LoveStar og Blái hnötturinn Vestanhafs

2. október, 2012

Tvær bækur Andra Snæs Magnasonar eru væntanlegar hjá bandaríska forlaginu Seven Stories Press. Þær hafa nú báðar hlotið stjörnum prýdda dóma í tímariti útgefenda þar í landi, Publishers Weekly.

Um miðjan nóvember eru tvær bækur Andra Snæs Magnasonar væntanlegar hjá bandaríska forlaginu Seven Stories Press. Þær hafa nú báðar hlotið stjörnum prýdda dóma í tímariti útgefenda þar í landi, Publishers Weekly. Hér er um að ræða Söguna af bláa hnettinum, sem nú hefur komið út í meira en 30 löndum og LoveStar, en hún hefur áður verið gefin út í Þýskalandi og Ungverjalandi, auk Íslands.

Hjá Publishers Weekly var Sagan af bláa hnettinum sögð minna um margt á verk hins kunna barnabókahöfundar Roalds Dahl og að sagan væri bæði hnyttin og andrík. Þá var sagt um LoveStar að í þessari ákaflega frumlegu bók mætti finna áhrif frá höfundum eins og Douglas Adams, George Orwell og Kurt Vonnegut á hverri síðu og að frjótt ímyndunarafl Andra Snæs væri ákaflega hressandi. Aðspurður um hvaða þýðingu slíkir dómar hafa fyrir höfundinn sjálfan segir Andri Snær að bókabúðirnar taki frekar eftir bókinni, hafi hún fengið dóma í virtum tímaritum, og að hann sé hinn ánægðasti með umsagnirnar.

„Það verður líka spennandi að fylgjast með viðtökunum í kjölfarið, en ég er sjálfur uppalinn í Bandaríkjunum og það er gaman að fá að koma þangað með einhver bókmenntaáhrif og eiga hlut í þessum örfáu prósentum þýddra bókmennta sem koma út þar í landi.“ Þess má geta að hlutfall þýddra bókmennta er í Bandaríkjunum er aðeins um 1,5% útgefinna verka.

Tímasetning bandarísku útgáfunnar er ákaflega heppileg því á næstunni verður meðal annars leiklestur á Sögunni af bláa hnettinum á norrænni leikritahátíð í Chicago sem fer fram dagana 5.-7. október og Andri Snær verður síðan gestur á alþjóðlegri bókmenntahátíð í Toronto í Kanada undir lok mánaðarins. Í apríl verður Blái  hnötturinn enn á ferðinni því þá verður hann settur upp hjá stærsta barnaleikhúsi Kanada, en verkið hefur verið sýnt víðar, m.a. í Sviss og í Finnlandi.

Andri Snær er þessa dagana að vinna að nýrri bók. Hún hefur enn ekki fengið endanlegt nafn en ætti að höfða breiðs aldursbils, að sögn Andra, og er efniviðurinn ævintýralegur og spennandi. „Bókin fjallar um konung sem hefur sigrað heiminn, en þráir að sigra tímann líka,“ segir Andri. „Honum finnst ósanngjarnt að hann fái ekki meiri tíma en aðrir, að prinsessan fagra muni eldast og gleymast eins og venjuleg manneskja, en svo fær hann lausn á því máli sem hefur afdrifaríkar afleiðingar bæði í fortíðinni og í okkar heimi, sem er hitt planið sem bókin gerist á.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir