Lögreglumaður með háleit markmið

17. desember, 2012

„Herði finnst heimurinn vera vondur og óréttlátur staður,“ segir rithöfundurinn Stefán Máni um aðalpersónu nýjasta spennutryllisins úr smiðju hans.

„Herði finnst heimurinn vera vondur og óréttlátur staður,“ segir rithöfundurinn Stefán Máni aðspurður um bakgrunn lögreglumannsins Harðar Grímssonar, aðalpersónu nýjasta spennutryllisins úr smiðju hans. „En hann vill gera heiminn örlítið betri með því að loka illmenni og drullusokka bak við lás og slá.“

Bókin heitir Húsið og er ellefta skáldsaga Stefáns Mána. Hún sver sig í ætt við fyrri verk höfundar og er bæði hrollvekjandi og æsispennandi. Húsið hefur hlotið góðar viðtökur, bæði lesenda og gagnrýnenda sem segja illmennið raunverulega illt og sögufléttuna góða.

Bókin segir frá voveiflegum atburðum sem áttu sér stað í lok áttunda áratugarins þar sem hjón með tvo ung börn fórust í bruna. Sonur hjónanna komst lífs af úr brunanum en man ekkert um atburðina. Hann þjáist af martröðum þar sem maður með hamar í hendi kemur við sögu. Rúmum þrjátíu árum síðar er lögreglumaðurinn Hörður Grímsson kallaður á vettvang í íbúðahverfi í Reykjavík. Maður finnst látinn og flest bendir til að um slys sé að ræða, en Hörður er ekki á sama máli og rannsakar mannslátið sem sakamál. Húsið kemur aftur við sögu og illskan sem þar býr losnar úr læðingi. Fjögurra manna fjölskylda flyst í það og draugar fortíðar fara á stjá.

Húsið er þriðja bókin þar sem lögreglumaðurinn tröllvaxni, Hörður Grímsson, kemur við sögu. Lesendur kynntust honum fyrst í bókinni Hyldýpi (2009), þá sem aukapersónu, en í Feigð (2011) steig hann fram sem aðalsöguhetja í örlagaþrungnum spennutrylli þar sem snjóflóðið í Súðavík árið 1995 kom við sögu. Um Hörð segir Stefán Máni: „Hann er Súðvíkingur, sjómannssonur. Þegar hann er 17 ára kemst hann ásamt föður sínum lífs af úr sjóslysi þar sem maður ferst. Tveimur árum síðar missir hann foreldra sína og tvö yngri systkini þegar snjóflóðið fellur á Súðavík. Eftir mikla drykkju og misheppnaða sjálfsvígstilraun flytur Hörður suður og fer í Lögregluskóla ríkisins.“ Og þá hefst lögreglumannsferillinn, sem er skrautlegur og ekki átakalaus.

Hörður Grímsson er býsna áhugaverð persóna og fremur óhefðbundinn lögreglumaður. Honum er lýst sem miklu heljarmenni og á köflum finnst lesanda ef til vill að hér sé á ferðinni einhvers konar tröll úr fornaldarsögunum: rúmir tveir metrar á hæð og yfir 100 kg, með græn augu og mikið ljósrautt hár. En Hörður er líka skyggn, hann finnur fyrir ýmsu og skynjar margt sem ekki er venjulegu fólki gefið og notar þessa eiginleika við rannsókn sakamála.  En er einhver pæling á bak við nafnið? „Ekki beinlínis, en kannski má lesa eitthvað út úr þessu. Hörður minnir jú kannski á harður og hann felur sig stundum á bakvið grímu,“ segir Stefán Máni.

Svarið er einfalt þegar höfundur er inntur eftir því hvort lesendur megi búast við annarri bók um Hörð síðar: „Já, þeir fá meira!“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir