Bókasýningin í Gautaborg

24. september, 2012

Bókasýningin í Gautaborg verður haldin 27.-30 september, en hún er á meðal mikilvægustu bókmenntaviðburða í Evrópu ár hvert. Í ár verða Norðurlöndin í brennidepli og munu fjölmargir íslenskir rithöfundar koma fram og kynna verk sín.

Bókasýningin í Gautaborg verður haldin 27.-30 september, en hún er á meðal mikilvægustu bókmenntaviðburða í Evrópu ár hvert. Sýningin er stærst sinnar tegundar í Skandinavíu, með yfir 100.000 gesti, og og er hún bæði bókasýning og bókmenntahátíð í senn.

Í ár verða Norðurlöndin í brennidepli og munu fjölmargir íslenskir rithöfundar koma fram, kynna verk sín og ræða þau í samhengi við bókmenntir heimsins og líðandi stundu. Sögueyjan Ísland, Bókmenntasjóður og íslenskir útgefendur verða með sameiginlegan íslenskan bás á sýningunni, þar sem íslenskar bókmenntir verða kynntar gagnvart erlendum útgefendum.

Norræna sýningarsvæðið

Sýningin opnar formlega á norræna sýningarsvæðinu, fimmtudaginn 27. september, að Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, viðstaddri. Síðar um daginn fara fram umræður þar sem sjónum verður beint að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á norsku, dönsku og sænsku. Útgáfan er eitt stærsta þýðingarverkefni sem lagt hefur verið í á heimsvísu, en fleiri en sextíu þýðendur koma að því. Einn ritstjóra útgáfunnar, Kristinn Jóhannesson, mun þar ræða um verkefnið og að hvaða leyti Íslendingasögurnar tilheyra sameiginlegum bókmenntaarfi Norðurlanda, ásamt þýðandanum Inge Knutsson. Bókaforlagið Saga og Bókmenntasjóður skipuleggja viðburðinn, í samstarfi við Norðurlandaráð.

Föstudaginn 28. september mun rithöfundurinn Sjón, handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005, ræða við Trine Bille, prófessor við Copenhagen Business School, um markaðsleg og menningarleg gildi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Einar Már Guðmundsson stígur á stokk í höfundaspjalli á laugardeginum 29. september, þar sem hann mun ræða um verk sín við Marianne Rundström, sjónvarpskonu hjá sænska ríkissjónvarpinu. Einar Már er Norðurlandabúum að góðu kunnur, verk hans hafa komið út víða, hann hefur hlotið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og síðasta vor fékk hann heiðursverðlaun sænsku akademíunnar, sem einnig eru oft nefnd „litli nóbellinn“ og eru veitt höfundi fyrir framlag þeirra til bókmennta.

Íslenskir höfundar víðar

Utan norræna sýningarsvæðisins fer einnig fram umfangsmikil dagskrá um norrænar bókmenntir, þar sem íslenskir höfundar munu heldur ekki láta sig vanta.

Á ljóðadagskrá bókasýningarinnar koma fram þrjú íslensk ljóðskáld. Emil Hjörvar Petersen mun lesa upp ljóð við frumsamda raftónlist og þar koma einnig fram skáldin Sjón og Eiríkur Örn Norðdahl. Eiríkur Örn mun enn fremur taka þátt í spjalli með öðrum skáldum frá Norðurlöndunum um norrænu ljóðlistarsenuna, tengslanet norrænna skálda og samstarf þeirra á milli.

Á bókasýningunni fer einnig fram fjöldinn allur af pallborðsumræðum með þátttöku íslenskra rithöfunda. Umfjöllunarefnin eru mörg og snúa að bókmenntum og menningu frá ýmsum sjónarhornum.

Föstudagur

  • Steinunn Sigurðardóttir tekur þátt í pallborðsumræðum um bókmenntalandslag Norðurlandanna með öðrum norrænum rithöfundum undir yfirskriftinni „Finns Norden?“.
  • Einar Már Guðmundsson tekur þátt umræðum um harmleikinn í Útey, þar sem sjónum verður einnig beint að breyttu efnahags- og stjórnmálalandslagi Norðurlandaþjóðanna.

Laugardagur

  • Rithöfundurinn Sjón mætir norska rithöfundinum Erlend Loe í umræðu um hvaða áhrif Snorra-Edda og Eddukvæðin hafa haft á samtímabókmenntir Norðurlanda.  Þar verður einnig spurt hvort hægt sé að tala um hugtakið „norrænn stíll í bókmenntum“. Sjón tekur einnig þátt í umræðum síðar um daginn um bókmenntaborgirnar Reykjavík og Dublin, sem Steinunn Sigurðardóttir stýrir. Báðar borgirnar hafa nýverið hlotið titilinn Bókmenntaborg UNESCO, til viðurkenningar á bókmenningu þeirra.
  • Myndskreytirinn og barnabókarithöfundurinn Áslaug Jónsdóttir kemur fram í umræðum um samvinnu barnabókahöfunda og myndskreyta
  • Hugleikur Dagsson mun svo bregða á leik með danska grínteyminu Wulffmorgenthaler, en þar mun einnig verða gerð tilraun til að komast til botns um það hvað kímnigáfa sé eiginlega.

Sunnudagur

  • Gerður Kristný tekur þátt í umræðum um vestnorrænar barnabókmenntir, þar sem rætt verður um verk barnabókahöfunda frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, og sjónum beint að stöðu barnabóka hjá vest-norrænu ríkjunum.
  • Á sunnudeginum opnar sýning á ljósmyndum Ragnars „RAX“ Axelssonar, sem hefur undanfarinn aldarfjórðung skrásett örar breytingar á lifnaðarháttum, umhverfi og náttúru á norðurslóðum með myndavélina að vopni.

Dagskrá íslensku höfundanna er unnin í samstarfi Bókmenntasjóðs og bókmenntakynningarstofa Norðurlanda. Frekari upplýsingar um bókasýninguna í Gautaborg má nálgast á vefsíðu hennar bokmassan.se


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir