‚10 ráð‘ á svið í Austurríki

10. nóvember, 2011

Leikverk byggt á skáldsögu Hallgríms Helgasonar 10 ráð til að hætta að drepa og byrja að vaska upp frumsýnt í Schauspielhaus-leikhúsinu í Salzburg í Austurríki.

Schauspielhaus Salzburg - 10 ráð til að hætta að drepa og byrja að vaska uppLeikverk byggt á skáldsögu Hallgríms Helgasonar 10 ráð til að hætta að drepa og byrja að vaska upp var frumsýnt í síðustu viku í Schauspielhaus-leikhúsinu í Salzburg í Austurríki. Leikgerð og leikstjórn er í höndum Peter Arp og hefur sýningunni verið vel tekið af austurrískum gagnrýnendum. „Spennandi og truflandi farsi um stríð, líf og dauða,“ segir gagnrýnandi Drehpunkt Kultur. Gagnrýnandi Kronen Zeitung, stærsta dagblaðs Austurríkis, segir verkið ganga „stórkostlega vel upp.  Allt lifnar við þökk sé nákvæmlega stilltu samspili leiks og orða.“

Nálgast má stiklu fyrir leiksýninguna hér á heimasíðu Schauspielhaus Salzburg.

Eins og kunnugt er stendur einnig til að færa nýútkomna skáldsögu Hallgríms, Konan við 1000°, á svið Þjóðleikhússins hér á landi. Hallgrímur lauk nýverið stífri upplestrarferð um Þýskaland til kynningar á bókinni, þar sem hann las upp í tuttugu borgum á þremur vikum, en skáldsagan kom í fyrstu út í Þýskalandi fyrir Bókasýninguna í Frankfurt. Hefur hún vermt sæti þýskra metsölulista og hafa móttökur gagnrýnenda verið sérdeilis góðar. 

„Yndislega klikkuð skáldsaga,“ segir gagnrýnandi Süddeutsche Zeitung. Gagnrýnandi SWR3 Radio skefur ekki utan af því og segir hana vera „bók ársins“. „Hér er svo mikið af frumlegum hugmyndum að dugað gæti öðrum í heilan rithöfundaferil,“ segir gagnrýnandi NDR Kultur. Hjá Deutschlandradio Kultur er Hallgrímur svo borinn saman við eitt merkasta skáld Þjóðverja: „Hallgrími Helgasyni hefur tekist að skrifa stórkostlega íslenska útgáfu af kararlegunni í anda Heinrichs Heine.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir