Rýnt í bókasýninguna í Leipzig

Íslenskir höfundar vinsælir á sýningunni sem var haldin 18. - 21. mars.

29. mars, 2010

Bókasýningin í Leipzig er mikil bókahátíð þar sem áherslan er á höfundana og verk þeirra.

Rithöfundarnir Kristín Steinsdóttir og Andri Snær Magnason tóku þátt í sýningunni í Leipzig í ár og lásu upp úr verkum sínum Á eigin vegum og LoveStar sem báðar komu út í Þýskalandi nýverið. Upplestrarnir fóru fram á sameiginlegum norrænum standi og voru þeir vel sóttir og bækur beggja runnu út eins og heitar lummur.

Hápunkturinn fyrir Kristínu og Andra Snæ var án efa upplestur þeirra á „hinni löngu nótt norrænna bókmennta“ eða „Die Lange Nacht der nordischen Literatur" þar sem rösklega 400 manns hlýddu á upplestrana og söng Kristínar en hún tók lagið ásamt nýjum sendiherra Íslands í Þýskalandi, Gunnari Snorra Gunnarssyni. Þessi óvænta uppákoma gaf tóninn fyrir þá góðu stemningu sem ríkti það sem eftir lifði kvölds.

Andri Snær kynnti ekki eingöngu LoveStar á sýningunni heldur tók hann einnig þátt í umræðum á vegum hinnar mikilsvirtu bókmenntastofnunar Colloquium Berlin undir yfirskriftinni: „Kreppa! hvaða kreppa?“. Aðrir þátttakendur voru Georgi Gospodinov frá Búlgaríu, Friedrich Christian Delius frá Þýskalandi, Eugenijus Ališanka frá Litháen, László Földényi frá Ungverjalandi og Natalja Kljutscharjowa frá Rússlandi.

Eitt af því sem ávannst í Leipzig var að Sagenhaftes Island og Samtök bókmenntahúsa eða Netzwerk der Literaturhäuser hafa ákveðið að vinna saman að kynningu höfunda á þýska málsvæðinu árið 2011. Bókmenntahúsin munu standa að uppákomum meðal annars í formi upplestra og leggja sérstaka áherslu á ljóðlistina. Netzwerk der Literaturhäuser er gríðarlega mikilvægur samstarfsaðili árið 2011 en samtökin hafa innan sinna vébanda ellefu bókmenntahús, öll þau helstu í Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Á fundi með stjórnendum bókasýningarinnar í Frankfurt sem haldinn var í tengslum við sýninguna í Leipzig var ákveðið að í haustbyrjun 2011 muni fara fram „samkeppni þýskra bókabúða um besta útstillingargluggann“, tengdan bókmenntum heiðursgestsins. Hver gerir besta Íslandsgluggann? Verðlaunin verða að sjálfsögðu ferðir til Íslands en Ísland er draumaáfangastaður margra Þjóðverja, eins og fram kom í mörgum samtölum á bókasýningunni í Leipzig. Má búast við mikill þátttöku og þar af leiðandi frábærri kynningu á íslenskum höfundum í þýskum bókabúðum.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir