Íslenskir rithöfundar á erlendri grundu

23. ágúst, 2012

Íslenskar bókmenntir eru víða áberandi á erlendum vettvangi um þessar mundir. Íslenskir rithöfundar hafa komið töluvert við sögu  á bókmenntahátíðinni í Edinborg. Það styttist einnig í bókasýninguna í Gautaborg, þar sem átta íslenskir rithöfundar munu koma fram.

Íslenskar bókmenntir eru víða áberandi á erlendum vettvangi um þessar mundir. Íslenskir rithöfundar hafa komið töluvert við sögu  á bókmenntahátíðinni í Edinborg, sem stendur yfir til 27. ágúst. Það styttist einnig í bókasýninguna í Gautaborg, sem haldin verður 27.-30 september, og munu átta íslenskir rithöfundar sækja hana heim í þetta sinn.

Alls komu fimm íslenskir rithöfundar fram á bókmenntahátíðinni í Edinborg í ár. Íslenskar bókmenntir voru viðfangsefni viðburðarins „The Fable of the Hungry Icelander“, þar sem Andri Snær Magnason, Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Sjón lásu upp úr verkum sínum. Á hátíðinni sat Andri Snær að auki á rökstólum með Ferdinand Mount, fyrrum ræðuhöfundi Margaret Thatcher, og rithöfundinum Jules Goddard um markaðsöfl og aðra valkosti eftir efnahagslægð síðustu ára. Voru viðburðirnir skipulagðir í samstarfi við Bókmenntasjóð.

Yrsa Sigurðardóttir var einnig stödd á hátíðinni og kom hún fram á sviði ásamt skoska glæpasagnarithöfundinum Peter May. Hún tók auk þess þátt í dagskrá á vegum Amnesty International þar sem vakin var athygli á verkum rithöfunda sem hafa verið fangelsaðir eða sætt pyntingum vegna kynhneigðar sinnar.

Bókasýningar í haust

Norðurlöndin verða þungamiðjan á bókasýningunni í Gautaborg í ár en þar munu rithöfundarnir Áslaug Jónsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Gerður Kristný, Hugleikur Dagsson, Ragnar „Rax“ Axelsson, Sjón og Steinunn Sigurðardóttir ræða um norrænar bókmenntir og kynna verk sín á hinum ýmsu viðburðum.

Meðal viðburða bókasýningarinnar verður málþing tileinkað heildarþýðingu Íslendingasagnanna á norsku, dönsku og sænsku, einu viðamesta þýðingarverkefni í sögu íslenskra bókmennta. Um sextíu þýðendur taka þátt í verkefninu, en skemmst er að minnast þess að heildarútgáfa Íslendingasagna kom út á þýsku í fyrra hjá S. Fischer Verlage . Ritstjórarnir Kristinn Jóhannesson, Karl G. Jóhannsson og Gunnar D. Hansson munu kynna verkefnið, ásamt þýðendunum Önnu G. Gronberg og Inge Knutsson.

Að lokum má minna á að Bókasýningin í Frankfurt verður haldin 10.-14. október, einu ári eftir vel lukkaða heiðursþátttöku Íslands þar. Sameiginlegi íslenski standurinn, þar sem íslensk forlög kynna útgáfu sína, mun að þessu sinni bera með sér sterka vísun í íslenska heiðurskálann árið 2011 með heimilislegri stofustemmningu.

 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir