Bókmenntaverðlaunin afhent

3. nóvember, 2011

„Aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir að standa hér í sömu sporum  og aðrir ágætir höfundar sem hafa hlotið þessi verðlaun,“ sagði Gyrðir Elíasson við afhendingu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Gyrðir Elíasson - við ahendingu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs„Aldrei hefði mig grunað, þegar ég var unglingur að lesa Klakahöllina eftir Tarjei Vesaas og Vonin blíð eftir William Heinesen, að ég ætti eftir að standa hér í sömu sporum og þeir og aðrir ágætir höfundar sem hafa hlotið þessi verðlaun,“ sagði Gyrðir Elíasson, rithöfundur, við afhendingu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á hátíðlegri athöfn í Konunglega tónlistarskólanum í gær.

Tilkynnt var um verðlaunin í apríl á þessu ári, en þau hlýtur Gyrðir fyrir bók sína Milli trjánna, sem er þegar komin út í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, og er frönsk þýðing hennar væntanleg að auki.

 „Samlíf við land og náttúru, fólk og dýr, er jafnmikilvægt og sú menntun sem borgarsamfélög nútímans bjóða upp á, og reyndar byggir öll sönn menntun á þessu, þegar grannt er skoðað, enn þann dag í dag,“ sagði Gyrðir í þakkarræðu sinni. „Þegar sú stund rennur upp að borgarsamfélögin hafa að fullu gleymt uppruna sínum, er voðinn vís. Undir allri steinsteypunni er ennþá mold. Ég vona að heimur tækni og svokallaðra framfara muni aldrei yfirskyggja til fulls það lífsmagn sem skáldskapurinn býr yfir, lífsmagn sem er skylt sjálfri jörðinni.“

Þrjár bækur eftir Gyrði komu út á þýsku á heiðursári Íslendinga á Bókasýningunni í Frankfurt. Ljóðabókin Nokkur almenn orð um kulnun sólar og skáldsögurnar Gangandi íkorni og Sandárbókin.

Tengt efni:

Höfundur mánaðarins: viðtal við Gyrði Elíasson

Ljósmynd: NN - norden.org


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir