportrett af Íslendingum sem lesa upp úr eftirlætisbókum sínum. Frá sviði heimilisbókasafna færa gestir sig svo yfir í vandaða 360 gráða kvikmyndarinnsetningu sem sýnir stórbrotið landslag og náttúrufyrirbæri Íslands með áhrifamiklum hætti. Gestum gefst í skálanum einnig sá kostur að hvíla sig á ys og þys bókasýningarinnar og hitta fólk í afslöppuðu „íslensku“ andrúmslofti.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir