Vel heppnuð bókamessa í Gautaborg; tungumálið, fantasían, hefðin og yrkisefnin

Íslensku höfundarnir komu fram í fimm dagskrárliðum

26. september, 2016

Velheppnaðri og fjölmennri fjögurra daga Bókamessu í Gautaborg lauk á sunnudaginn þar sem fjöldi heimsþekktra höfunda tók þátt. Ísland var þar einnig líkt og undanfarin ár. Glæsilegur básinn, hannaður af HAF studio, skartaði íslenskum bókum sem gestir og gangandi glugguðu í og þar mátti kaupa sumar þeirra í sænskum þýðingum. Sjónum var beint að barna- og ungmennabókmenntum.

Velheppnaðri og fjölmennri fjögurra daga Bókamessunni í Gautaborg lauk á sunnudaginn þar sem fjöldi heimsþekktra höfunda tók þátt þ.á.m. Lena Anderson, Herta Müller, David Lagercrantz og Sofi Oksanen. Ísland var þar einnig líkt og undanfarin ár. Glæsilegur básinn, hannaður af HAF studio, skartaði íslenskum bókum sem gestir og gangandi glugguðu í og þar mátti kaupa sumar þeirra í sænskum þýðingum. Þátttaka Íslands var í samstarfi við Íslandsstofu, líkt og undanfarin ár. Sjónum var beint að barna- og ungmennabókmenntum, en höfundarnir Þórdís Gísladóttir, Arnar Már Arngrímsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Snæbjörn Brynjarsson og Kjartan Yngvi Björnsson tóku þátt í fimm dagskrárliðum messunnar þar sem fjallað var um bækur þeirra frá ýmsum hliðum.

Íslendingar fyrstir á dagskrá messunnar

Á fyrsta degi bókamessunnar stigu Þórdís Gísladóttir, Arnar Már Arngrímsson og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir á stokk og ræddu við Gunillu Kindstrand, bókmenntagagnrýnanda og blaðamann, undir yfirskriftinni Vad skriver de om på sagarnas ö?  Þau sögðu frá efni bóka sinna og deildu með áheyrendum ýmsum pælingum um tungumálið og hvernig það væri að skrifa fyrir börn og unglinga.

Koparborgin, fantasía fyrir ungt fólk, er fyrsta bók Ragnhildar. Sjálf segist hún vera undir áhrifum hryllingsmynda sem hún horfði mikið á sem unglingur en hún er menntaður sagnfræðingur með áherslu á miðaldir. 

,,Aðalsöguhetjan og nafnið hans, Pietro, kom fyrst til mín og hugmyndina að bókinni fékk ég úr martröð eftir að hafa horft á hryllingsmynd” segir Ragnhildur aðspurð um uppruna sögunnar. ,,Það tók mig sjö ár að skrifa bókina.” Um tungumálið hafði Ragnhildur þetta að segja: ,,Íslendingasögurnar eru svo sterkar í menningu okkar að þær setja okkur vissar skorður. Ég vildi losna undan þessari arfleifð og valdi því að skrifa inn í söguheim sem er ekki íslenskur. Það gaf mér leyfi til að leika mér meira með tungumálið.”

Arnar Már er kennari og hefur velt tungumálinu mikið fyrir sér. Í Sölva sögu unglings leikur hann sér með tungumálið og hvernig það hefur breyst og þróast. Við sjáum á spaugilegan hátt gapið sem hefur myndast á milli kynslóða og bókin er að hans sögn tilraun til að ná utan um nútímann. ,,Sölvi, aðalsöguhetjan, dvelur sumarlangt hjá ömmu sinni í sveit og skilur ekki tungumálið sem hún talar. Hann hefur aldrei lesið bók og hans veruleiki, og veruleikaflótti, er á internetinu þar sem enska er ríkjandii. Sölvi er rappari, og í raun skáld án þess að gera sér grein fyrir því, sem fer frjálslega með tungumálið” segir Arnar Már.

Þórdís sagði frá skemmtilegu bókunum sínum þremur um vinina Randalín og Munda, uppátækjasama krakka sem eru óhrædd við að spyrja spurninga. ,,Ég vildi skrifa bækur á tveimur plönum, bækur sem 6-7 ára gömul börn gætu lesið og fundist skemmtilegar, en um leið bækur fyrir fullorðna sem lesa fyrir börnin sín” segir Þórdís. Hún bjó lengi í Svíþjóð og þekkir vel sænskar bókmenntir. Þórdís segir í þeim ríkja pólitískan rétttrúnað sem ekki sé svo mikill í íslenskum bókmenntum. Hún láti sínar barnungu persónur til dæmis reykja en slíkt væri aldrei samþykkt í Svíþjóð. Hins vegar sé á Íslandi miklu breiðara bil á milli talaðs máls og ritaðs en í Svíþjóð. Voru þau öll sammála um að mikil pressa væri á að skrifa á góðu tungumáli og að of lítill leikur með tungumálið væri í skólakerfinu og í bókmenntum á Íslandi.

Íslenskar bækur tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Bækur Ragnhildar, Koparborgin, og Arnars Más, Sölva Saga unglings, eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en báðar eru þær fyrstu bækur höfundanna. Á einu sviði messunnar, Ung scen, ræddi Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri verðlaunanna, við þau og aðra tilnefnda höfunda m.a. um sérstöðu og mikilvægi barna- og ungmennabóka, ýmis áhrif á þau sem höfunda og hvaða merkingu það hefði að fá tilnefningu fyrir fyrstu útgefnu bók.  

Ljóð í hávegum höfð í Rum för poesi

Á föstudeginum tók Þórdís Gísladóttir þátt í ljóðadagskrá í Rum för poesi. Þar las Þórdís nokkur ljóða sinna úr bókinni Tilfinningarök á íslensku, sænsku og ensku við góðar undirtektir áheyrenda ásamt ljóðskáldunum Ralf Andtbacka, hinni portúgölsku Maria Sousa og Christer Boberg frá Svíþjóð. Þórdís er þekkt fyrir ljóðabækur og barnabækur sínar, en hún er einnig afkastamikill þýðandi úr sænsku sem bjó í Svíðþjóð um árabil. Ný ljóðabók eftir Þórdísi lítur dagsins ljós á næstunni.


Sérstaða norrænna fantasíubókmennta

Á síðasta degi messunnar tóku Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, höfundar trílógíunnar Þriggja heima sögu, þátt í líflegri og áhugaverðri umræðu undir yfirskriftinni Finns det en nordisk fantasy? Rætt var um sérstöðu norrænu fantasíunnar, hvernig og hvort hin samnorræna reynsla, af kulda, myrkri og ríkum sagnaarfi hefur mótað viðhorf norrænna fantasíuhöfunda og hleypt straumum nútímans eins og femínisma og umhverfismálum inn í annars staðnað form. Með þeim í umræðunum voru höfundarnir Maria Turtschaninoff frá Finnlandi og Siri Pettersen frá Svíþjóð en þessir höfundar deila mörgum sameiginlegum hugmyndum um fantasíu.


Bók og umræður um Panamaskjölin

Bókamessan tekur jafnan á málefnum líðandi stundar og í ár voru umræður um tjáningarfrelsi í forgrunni. Þar tók Jóhannes Kr. Kristjánsson, fjölmiðlamaður, þátt í umræðum um Panamalekann með þeim Sven Bergman og Joachim Dyfvermark. Þeir gerðu grein fyrir aðdraganda sjónvarpsviðtals Uppdrag granskning við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í apríl síðastliðnum og fóru yfir aðalatriði málsins. Bók um Panamalekann eftir Bastian Obermayer og Frederik Obermaier kom út í september og var til sölu á bókamessunni.


Hundrað þúsund gestir sóttu Bókamessuna í Gautaborg heim í ár. 836 sýnendur frá 28 löndum voru á staðnum, fjöldi fyrirlestra var 422 sem 870 höfundar og fyrirlesarar tóku þátt í frá 38 löndum. Bókamessan í Gautaborg verður næst haldin 28. september til 1. október 2017 og þá verður Finnland í fókus.



Hér má finna frekari upplýsingar um bókamessuna í Gautaborg:

Heimasíða bókamessunnar í Gautaborg

Bókamessan í Gautaborg á Facebook

Myndir frá bókamessunni í Gautaborg

Bókamessan í Gautaborg á Twitter

Bókamessan í Gautaborg á Instagram


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir