Sjón

„Sögur úreldast ekki,“ segir rithöfundurinn Sjón í viðtali við Sagenhaftes Island. Í samtali við höfundinn um skáldsögu hans Rökkurbýsnir komumst við að því að sautjánda öldin kallast um margt á við okkar tíma „þegar heiminum hefur verið steypt á hvolf og græðgin tekin við.“

Sjón - ViðtalViðtal: Davíð K. Gestsson. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson 


Skáldsagan Rökkurbýsnir eftir Sjón kemur um þessar mundir út í Þýskalandi á vegum S. Fischer Verlag í þýðingu Betty Wahl. Um hundrað manns sóttu útgáfuhóf bókarinnar þar sem brugðið var upp fjölbreyttri mynd af höfundinum. Lesið var upp úr bókinni og hún rædd, sungin voru lög sem samin hafa verið við ljóð hans og brot úr kvikmyndaverkinu Reykjavík Whale Watching Massacre sýnt, sem Sjón skrifaði handritið að. Sjón er nú búsettur í Þýskalandi og er gestalistamaður við Berliner Künstlerprogramm, sem skipulagði jafnframt viðburðinn. Við slógum á þráðinn til hans, daginn fyrir hófið, og spjölluðum um bókina.

Í Rökkurbýsnum er sögð saga Jónasar Pálmasonar lærða, rithöfundar og náttúruvísindamanns, sem sökum þekkingar sínar á hinu yfirnáttúrulega og undirróðurs valdamanna er dæmdur til útlegðar á Gullbjarnarey fyrir galdra. Verkið gerist á 17. öld, eftir siðaskiptin, þegar einni heimsmynd hefur verið skipt út fyrir aðra og saklausar vísur hafa orðið að skelfilegum galdraþulum. Sagan segir af þrautagöngu Jónasar á Íslandi og utan landsteinanna og er að töluverðu leyti byggð á ævi Jóns Guðmundssonar lærða, sjálfmenntaðs fræðimanns og handritaskrifara.

Árið 2005 fékk Sjón Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Skugga-Baldur, nítjándu aldar skáldsögu með rómantísku yfirbragði. Í Rökkurbýsnum, sjöundu skáldsögu hans, er sögusviðið einnig fjarri samtíð okkar en í samtali við höfundinn komumst við að því að sautjánda öldin kallast um margt á við okkar tíma. „Sögur úreldast ekki,“ segir Sjón og í sögu Jóns lærða má spegla Ísland okkar tíma „þegar heiminum hefur verið steypt á hvolf og græðgin tekin við.“

Sögur úreldast ekki

Hvað var það sem dró þig að söguefni Rökkurbýsna?

Rökkurbýsnir„Það var fyrst og fremst maðurinn Jón lærði, sem aðalpersóna Rökkurbýsna, Jónas Pálmason lærði, er byggð á. Sú staðreynd að þarna er sjálfmenntaður maður á 17. öld sem skilur eftir sig óvenjumikið magn ritaðs efnis um sjálfan sig, tilveru sína og hugsun var ómótstæðilegt tækifæri fyrir mig sem rithöfund. Ég gat ekki látið hjá líða að vinna úr því efni og reyna að skrifa mér leið inn í huga hans og inn í þann tíma sem hann lifði á.

Það sem kveikti fyrst áhuga minn á Jóni lærða var greinarstúfur sem ég las fyrir tuttugu árum eða svo. Þar var minnst á að hann hafi verið lærisveinn Paracelsusar, hins mikla og fræga svissneska náttúruvísindamanns. Mér þótti það merkilegt því að ég hafði tekið eftir Paracelsusi í gegnum skrif André Breton, franska súrrealistans, sem hafði mikinn áhuga á náttúrusýn hans og þeirri staðreynd að hann meðhöndlaði alla þætti náttúrunnar sem lifandi veru. Steinar, sem eru samkvæmt skilgreiningum venjulegs fólks dautt efni, voru samkvæmt Paracelsus lifandi verur sem lifa í öðrum tíma en við hin sem sprækari eru. Mér þótti það merkilegt að einhver Íslendingur hafi verið að vinna upp úr þeim hugmyndum líka.

Ég setti því Jón lærða á bakvið eyrað og orti á þeim tíma eitt ljóð, innblásið af honum. Ég hef verið að vinna með það sem við getum kallað heimsmyndir í bókum mínum, þar hef ég skoðað hvernig hægt er að gera þær að einhverju leyti verulegri og sýnilegri í gegnum texta. Ég vissi alltaf að ég mundi snúa aftur og vinna úr þessu efni Jóns lærða. Í því var tækifæri til að skrifa sér leið inn í hann og tíma hans.“

Þegar litið er yfir fyrri skáldsögur þínar mætti halda að samtíminn eigi ekki mikið upp á pallborðið hjá þér. Eru þetta mögulega merki um fortíðarþrá?

„Nei, ég held að það liggi mjög tækifæri til að segja sögur úr samtímanum í því að endursegja gamlar sögur. Sögur úreldast ekki og mér þótti saga Jóns lærða kallast á við þá tíma sem voru á Íslandi upp úr 2005, þegar græðgin hafði tekið yfir og öll samfélagsgildi og hugmyndir um samhjálp og samstöðu í samfélaginu voru settar til hliðar. Í siðaskiptunum upplifir Jón lærði það að heiminum hefur verið steypt á hvolf og græðgin tekin við þegar íslenskir höfðingjar voru ekki lengur skikkaðir til að deila auði sínum með fátækum. Við það að gagnrýna hliðstæða hugsun á hans tíma fann ég tækifæri til að nálgast á dýpri hátt það samfélag sem í voru komnir brestir á Íslandi okkar daga. Með því gat ég sagt þessa sögu af landi okkar sem hafði lagt líf sitt og lífshamingju í sölurnar.“

Skáldsögur þínar hafa sem sagt að geyma samtímalegar skírskotanir þó þær séu bundnar við önnur tímaskeið?

„Já, þær gera það. Það lifir enginn höfundur í öðrum tíma en samtímanum. Ég veit ekki hvort það er eitthvað sérstaklega íslenskt en það er afar erfitt þegar maður skrifar á tungumáli sem hefur lítið breyst í þúsund ár, og mikið hefur verið skrifað á, að setja mikið meira en eina setningu á blað án þess að vera farinn að skrifast á við þann sagnaarf. Þar finnur maður í rauninni fyrir rödd genginna höfunda, sem fær að hljóma örlítið í hverri setningu sem er skrifuð. Þá fannst mér áhugavert og sjálfsagt mál að prófa einu sinni að setja alla þá strengi í hljóðfærið og spila á þá.“

Tilveran tekin af límingunum

Rökkurbýsnir fjallar um ákveðna töfrasviptingu, þar sem mis-sakleysislegt kukl verður að alvarlegum glæp, ekki satt?

„Við siðaskiptin var fólk á augabragði svipt heimsmynd sinni. Sýn þess á tilveruna og hugmyndir þess um hvað heldur henni saman og úr hverju hún er búin til voru bannfærðar. Þegar kaþólska hugmyndakerfinu er skipt út fyrir hinu lútherska með afhelgun dýrlinga og í rauninni veraldarinnar allrar, er ansi mikið í húfi. Ýmsar litlar vísur sem fólk fór með sér til heilsubótar, sem það kvað kannski undir kúnum þegar þær voru sendar út að bíta, urðu allt í einu að skelfilegum galdraþulum og fólk var í stórhættu ef það heyrðist tuldra þetta.

Ég held að Jón lærði hafi lýst því, einn örfárra manna, hvernig heil heimsmynd var tekin af fólki. Tilveran var tekin af límingunum og það sama hlýtur að hafa gerst þegar kristnin var tekin upp í landinu. Ég held að hið sama hafi líka gerst, í einhverjum mæli, þegar kommúnisminn féll í austurblokkinni. Það gaf mér jafnframt á vissan hátt ástæðu fyrir því að segja þessa sögu núna. Upplifun mín af falli austurblokkarinnar var sú að vinstrið hafi misst málið og þar af leiðandi þrotið erindið, eða verið talið trú um það. Við það myndaðist hugmyndafræðilegt gap sem gerði túrbókapítalismann að veruleika og hleypti af stað þessari miklu græðgisbylgju sem við upplifðum á sjálfum okkur á Íslandi. Ég átti því ekkert erfitt með að taka undir með Jóni, og Jónasi, í harmagrátnum; kvartinu og kveininu yfir því að veröldin væri að fara til fjandans.“

skugga-baldurÍ viðtökum Skugga-Baldurs hrifust margir af einfaldleika frásagnarinnar, þó deila megi um hversu einföld sú bók er í raun, en í Rökkurbýsnum leyfirðu þér að flækja hlutina eilítið.

„Sem rithöfundur reyni ég að setja mér nýtt verkefni með hverri bók. Ekki bara í efniviðnum, heldur einnig í aðferðinni. Ég hafði til dæmis aldrei reynt „hugflæði“ eða „stream of consciousness“ í stærri prósa. Ég byrja yfirleitt bókarskrif á því að gera tilraunir í stíl og aðferð, til að athuga hvort það virki. Ég áttaði mig á því að ég þurfti að „fría“ textann á vissan hátt af sjálfum mér, af hinu pedantíska auga sem venjulega ræður ferðinni þegar ég skrifa, til að hleypa rödd Jónasar í gegn. Hugflæðið var leiðin til þess. Með því afturkallaði leyfið til þess að þrautvinna textann jafnóðum og ég skrifa.

Þessi bók er þar af leiðandi ólík öllu því sem ég hef skrifað áður. Hún er  lausbeislaðri, öll órólegri og stjórnlausari og það gladdi mig mjög að ná því marki. Um leið er hugflæðið ekki bara tæki til þess að fá Sigurjón til þess að þegja og hleypa Jónasi að, heldur gaf það mér líka færi á að vinna gegn þeim hugmyndum sem við höfum um vel skrifaðan og skipulegan texta. Þær hugmyndir okkar eru í rauninni mjög á skjön við það hvernig menn skrifuðu og hugsuðu í rituðu máli fyrir upplýsingu, þar sem gáfað fólk gat ekki setið á sér ef orðið köttur til að mynda slysaðist á örkina og varð að segja frá öllu því sem það vissi um ketti. Bara til að sýna fólki fram á að það vissi heilmikið um ketti og svo hélt það áfram, þess vegna að skrifa um fallbyssur. Þessi saga er skrifuð með þeirri aðferð. Í upphafi bókarinnar er mikið rót á hugsunum Jónasar og ég leyfði því bara að ráða og það var mjög holl lexía fyrir mig að gera það í stað þess að að fara aftur í það að skrifa þennan þrautunna, knappa texta, sem einkenndi sérstaklega Skugga-Baldur.“

Var erfitt að fylgja þeirri bók eftir?

„Það er vissulega mjög skrýtið fyrir höfund, sem vill endilega halda áfram að skrifa bækur – vera til og láta sér detta eitthvað nýtt í hug – að vera stanslaust minntur á eldra verk. Og ég tala nú ekki um að vera stanslaust hrósað fyrir verk sem hann hefur sagt skilið við í sátt og samlyndi. Þannig að það er auðvitað álag á það sem maður er að skrifa á hverjum tíma eftir að eitthvað tekst svona vel og vekur athygli. Á síðustu tveimur vikum voru gerðir samningar um útgáfu Skugga-Baldurs í Ungverjalandi og Rússlandi, þannig að ég sé nú fram á að þurfa að tala um hana áfram næstu árin. Maður áttar sig á því að þetta er orðið eins og sjötti fingur á vinstri hendi, sem verður þá bara að fá að vera þar.“

Skugga-Baldur og Rökkurbýsnir eru það sem kalla mætti þjóðlegar skáldsögur, en þó í þeim sé unnið með þjóðleg efni hefurðu sótt tækin og úrvinnsluna utan frá.

„Ég er náttúrulega gamall framúrstefnumaður, með rætur í súrrealismanum. Ég átti nú aldrei von á því að ég yrði höfundur skáldsagna sem að byggðu á einhverjum þjóðlegum arfi, en ég held að einmitt þessi tækjasöfnun sem ég stóð í þarna árum saman með því að reyna allt sem upp í hendurnar kom af tilraunum og aðferðum í því að brjóta upp texta, að skoða innviði hans og samband við höfunda og lesendur, hafi gert mér kleift að nálgast þessi efni með þá tilfinningu að ég gæti kannski komið með eitthvað nýtt og persónulegt innlegg í úrvinnslu efnisins og hvernig maður endursegir þessar sögur.

Ég held að það sé mjög eðlilegur fasi hjá rithöfundum að þeir byrji á því að upplifa sig sem einhvers konar alþjóðlega höfunda og trúi því að það sé til eitthvað sem heitir að vera alþjóðlegur. Eins og það geri þá að alþjóðlegum höfundum að vinna með hugmyndir sem eru á sveimi án allra landamæra. En stóra uppgötvunin er þegar maður sér glóa á náttúrusteinana í sínu nánasta umhverfi og áttar sig á því að þangað sækir maður styrk. Það er í hinu sértæka sem maður sækir sögur og vonandi, ef þær eru vel sagðar, tala þær til fólks sama hvar það er.“