Edda og Íslendingasögur

Egill SkallagrímssonÍslendingasögur er samheiti yfir veraldlegar sögur sem samdar voru á miðöldum á Íslandi, flestar líklega á 13. og 14. öld. Þær gerast á tímabilinu frá landnámsöld og fram á 11. öld og voru ritaðar á íslensku af höfundum sem langflestir eru óþekktir. Þær segja á ótrúlega hlutlægan og samtímis áhrifaríkan hátt frá átökum milli manna og ætta sem ná hámarki með mannvígum, og varpa einstöku ljósi á hugmyndir miðaldamanna um sæmd og heiður, hefnd og rétt. Íslendingasögur eru taldar eitt merkasta framlag Íslendinga til heimsbókmennta, en þær eru aðeins ein grein íslenskra fornsagna, en til þeirra teljast meðal annars konungasögur, fornaldarsögur og samtíðarsögur.

Önnur þekktasta grein íslenskra bókmennta er kennd við Eddu, og hefur heitið verið haft bæði um svonefnd Eddukvæði og skáldskaparmál Snorra Sturlusonar sem hann samdi á árunum upp úr 1220. Snorra-Edda er einstök heimild um fornan norrænan átrúnað og skáldskaparhætti. Eddukvæðin varðveittust hins vegar flest í svonefndri Konungsbók Eddukvæða (Codex regius), frá síðari hluta 13. aldar, og skiptast í meginatriðum í tvo flokkar, hetjukvæði og goðakvæði. Hetjukvæðin segja meðal annars frá Sigurði Fáfnisbana, Brynhildi Buðladóttur og Atla Húnakonungi og sækja langt aftur í germanskan sagnaarf; þótt þau séu rituð á Íslandi er talið að sum þeirra geti verið að stofni til jafnvel frá 9. öld. Goðakvæðin, en af þeim eru Hávamál og Völuspá þekktust, segja frá ásum, hinum norrænu goðum, og eru jafnframt einstök heimild um heimsmynd norrænna manna til forna.

Í tilefni af þátttöku Íslands í bókasýningunni í Frankfurt árið 2011 hyggst Fischer forlagið þýska gefa út heildarútgáfu Íslendingasagna í nýjum þýðingum.