Furðusögur á ferð og flugi

18. október, 2012

Rithöfundurinn Emil H. Petersen tók á dögunum þátt í ráðstefnu um fantasíur og vísindaskáldskap í Svíðþjóð. Alþjóðleg furðusagnaráðstefna í Flórída er næst á dagskrá hjá honum og annað bindi þríleiksins Saga eftirlifenda væntanlegt.

Emil Hjörvar Petersen kvaddi sér hljóðs fyrir tveimur árum síðan sem furðusagnahöfundur með bókinni Höður og Baldur, fyrsta bindinu í þríleiknum Saga eftirlifenda. Frásögnina byggir hann á norrænni goðafræði, en þar kennir einnig ýmissa annarra grasa þar sem persónum og minnum keltneskra, austurlenskra og grískra goðsagna bregður að auki fyrir. Bókin hefur verið kennd samhliða norrænni goðafræði í Menntaskólanum við Sund og er á kjörbókalistum annarra framhaldsskóla á Íslandi.

Emil tók á dögunum þátt í ráðstefnu um fantasíur og vísindaskáldskap í Uppsölum í Svíþjóð. Ráðstefnan ber heitið Swecon og þar koma saman höfundar, fræðimenn og áhugafólk til að bera saman furðusögur sínar.

„Í raun er þetta uppskeruhátíð furðusagnasenunnar þar í landi. Mér var boðið að vera einn af gestahöfundunum í ár og kom fram sem íslenskur furðusagnahöfundur,“ segir Emil, aðspurður um þátttöku sína á ráðstefnunni. „Hún var haldin í Uppsölum og þangað ferðaðist ég helgina eftir að ég las upp ljóð á Bókamessunni í Gautaborg. Á Swecon byrjaði ég á því að taka þátt í pallborðsumræðum ásamt þremur öðrum höfundum um ritlist og skrifferlið. Það voru stórskemmtilegar og gefandi umræður. Það vildi svo skemmtilega til að umræðurnar fóru fram rétt á undan setningarathöfninni, þannig að fjölmargir gestir voru þar mættir. Daginn eftir flutti ég fyrirlestur um norræna goðafræði í furðusögum, ræddi Sögu eftirlifenda og las upp úr kynningarþýðingum á ensku.“

Hvernig voru viðtökurnar?

„Salurinn var pakkaður og ég fékk vægast sagt góðar viðtökur. Eftir fyrirlesturinn beið fólk í röð eftir því að fá að spjalla nánar um efnið og söguna; því fannst hugmyndin um að skrifa um eftirlifendur Ragnaraka brilljant og var spennt fyrir því að lesa þýðingar á þríleiknum. Ráðstefnan var alveg frábær og ég fór frá Uppsölum sannfærður um að geta deilt Sögu eftirlifenda með erlendum lesendum í náinni framtíð.“

Í mars næstkomandi heldur Emil til Flórída í Bandaríkjunum, þar sem hann verður gestahöfundur á The International Conference on the Fantastic in the Arts. Nafnkunnustu höfundar geirans hafa sótt ráðstefnuna heim í gegnum tíðina, svo sem Neil Gaiman, sem verður heiðursgestur á næstu ráðstefnu, og China Miéville sem var heiðursgestur hennar í fyrra.

Heljarþröm

Frá Emil er væntanlegt annað bindið í Sögu eftirlifenda og nefnist það Heljarþröm. Emil hefur að eigin sögn unnið að nýja bindinu nánast sleitulaust frá því Höður og Baldur kom út, en mikil hugmynda- og rannsóknarvinna liggur að baki báðum bókunum.

Hvers mega lesendur vænta í Heljarþröm?

„Það er af mörgu að taka, því að bókin er ansi umfangsmikil. Ég legg mikla áherslu á að segja góða sögu, að skrifa vandaða furðusögu á íslensku fyrir fullorðna á sannfærandi hátt. Heljarþröm er með mikið skemmtanagildi, en þar eru einnig vangaveltur um fjölmenningu, trúarbrögð, örlög, orsök og afleiðingu, mátt sagnanna og fleira. Lesendur mega vænta stórskemmtilegs söguþráðs, sem sver sig í ætt við borgarfantasíur, síðhamfarasögur og jafnvel gufupönk .“

Emil segir að sagan hafi verið rétt að hefjast í fyrstu bók. „Núna gerist hún á tveimur tímabilum, aðallega út frá þremur sjónarhornum; Baldri, Heði og Skaða, en við kynnumst einnig öðrum eftirlifendum betur. Nýjar og skemmtilegar persónur koma til sögunnar, til dæmis lærimeistarinn Li Bai, síðasti drúídinn Múrak, bæjarvætturin Bokki, valkyrjan Sigurdrífa og ein persónanna verður Boudica endurholdguð. Heljarþröm býður meðal annars upp á vakningu Terrakotta-hersins, váleg Eyðilönd árið 2310, íslenskan tröllaættbálk, loftskipaferðir og margt fleira. Inn kemur nýr eftirlifandi sem spilar veigamikið hlutverk: sonur Haðar og Lífar,“ en hér staldrar höfundurinn við. „Segi ekki meir. „No spoilers,“ eins og þeir segja.“

Bókin er væntanleg í lok október.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir