Fréttir

Edward Nawotka hélt vel heppnaða vinnustofu um ritlist og útgáfu í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta 

Edward Nawotka, stofnandi og ritstjóri nettímaritsins Publishing Perspectives, var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni You are in Control (YAIC) sem haldin var í Bíó Paradís í Reykjavík í síðustu viku.

11.11.2014

Edward Nawotka, stofnandi og ritstjóri nettímaritsins Publishing Perspectives, var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni You are in Control (YAIC) (sem haldin var í Reykjavík í sjöunda sinn 4. nóvember síðastliðinn í Bíó Paradís.

Edward Nawotka er ritstjóri og stofnandi Publishing Perspectives sem er leiðandi nettímarit um útgáfumál og hefur verið nefnt “BBC bókaheimsins”. Edward situr meðal annars í alþjóðlegum ráðgjafahópi fyrir bókamessuna í Frankfurt í Þýskalandi, kennir útgáfufræði við Yale háskóla í Bandaríkjunum og hefur haldið fyrirlestra og námskeið um bókaútgáfu í meira en tuttugu löndum þar á meðal Brasilíu og Úkraínu.


Fyrsti fyrirlesari á ráðstefnunni var Christine Boland sem er svokallaður „trendforcaster“, en hún sérhæfir sig í að greina og spá um strauma og stefnur framtíðarinnar. 


Mikil aukning í sjálfsútgáfu á heimsvísu 

Edward Nawotka var næstur á mælendaskrá með áhugaverðan fyrirlestur sem hann nefndi „Promiscuous Creators and Cultural Darwinism“ þar sem hann meðal annars ræddi mikla aukningu í sjálfsútgáfu bóka í heiminum og muninn á þeirri útgáfu og hinni hefðbundnu. Á eftir fylgdu Ragnar Kjartansson myndlistarmaður, tónlistarmaðurinn Zebra Katz, Vala Halldórsdóttir frá leikjafyrirtækinu Plain Vanilla og að lokum fjöllistakonan franska Nelly Ben Hayoun sem sagði frá verkefninu The International Space Orchestra.

Vinnustofur 

Að fyrirlestrum loknum dreifðust ráðstefnugestir á vinnustofur en Miðstöð íslenskra bókmennta hélt vinnustofu Edwards Nawotka, “Moving from “Good Enough” to “Great”: The Basics of Great Storytelling” þar sem Edward fjallaði um ritlist og útgáfu.

Sem fyrr mættust á ráðstefnunni You are in Control skapandi greinar; hönnun, tónlist, bókmenntir, tölvutækni, leiklist, kvikmyndagerð og myndlist. Ráðstefnan er sú eina sinnar tegundar á Íslandi, og ætluð öllum þeim sem vinna á breiðu sviði skapandi greina í bland við erlenda gesti og þátttakendur á heimsmælikvarða. Þemað í ár var Skapandi samsláttur (e. Creative Synergy), þar sem áhersla var lögð á verkefni og skapandi fólk sem vinnur þvert á eða milli listgreina og rýnt í hvaða nýju tækifæri er að finna í þessum samslætti.