Úthlutanir 2013

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði 1 milljón króna í Nýræktarstyrki á árinu. Fjórir hlutu styrk að upphæð 250 þúsund krónur hver.

Alls bárust 49 umsóknir.

Midstod-islenskra-bokmennta-Nyraektarstyrkur-2013-Innvols_1685623425806Eftirtaldir hlutu styrki:

Crymogæa 

Skáldsaga eftir Alexander Dan Vilhjálmsson

Umsögn um verk og höfund:

Með traustri þekkingu á íslenskri bókmenntahefð og erlendum fantasíum skapar höfundur nýstárlega íslenska furðusögu sem er borin uppi af ríkri málvitund, frumleika, hugkvæmni og orðheppni þess sem leitar Íslandi samastað í heimi fantasíu um byltingarfólk huga og veruleika.

Vince Vaughn í skýjunum 

Sögur eftir Halldór Armand Ásgeirsson

Umsögn um verk og höfund:

Á írónískan og gráglettinn hátt yrkir höfundur um átök og árekstra hins tæknivædda heims við gamalkunnar hefðir og siði. Hér rekst manneðlið á við kerfið, einlægni togast á við yfirborðsmennsku og furður gera flatneskjunni lífið leitt í sögum sem samdar eru af stílkunnáttu, hugkvæmni og húmor.

Leyniregla Pólybíosar 

Barna- og unglingasaga eftir Roald Eyvindsson

Umsögn um verk og höfund:

Með því að sækja næringu í þjóðlegan fróðleik og riddarasögur og tengja við þann arf sem leynist í sögum Enid Blyton skapar höfundur fjörugt og spennandi verk. Það státar af fræðilegu gildi og ágætri frásagnargáfu, yfir því er æskuandi og yfirsýn manns sem þekkir sögu okkar og vill miðla henni til barna og unglinga.

Innvols 

Smásögur, ljóð og prósi eftir Herthu Richardt Úlfarsdóttur, Kötlu Ísaksdóttur, Valdísi Björt Guðmundsdóttur, Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur, Bergþóru Einarsdóttur, Selmu Leifsdóttur, Þórunni Þórhallsdóttur, Elínu Ósk Gísladóttur, Nönnu Halldórsdóttur og Maó.

Umsögn um verk og höfund:

Í meitluðum textum sameina tíu konur raddir sínar í einu verki þar sem fáguð ljóðræna og hvassyrt snerpa takast á. Textar þeirra eru kjarnyrtir og fjörugir, þær sýna vald sitt á margvíslegu formi og stílbrögðum og varpa með skáldskap sínum ljósi á hugarheim ungra kvenna og sýn þeirra á samfélagið.