Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta á bókamessunni í London 12.-14. apríl  

Sýningarbás með systurstofnunum Miðstöðvar íslenskra bókmennta á Norðurlöndunum verður á bókamessunni líkt og undanfarin ár. Básinn er númer 6F70.

4.4.2016

Nýr bókalisti kynntur í London. Í kynningarstarfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta (Míb) í London verður lögð áhersla á lista yfir bækur frá liðnu ári, en Miðstöðin hefur gert sambærilega lista undanfarin þrjú ár, líkt og tíðkast hjá systurstofnunum Míb erlendis. Listana má alla finna hér á heimasíðunni. Á listanum í ár má finna nýjar bækur, verðlaunabækur síðasta árs, bækur eftir unga, upprennandi höfunda og bækur sem nýlega hafa verið seldar erlendum útgefendum.

Miðstöð íslenskra bókmennta á samnorrænum bás í London. Líkt og þrjú undanfarin ár standa bókmenntakynningarstofur Norðurlandanna að sameiginlegum bás á bókamessunni í London í ár. Miðstöð íslenskra bókmennta verður þar auk norrænu bókmenntakynningarstofanna Norla í Noregi, Fili í Finnlandi, Farlit í Færeyjum, Swedish Arts Council/Statens Kulturrad í Svíþjóð og Slots- og kulturstyrelsen/The Danish Arts Council í Danmörku.

Fjöldi spennandi viðburða í Olympia. Sýnendur í Olympia, í vestur London, sem er sýningarsvæði bókasýningarinnar í ár, eru um 1500 talsins frá öllum heimshornum og um 25.000 fagaðilar á bókasviði sækja sýninguna á ári hverju. Einnig er fjöldi ráðstefna, fyrirlestra og pallborðsumræða haldinn í tengslum við sýninguna. Sjá nánar á http://www.londonbookfair.co.uk

Básinn er númer 6F70. Norræni básinn á bókasýningunni í London er númer 6F70. Við hlökkum til að taka þar á móti unnendum íslenskra bókmennta og öllum þeim sem vilja kynnast þeim betur.

Efnisvalmynd