Nýræktarstyrkir 2014

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði 1 milljón króna í Nýræktarstyrki á árinu. Fjórir hlutu styrk að upphæð 250 þúsund krónur hver. Að þessu sinni bárust 31 umsókn um Nýræktarstyrki frá 24 aðilum. 

Nyraektendur-2014Nýræktarstyrki hljóta að þessu sinni eftirfarandi verk og höfundar:

Stálskip

Nokkur ævintýri
eftir Atla Sigþórsson
Útgefandi: Tunglið forlag, 2014.

Umsögn um verk og höfund:

„Eins og í gömlum ævintýrum er heimurinn sem hér birtist bæði myrkur og viðsjárverður. Sögur Atla eru í senn óhugnanlegar og heillandi, en ólíkt ævintýrum Grimmsbræðra gerast þær í nöturlegum nútíma og farsæl endalok sjaldan í sjónmáli. Formið er agað og knappur textinn ýmist ljóðrænn eða nístandi í hversdagsleika sínum.“

Plan B

Skáldsaga
eftir Guðrúnu Ingu Ragnarsdóttur

Umsögn um verk og höfund:

„Í ærslafullum leik að mörkum skáldskapar og veruleika segir höfundur kunnuglega sögu af skáldi sem virðist fátt annað kunna við ritstíflum daganna en Plan B, að skrifa einfaldlega um sitt eigið líf. Í skemmtilegri skáldsögu um skáldsögu sem aldrei var skrifuð fer saman næm athyglisgáfa, orðheppni og rík tilfinning fyrir hinu fáránlega.“

Kvíðasnillingarnir

Skáldsaga
eftir Sverri Norland

Umsögn um verk og höfund:

„Í sögu þriggja drengja, sem brátt verða unglingar og áður en varir karlmenn, dregur höfundur upp frumlega og fjöruga mynd af hlutskipti karla í samtíma sínum. Óvenjuleg stílgáfa helst í hendur við gráa íroníu og einlæga samkennd í heillandi sögu af leit mannsins að ástinni og vináttunni og glímu hans við kuldann og kvíðann.“

Úlrika Jasmín

Skáldsaga
eftir Uglu Egilsdóttur

Umsögn um verk og höfund:

„Í sjálfskipuðu fangelsi pólitískrar rétthugsunar og upphafinnar sjálfsmyndar er sjálfshjálparhópur orðinn sérfræðingur í að skapa vandamál. Í hugmyndaríkum og meinfyndnum prósa skekkir höfundur heiminn og skælir og sýnir lesendum hann í farsakenndum spéspegli sem engum hlífir – allra síst ungu kynslóðinni.“