Þrjú hljóta Nýræktarstyrkina 2016: Birta Þórhallsdóttir fyrir Einsamræður, Björn Halldórsson fyrir Smáglæpi og Vilhjálmur Bergmann Bragason fyrir Afhendingu

Úthlutun Nýræktarstyrkja Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2016 í Gunnarshúsi í dag

1. júní, 2016

Í ár bárust 35 umsóknir um Nýræktarstyrki. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur.

Í dag, fimmtudaginn 2. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta þremur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til útgáfu á verkum þeirra, en hver styrkur nemur 400.000 kr. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti hverjir hlutu styrkina í ár við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins og er þetta í níunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað. Samtals hafa yfir 50 höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.

Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á nýjum íslenskum skáldskap. Styrkjunum er ætlað að styðja við útgáfu á fyrstu verkum nýrra höfunda og er þar átt við skáldverk í víðri merkingu þess orðs, sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað.

Í ár bárust 35 umsóknir um Nýræktarstyrki. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur. í ár hlutu styrkina örsögur, smásögur og leikrit - sbr hér neðar. 

 

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta hljóta að þessu sinni eftirtalin verk og höfundar:

Einsamræður
Örsögur
Höfundur: Birta Þórhallsdóttir (f. 1989). Birta er MA nemandi í Ritlist við Háskóla Íslands, verkið er hluti af lokaverkefni hennar, sem hún hefur unnið undir leiðsögn Óskars Árna Óskarssonar.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:

„Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.“

Smáglæpir Smásögur
Höfundur: Björn Halldórsson (f. 1983). Björn er með BA-gráðu í enskum og amerískum bókmenntum frá Háskóla East Anglia héraðs í Norwich, Englandi og MFA gráðu í skapandi skrifum frá Háskólanum í Glasgow. 

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:

 „Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.“

Afhending
Leikrit
Höfundur: Vilhjálmur Bergmann Bragason (f. 1988). Vilhjálmur hefur nýlokið MA námi í leikhúsbókmenntum og leikritun frá RADA, Royal Academy of Dramatic Arts í London.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:

„Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mæta vel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.“

Umsóknum um Nýræktarstyrki fer fjögandi - gróska í ritlistinni.

Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr.

Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir að upphæð 200.000 kr., 2013 bárust 49 umsóknir og 4 verk hlutu styrk. Árið 2014 barst 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu fjórir styrk að upphæð 250.000 kr. Árið 2015 voru umsóknirnar 51 og styrkupphæðin var hækkuð í 400.000 kr. 

Frekari upplýsingar um Nýræktarstyrki má finna hér.

   
   

Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir