Bókamessa í Reykjavík

13. nóvember, 2012

Bókmenntaumræður með menntamálaráðherra í borgarstjórnarsalnum, pólitík í matsalnum, upplestrar, ljóð og söngur á kaffihúsi, fjölbreytt barnadagskrá og allar nýjustu bækurnar. Ráðhúsið mun iða af lífi helgina 17. – 18. nóvember.

Helgina 17. – 18. nóvember standa Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fyrir bókamessu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Útgefendur sýna nýjar bækur og boðið verður upp á fjölbreytta bókmenntadagskrá fyrir unga sem aldna. Þarna gefst því einstakt tækifæri til að kynna sér litskrúðuga bókaflóru ársins. Lesendum gefst einnig færi á að spjalla við höfunda því fjölmargir þeirra verða á svæðinu og munu sumir bjóða upp á áritanir.

Bókmenntir í fyrsta sinn eina málið á dagskrá í sal borgarstjórnar

Í fyrsta sinn verður boðið upp á bókmenntadagskrá í borgarstjórnarsalnum, en þar verða umræður um bókmenntir kl. 14 – 15 báða dagana. Fyrri daginn fær Eiríkur Guðmundsson rithöfundur og útvarpsmaður fjóra af okkar þekktustu höfundum í spjall um nýjar skáldsögur þeirra og á sunnudeginum stýrir Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra umræðum um nokkrar skáldsögur sem tengjast sögu eða sagnaarfi okkar Íslendinga. Til Eiríks koma þær Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir og Steinunn Sigurðardóttir og verður sjónum beint að ástinni í annars ólíkum bókum þessara skáldkvenna. Katrín fær hins vegar fimm höfunda sagna sem tengjast sögu og samtíma í spjall, þau Einar Kárason, Eyrúnu Ingadóttur, Kristínu Steinsdóttur, Pétur Gunnarsson og Vilborgu Davíðsdóttur.

Þótt stjórnmál verði ekki á döfinni í sal borgarstjórnar að þessu sinni eiga þau sinn stað á messunni, því Guðni Th. Jóhannesson mun ræða við þá Styrmi Gunnarsson og Svavar Gestsson um splunkunýjar bækur þeirra sem takast báðar á við íslenska stjórnmálasögu. Fleiri bækur af sagnfræðilegum toga verða til umfjöllunar. Einn erlendur gestur verður á messunni, bandaríski fantasíuhöfundurinn Ransom Riggs, og mun rithöfundurinn Sjón ræða við hann. Fjölmargt annað er á dagskrá fyrir fullorðna og börn og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Vestfirskir höfundar og sagnamenn koma í heimsókn, boðið verður upp á ljóðadagskrá og tónlist, efnt til vítaspyrnukeppni og lesið upp úr bókum. Síðast en ekki síst verða kræsingar úr nýjum matreiðslubókum á boðstólum alla helgina.

Dagskrána í heild sinni er að finna á vef Bókmenntaborgarinnar.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir