Roy Jacobsen

„Þetta reyndist of mikið fyrir ungan dreng því skyndilega skynjaði ég hræðslu við að verða fullorðinn.“ Norski rithöfundurinn Roy Jacobsen fjallar um upplifun sína af Njálu.

Roy Jacobsen

Hræðslan við að verða fullorðinn

Kæru vinir,

Nú þegar ég tek þessu boði um að vera lesandi mánaðarins hjá Sögueyjunni gæti ég auðvitað skrifað um stílsnilld Halldórs Laxness sem er í samræmi við stórbrotna visku hans. Ég gæti líka skrifað um Svartfugl Gunnars Gunnarssonar sem enn þann dag í dag ljómar af harmrænni fegurð. Ég gæti líka skrifað um Svaninn eftir Guðberg Bergsson. Eða um Engla alheimsins eftir Einar Má, um smásögur Gyrðis Elíassonar eða um afburðasnjallar skáldsögur Einars Kárasonar. Ég gæti líka talað um Andra Snæ og rakið sögu stórkostlegra íslenskra ljóðskálda frá Agli Skallagrímssyni til fyrrnefnds Andra, einmitt.

En svo vel ég samt sem áður Njáls sögu. Það geri ég ekki bara vegna þess að Njála er formóðir allra íslenskra bókmennta heldur vegna þess að fyrstu kynni mín af henni ollu straumhvörfum í lífi mínu. Í menntaskóla hafði ég góðan kennara sem kynnti mig fyrir Njálu og ég varð hugfanginn við fyrsta lestur. Aldrei hafði nokkur texti haft jafnmögnuð og djúpstæð áhrif á mig. Ég var bara stráklingur og heillaðist á þann hátt sem strákum einum er lagið. Samt las ég söguna ekki til enda, þetta stórkostlega verk sem ég vissi þá þegar að hefði örlög mín í hendi sér, bæði sem lesanda og rithöfundar. Þegar ég kom á blaðsíðu hundrað og fimmtíu held ég að Flosi hafi verið kynntur til sögunnar og snúið öllu á hvolf. Ég var svo uppgefinn að ég varð að taka mér hvíld frá lestri.

Og seinna varð mér ljóst hvers vegna.

Þetta reyndist of mikið fyrir ungan dreng því skyndilega skynjaði ég hræðslu við að verða fullorðinn. Njáls saga mundi breyta mér, það rúmast of mikið í henni. Ég vildi ekki breytast, ég vildi vera eins og Oscar Matzerat og ekki vita af öðrum heimi en mínum eigin. Upp frá því lá bókin óhreyfð í mörg ár þangað til að ég tók hana fram aftur af skyndilegri hvöt. Þá uppgötvaði ég að kvíði minn var réttmætur enda rúmar Njáls saga allt það sem þarf til þess erfiða starfs að verða að manni.

Svo las ég hana einu sinni þegar ég var þrjátíu og eitthvað og þá náðum við saman, sagan og ég. Ég eignaðist vitorðsmann og félaga sem síðan hefur fylgt mér í gegnum lífið eins og sannur vinur með áminningum og huggunarorðum og kemur sífellt á óvart. Maður fær það líka á tilfinninguna að að hægt sé að komast í gegnum lífið þrátt fyrir allt. Njáls saga er 800 ára gömul og verður örugglega til í einhverjar þúsundir ára til viðbótar. Hún er með öðrum orðum ekki bara söguleg skáldsaga sem nær yfir allt heldur er hún líka skuggsjá.


Roy Jacobsen er einn helsti höfundur Norðmanna í dag og hefur hlotið fjölda verðlauna. Hann hlaut meðal annars norsku gagnrýnendaverðlaunin og hefur tvisvar sinnum verið tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Roy Jacobsen var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 1992 og ein bóka hans hefur verið þýdd á íslensku. Það er bókin Ísmael sem kom út í þýðingu Sigurðar G. Tómassonar árið 1998.Roy Jacobsen er fæddur í Noregi árið 1954. Fyrsta bók hans var smásagnasafnið Fangeliv sem kom út árið 1982 og síðan hefur hann gefið út átján verk, bæði smásagnasöfn og skáldsögur. Auk þess hefur hann ritað fjölda greina, meðal annars um Íslendingasögur.