Íslendingasögur þýddar á fjöllum

16. október, 2012

„Íslenskir rithöfundar voru eins og hálfgerðar rokkstjörnur,“ segir þýðandinn Ursula Giger um áhuga þýskumælandi lesenda á íslenskum bókmenntum á meðan á heiðursárinu í Frankfurt stóð.

Segja má að Ursula Giger sé orðin einn helsti sérfræðingur Svisslendinga um íslenskar bókmenntir eftir þrotlausa þýðingarvinnu fyrir þýsk forlög í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt í fyrra. Hún kennir íslensku í Basel og Zürich, hefur þýtt Íslendingasögur, smásögur og skáldsögur og stýrt höfundakynningum víða í hinum þýskumælandi heimi. Á sumrin gengur hún á íslensk fjöll með franska ferðamenn og er auk þess listrænn stjórnandi bókmenntahátíðar í Zofingen í Sviss þangað sem fjölda íslenskra höfunda var boðið í fyrra í tengslum við heiðursþátttökuna í Frankfurt.

„Skemmtilegasta þýðingarvinnan á þessu tímabili voru tvímælalaust Íslendingasögurnar.“ segir Ursula þegar hún er spurð um hvað sæti helst eftir, þegar þýðingunum væri lokið í bili. „Starf þýðandans er að mörgu leyti einmanalegt, maður rýnir í textann og getur kannski ekki leitað til margra þegar kemur að því að þurfa að leysa þýðingarvanda. Þegar við unnum að Íslendingasagnaþýðingunum hittist allur hópurinn þrisvar sinnum á þýðingartímabilinu og gátum við þar greitt úr ýmsum flækjum, leyst þýðingarvanda og stappað stálinu hvert í annað. Þetta var nefnilega ekkert smáræðisverkefni, bæði erfitt og skemmtilegt í senn, en það er sérlega gaman að sjá afraksturinn.“ Ursula þýddi tvær Íslendingasögur í heildarsafninu sem kom út hjá S. Fischer Verlage: Heiðarvígasögu og Hænsna-Þórissögu.

Íslenskir rithöfundar eins og rokkstjörnur

Eftir að Ursula hafði skilað af sér öllum þýðingum til þýskra forlaga tók við heilmikið kynningarstarf. „Ég kynnti íslenska rithöfunda víða, bæði þá sem ég hafði þýtt og aðra. Bara í þýska hluta Sviss voru haldin fimmtán upplestrarkvöld með íslenskum höfundum á hálfu ári auk þess sem heil bókmenntahátíð var tileinkuð íslenskum bókmenntum með þátttöku níu íslenskra höfunda, það er ekkert lítið.“

Kom áhugi Svisslendinga á íslenskum rithöfundum Ursulu á óvart? „Ég bjóst allaveganna ekki við að íslenskir rithöfundar væru eins og hálfgerðar rokkstjörnur. Sama fólkið kom aftur og aftur á upplestra, eltu höfundinn á milli borga og bæja til þess að hlýða á hann lesa og fá áritaða bók. Það var skemmtilegt að upplifa slíkt.“

Kynningarstarfið hélt áfram þegar Bókasýningin var sett í Frankfurt í október því Ursula var ein þeirra sem stýrði höfundakynningum í íslenska skálanum. En hvernig fóru þær kynningar fram og voru þær ólíkar hinum sem Ursula hafði tekið þátt í?

„Það var gaman að fá að fylgja verkefni til enda og vera með í Frankfurt líka. Við vorum oftast tvær saman, ég og Tina Flecken þýðandi. Við skiptumst á að kynna höfunda og túlka, því samtölin fóru yfirleitt fram á íslensku og þá túlkaði önnur okkur samtalið á þýsku um leið. Það heppnast vel og skilaði sér vel til áhorfenda, sem voru alveg ótrúlega margir í íslenska sýningarskálanum. Þeir sem ekki fengu sæti í salnum sátu á gólfinu, sviðinu og röðuðu sér upp við alla veggi til að hlýða á íslenska höfunda. Það var frábært að sjá.“

Mun meiri ásókn í íslenskunámið

„Ég verð vör við mun meiri Íslandsáhuga í Sviss eftir heiðursárið,“ svarar Ursula aðspurð um hvort hún taki eftir aukinni umræðu um Ísland og íslenskar bókmenntir í þýska hluta Sviss. „Í fyrrahaust tvöfaldaðist fjöldi íslenskunema í Basel og Zürich. Í öðrum kúrsinum fór fjöldinn úr u.þ.b. 15 nemendum í 30, og í hinum kúrsinum úr 12 í 22. Ég bjóst ekki við slíkum fjölda og er spennt að sjá hversu margir skrá sig til leiks á þessu hausti.“

En hvað tekur svo við hjá Ursulu? „Bókmenntahátíðin í Zofingen í Sviss á hug minn allan þessa dagana. Eftir velgengni íslenskra höfunda þar í fyrra var ég ráðin listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Ég gæti ekki verið ánægðari með þá þróun mála. Hátíðin er haldin í beinu kjölfari Bókasýningarinnar í Frankfurt á hverju ári og höfundarnir sem taka þátt eru frá landi heiðursgestsins. Í ár eru það því ný-sjálenskir höfundar sem eiga sviðið í Zofingen því Nýja-Sjáland er heiðursgestur í Frankfurt. Það verður spennandi að sjá hvort ný-sjálensku höfundarnir eru jafnskemmtilegir og þeir íslensku voru í fyrra!“

Þegar bókmenntahátíðinni í Zofingen lýkur í lok október tekur íslenskukennslan og önnur Íslandstengd verkefni við hjá Ursulu. „Eitt verkefni sem er framundan hjá mér er að hafa upp á nótum við íslensk sönglög og hjálpa svissneskum kór með íslenska framburðinn, því um daginn kom til mín kórstjóri frá Basel sem vill búa til dagskrá með íslenskum sönglögum svo ég sé fram á að hafa nóg að gera í Íslandstengdum verkefnum á næstunni.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir