Nýræktarstyrkir 2018

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði tveimur Nýræktarstyrkjum í ár að upphæð 400.000 kr. hvor en 58 umsóknir bárust. Að þessu sinni hlutu styrkina skáldsaga og ljóðabók.

Eftirtalin verk og höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2018:

Nyraektarstyrkjaafhending-2018_1685622791782Gríma

Benny-sif-umsagnir

Skáldsaga

Höfundur: Benný Sif Ísleifsdóttir

Benný Sif Ísleifsdóttir (f. 1970) er með MA gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands auk diplómanáms í Youth and Community Studies frá Saint Martin´s College og próf í hagnýtri íslensku. Gríma er hennar fyrsta skáldsaga.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Gríma er söguleg skáldsaga sem segir frá örlögum kvenna í íslensku sjávarþorpi um og eftir miðja tuttugustu öld. Sagan er grípandi, persónusköpun sterk og bygging verksins vel úthugsuð. Textinn er lifandi og skemmtilegur en um leið lýsir höfundur harmrænum atburðum af einstakri næmni. Frásagnargleði og væntumþykja fyrir viðfangsefninu einkenna þessa hrífandi skáldsögu.”

 

Thorvaldur-umsogn

Gangverk

Ljóðabók

Höfundur: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason (f. 1991) stundar MA nám í ritlist við Háskóla Íslands og er með BA próf frá Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Gangverk er meistaraverkefni hans í ritlistinni, undir leiðsögn Hauks Ingvarssonar, sem byggir á reynslu höfundar á því að lifa með bjargráð eftir að hafa farið í hjartastopp árið 2007.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

„Gangverk er heillandi ljóðabók eftir ungt skáld með merkilega lífsreynslu að baki. Ljóðin eru ólík að formi og unnin með mismunandi aðferðum en eiga það öll sameiginlegt að vera einlæg og takast á við persónulega reynslu en vísa einnig út í hið almenna. Leiðarstefið er tungumál hjartans, á forsendum bæði læknavísindanna og ástarinnar, með þeim hætti að það veitir einstaka innsýn í líf og líðan ljóðmælanda.”