Frakkar falla fyrir Jóni Kalman

9. mars, 2010

Upplag Himnaríkis og helvítis tvöfaldað einungis tíu dögum frá útgáfudegi.

himnaríki og helvíti - franskaLjóst er að Frakkar hafa kolfallið fyrir Jóni Kalman og skáldverki hans Himnaríki og helvíti, sem kom út um miðjan síðasta mánuð þar í landi hjá bókaforlaginu Gallimard í þýðingu Eric Boury. Bókin hefur selst það vel að upplagið var tvöfaldað einungis tíu dögum eftir að hún var gefin út, sem þýðir að um 7000 eintök hafa farið í umferð í frönskum bókabúðum. Sumar verslanir, til að mynda bókabúðin Millepages í úthverfinu Vincennes í París, hafa rýmt til í búðargluggum sínum til að stilla upp bókinni einni og sér. Viðbrögð gagnrýnenda hafa einnig verið afar jákvæð. Bókmenntaagagnrýnandi Livre Hebdo furðaði sig á því að Jón Kalman skuli ekki hafa verið þýddur fyrr, hann sagði hann vera einn mesta höfund Íslands á okkar tímum og að verkið sé mikil uppljómun fyrir franska bókmenntaaunnendur: „Án þess að höfundinum verði það nokkurn tímann á að skreyta, eða vera væminn, hefur honum tekist að draga upp ljóslifandi mynd af sjómönnum fyrri tíma, óbærilegar aðstæðum þeirra og fábrotinni gleði [...]. Frá fyrstu línum er dauðinn yfir og allt um kring, einsog bókin hafi verið skrifuð af handan [...]. Einhverju sinni segir strákurinn að sér líði einsog hann lifi í  skáldsögu. Það gerir hann svo sannarlega, og það sérstaklega fallegri skáldsögu.“

Þegar forlagið Gallimard ákvað að gefa út Himnaríki og helvíti sögðust þeir ætla að gera Jón Kalman að einu af stærstu nöfnum evrópskra nútímabókmennta. Gallimard er eitt virtasta bókaforlag Frakklands, það getur státað af að hafa gefið út helstu risa heimsbókmenntanna og varð jafnframt það fyrsta til að gefa út franska þýðingu á íslenskri skáldsögu; fyrri hluta Sölku Völku eftir HalldórLaxness. Þegar Laxness náði þeim árangri, fyrstur íslenskra nútímaskálda, sagði hann það vera mikinn sigur fyrir íslenska menningu að bókin skuli hafa komist í umferð hjá „vandfýsnasta bókmenntalandi heims“. Árangur Jóns Kalman er litlu minni þar sem nú í dag koma einungis um 2% þýddra bóka í Frakklandi frá Norðurlöndunum.

Guðrún Vilmundardóttir, útgáfustjóri Bjarts, er að vonum ánægð með velgengni bókarinnar í Frakklandi: „Þetta er stórt skref, í fyrsta lagi að fá hana útgefna, og viðbrögðin við bókinni benda til þess að Jón Kalman er kominn á fulla fart í Frakklandi.“ segir hún. Spurð að því hvers vegna bókin falli svo vel í franskan jarðveg segir Guðrún áhugann vera knúinn af almennri forvitni:  „Þetta er heimur sem Frakkar þekkja ekki svo vel.“ Guðrún segir að eftirvæntingin eftir næstu bók, sem bindur jafnframt enda á þríleikinn, sé mikil: „Við fáum tölvupóst nánast daglega þar sem spurt er um útgáfudag næstu bókar.“ Vonir eru bundnar við að hún komi út fyrir næstu jól.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir