Nýræktarstyrkir 2017

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði tveimur Nýræktarstyrkjum að þessu sinni að upphæð 400.000 kr. hvor. Í ár bárust 57 umsóknir um Nýræktarstyrki frá 54 umsækjendum og í ár hlutu styrkina skáldsaga og safn ljóða.


Eftirtalin verk og höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2017:

Slitförin

Safn ljóða

Höfundur: Fríða Ísberg (f. 1992) stundar meistaranám í ritlist, hagnýtri ritstjórn og útgáfu við Háskóla Íslands og hefur verið virk í upplestra- og ljóðakvöldum. Slitförin er sextíu ljóða skáldverk, unnið sem 30 eininga meistaraverkefni í ritlist við Háskóla Íslands, undir leiðsögn Sigurðar Pálssonar. 

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

"Slitförin er safn ljóða sem fjalla á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum.“


Ráðstefna talandi dýra

Skáldsaga

Höfundur: Pedro Gunnlaugur Garcia (f. 1983) er portúgalsk-íslenskur með BA í félagsfræði og MA í hagnýtri menningarmiðlun. Pedro Gunnlaugur hefur unnið að skáldsögunni Ráðstefna talandi dýra í eitt og hálft ár samhliða starfi stuðningsfulltrúa í Háaleitisskóla.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

"Skáldsagan Ráðstefna talandi dýra er ekkert venjulegt byrjendaverk heldur viðamikil og þroskuð skáldsaga sem fléttar saman ólíka menningarheima á tvennum tímum, líf fólks, drauma og örlög. Frjótt ímyndunarafl í sterklega byggðri frásögn, á lifandi og skemmtilega stílaðri íslensku, mynda einstaka heild í heillandi skáldsögu."