Miðstöð íslenskra bókmennta stofnuð 

Viðtal við stjórnarformanninn Hrefnu Haraldsdóttur í Morgunblaðinu 11. febrúar 2013.

11. febrúar, 2013

Viðtal við stjórnarformanninn Hrefnu Haraldsdóttur sem birtist í blaðinu 11. febrúar 2013. 

Hrefna Haraldsdóttir Það er að mörgu að hyggja núna og gaman að fá tækifæri til að móta starf nýrrar stofnunar í samstarfi við gott og öflugt fólk.

Viðtal í Morgunblaðinu 11. febrúar 2013.


Hrefna Haraldsdóttir er formaður stjórnar Miðstöðvar íslenskra bókmennta en með stofnun hennar sameinast fyrrverandi Bókmenntasjóður og verkefnið Sögueyjan ísland. „Mér finnst þetta mjög spennandi, tímabært og þarft verkefni. Það er að mörgu að hyggja núna og gaman að fá tækifæri til að móta starf nýrrar stofnunar í samstarfi við gott og öflugt fólk. Ég er full bjartsýni og tilhlökkunar að vinda mér í þetta,“ segir Hrefna þegar hún er spurð hvernig starfið leggist í hana.

Það besta úr ýmsum áttum

Hvert er hlutverk miðstöðvar íslenskra bókmennta?

„Hlutverk og eitt af markmiðunum með stofnuninni er að efla bókmenningu á Íslandi, enda er hún mikilvægur þáttur í menningu okkar. Hlutverk miðstöðvarinnar er skilgreint í lögum um miðstöðina, sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram og samþykkt voru rétt fyrir jólin. Miðstöð íslenskra bókmennta tekur við hlutverki Bókmenntasjóðs og á að úthluta styrkjum til útgáfu íslenskra ritverka og útgáfu erlendra bókmennta á íslenska tungu. Auk þess á hún að efla enn frekar bókmenntakynningar hér á landi og erlendis, stuðla að útbreiðslu þeirra og efla bókmenningu á Íslandi. Þetta eru stór og víðfeðm markmið og verkefni okkar er að finna bestu leiðirnar að þeim. Núna þessa dagana erum við meðal annars í stjórninni að skoða fyrirkomulag og starfsemi sambærilegra miðstöðva í öðrum löndum, eins og til dæmis Noregi, Finnlandi og Hollandi þar sem starfræktar eru öflugar bókmenntamiðstöðvar. Við viljum ná í það besta úr ýmsum áttum.“

Eru mörg sóknarfæri erlendis?

„Já, það er mikill áhugi á íslenskum bókum erlendis og þar er mikilvægt að nýta reynsluna sem varð til í kringum bókamessuna í Frankfurt árið 2011 þar sem Ísland var heiðursgestur. Af því tilefni var fjöldi íslenskra bóka gefinn út á þýsku og í Frankfurt urðu til sambönd og þekking sem mikilvægt er að viðhalda og byggja á. Þýskaland er stór markaður, en við horfum auðvitað einnig í aðrar áttir. Norðurlöndin eru til dæmis stór og mikilvægur markaður fyrir íslenska höfunda og þar teljum við að sé verk að vinna. Við viljum sjá til þess að heimurinn viti af höfundunum okkar og fjölmargir þeirra eiga erindi út fyrir landsteinana. Það er eitt af hlutverkum miðstöðvarinnnar að koma þeim á framfæri með öllum ráðum. Það eru margar leiðir til þess, til dæmis í gegnum bókamessur, bókmenntahátíðir, blaðamannaheimsóknir, þýðendaþing og margt fleira.“

Markmið miðstöðvarinnar er að efla bókmenningu á Íslandi. Hvernig verður það best gert?

„Við í stjórninni erum byrjuð að velta fyrir okkur ýmsum leiðum, við viljum efna til átaks sem beinist að lestri og eflingu bókmenningar um landið allt. Slíkt átak ýtir undir bóklestur og styrkir stöðu bókarinnar og útgáfu góðra, vandaðra og mikilvægra bóka.“

Hvað er í forgrunni hjá stjórninni þessa dagana?

„Nú vinnur stjórnin að stefnumörkun, við erum að leggja línurnar og móta stefnuna í starfi miðstöðvarinnar á næstu árum, í stóru og smáu – og ákveða hvernig við verjum best því fé sem miðstöðin hefur til ráðstöfunar.“

Fáið þið nægan pening?

„Vð skulum orða það þannig að við gætum sjálfsagt notað meira fé til starfseminnar, enda eru verkefnin stór, mörg og brýn. Það er því mikilvægt að nota með markvissum hætti þá fjármuni sem miðstöðinni eru ætlaðir. Við ætlum okkur líka að vera í samvinnu við alla þá fjölmörgu sem starfa á bókmenntaakrinum.“

Mikil breidd í bókmenntum

Víkjum aðeins að þér sjálfri, ertu mikil bókamanneskja?

„Ég les mikið og hef alltaf gert – og fylgist vel með því sem gerist á bókmenntasviðinu allt frá því ég var í íslensku og bókmenntafræði í háskólanum. Íslenskt bókmenntalíf er mjög blómlegt og þar er mikil gerjun og gróska. Maður sér það til dæmis núna í tilefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þar sem er gnægð af fínum bókum en nánast engar tvær sambærilegar. Þessar bækur sýna vel þá miklu breidd sem er í íslenskum bókmenntum og við eigum marga flinka höfunda sem hafa náð mögnuðum tökum á efni, stíl og hugsun. Það er líka spennandi að sjá hversu ólík efni höfundar fjalla um í verkum sínum, en þeim liggur flestum mikið á hjarta.“

Þú varst einmitt formaður fræðibókanefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012. Var það erfitt starf?

„Þetta er vandasamt en líka ánægjulegt starf, það fylgir því óhjákvæmilega mjög mikill lestur, maður les bækur í tugatali á nokkrum vikum. Ég var formaður fagurbókmenntanefndarinnar fyrir nokkrum árum og hafði gaman af en það var ekki síðra að fást við þennan flokk bóka, ekki síst vegna þess að þessi flokkur – fræðibækur og bækur almenns efnis – nær yfir svo mörg og ólík svið. Grisjunin gengur þokkalega framan af. Þriggja manna nefnd getur ágætlega komið sér saman um svona tíu bækur en þá byrjar ballið. Þá er komið að því að bera saman, vega og meta mjög vandlega, taka allt með í reikninginn og finna þessar fimm bækur sem nefndin leggur fram. Hver nefnd kemur sér sjálfsagt upp sínu vinnulagi og við höfðum ákveðin viðmið um efni, efnistök og fleiri þætti, til að meta verkin.“

Nefndir eins og þessi verða oft fyrir gagnrýni. Tekur þú gagnrýni inn á þig?

„Ég hlusta á slíka gagnrýni, en eftir störf í svona nefndum get ég allavega fullyrt að þeir sem í þeim sitja leggja sig alla fram við að vinna starf sitt vel og af heilindum og af virðingu við höfundana og verk þeirra. En auðvitað má gagnrýna þetta starf eins og allt annað.“



Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir