Á undanförnum sex árum hefur notkun hljóðbóka aukist um 145% og lestur bóka dregist saman um 17%

Þetta er sjöunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað.

16. nóvember, 2023

Ný lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í samvinnu við helstu aðila á bókmenntasviðinu, leiðir í ljós að þjóðin les eða hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði og ver til þess 30 til 60 mínútum á dag. Helsta breyting á lestrarvenjum er verulega aukin notkun hljóðbóka. Einnig vekur athygli að sá hópur sem hefur lesið lítið sem ekkert fer stækkandi.

  • Mynd 1 Þróun á hlutfalli þjóðarinnar sem les hefðbundnar bækur og hlusta á hljóðbækur vikulega eða oftar. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Rithöfundasamband Íslands gera könnun á bóklestri Íslendinga.

Þetta er sjöunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað.

Spurningar sem lagðar voru fyrir svarendur eru neðst í fréttinni og hlekkur á heildarniðurstöður.

Við lesum 2,4 bækur á mánuði

· Meðalfjöldi lesinna bóka er 2,4 bækur á mánuði sem er svipað og á síðustu árum.

· Ekki er marktækur munur á yngsta hópnum og þeim elsta en báðir hópar lesa/hlusta á 2,2 bækur á mánuði. Yngsti hópurinn les meira nú en í fyrra, en sá elsti minna (sjá nánar heildarniðurstöður). 

Mynd2-Lesidhlustad-sidastlidna-30-daga

Mynd 1  Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga? Hér er átt við allar tegundir bóka og á hvaða formi og tungumáli sem er, s.s. skáldverk, kennslubækur, barnabækur og fræðibækur, ýmist prentaðar bækur, rafrænar bækur eða hljóðbækur. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Mikil aukning á notkun hljóðbóka

· Gífurleg aukning orðið á notkun hljóðbóka frá árinu 2018, en þá hlustuðu 11% þjóðarinnar vikulega eða oftar, sem nú er komið í 27% en það telst vera 145% aukning. Á sama tímabili hefur vikulegur lestur hefðbundinna bóka minnkað um 17%, eða úr 36% árið 2018 niður í 30% árið 2023.

· Notkun hljóðbóka er algengust hjá aldurshópnum 35-54 ára.

hljóðbækur/bækur

Mynd 2 Þróun á hlutfalli þjóðarinnar sem les hefðbundnar bækur og hlusta á hljóðbækur vikulega eða oftar. Svör þeirra sem tóku afstöðu.

30 til 60 mínútur á dag í lestur

· Þriðjungur þjóðarinnar ver 30 til 60 mínútum á dag í lestur eða hlustun og 24% ver tveimur klukkustundum eða meira á dag. Konur verja að jafnaði meiri tíma í að lesa/hlusta á bækur en karlar.

· Um 14% þjóðarinnar varði engum tíma í lestur eða hlustun.

Tima-varid-i-lestur-a-dag

Mynd 3 Hversu miklum tíma verð þú á dag að jafnaði í að lesa og/eða hlusta á bækur? Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Meirihluti þjóðarinnar les eingöngu eða oftast á íslensku

· 60% þjóðarinnar les einungis eða oftar á íslensku en öðru tungumáli, 18% les jafnoft á íslensku og öðru tungumáli og 22% lesa einungis eða oftar á öðru tungumáli.

· 46% í aldurshópnum 18 til 24 ára les einungis eða oftar á öðru tungumáli en íslensku sem er aukning úr 31% á síðasta ári (sjá nánar heildarniðurstöður). 

Mynd4-Lest-thu-a-islenskur-eda-a-odru-tungumali

Mynd 4 Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli? Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Hvernig bækur lesum við?

· Skáldsögur eru algengasta lesefnið í öllum aldurshópum.

· Yngra fólk les ekki glæpasögur í sama mæli og þau sem eldri eru; rúm 30% í yngsta hópnum, 18-34 ára, en rúm 60% í aldurshópnum 45-64 ára.

· Fleiri í yngri hópnum lesa frekar ástarsögur en í þeim eldri og í elsta hópnum, 65 ára og eldri, les fólk ævisögur í meira mæli en aðrir aldurshópar.

Helmingur þjóðarinnar fer á bókasöfn

· Næstum helmingur Íslendinga, eða 47%, hefur nýtt sér þjónustu bókasafna undanfarna 12 mánuði, með heimsóknum á bókasöfnin eða gegnum rafræna þjónustu þeirra. Þá er lítill hluti þjóðarinnar, eða rúm 3% sem nýtir sér þjónustu bókasafna vikulega eða oftar.

· Konur nýta sér þjónustu bókasafna oftar en karlar.

Mynd5-Bokasofn

Mynd 5 Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi undanfarna 12 mánuði? Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Opinber stuðningur við bókmenntirnar mikilvægur

· Mikill meirihluti þjóðarinnar eða 77% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, sem er hækkun frá fyrra ári, þegar hlutfallið var 74%.

Vinir og ættingjar mestu áhrifavaldarnir

· Tæplega sextíu prósent svarenda fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum og um fjörutíu prósent úr umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Bókin enn vinsæl gjöf

· 61% landsmanna gaf einhverjum bók eða bækur á síðastliðnum 12 mánuðum, sem er tveggja prósenta aukning frá árinu 2022, en umtalsvert lægra hlutfall en árið 2021 þegar um 68% sögðust hafa gefið bók eða bækur.

Mynd6-Gefa-bokMynd 6 Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur á síðastliðnum 12 mánuðum? Svör þeirra sem tóku afstöðu.

Hér má nálgast heildarniðurstöður könnunarinnar. ( PDF)  

Eftirtaldar spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnuninni:

  1. Hversu margar bækur hefur þú lesið og/eða hlustað á síðastliðna 30 daga?
  2. Hvers konar tegund bóka hlustar/lest þú helst?
  3. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á sl. 12 mánuðum?
    1. Hefðbundnar bækur
    2. Rafbækur
    3. Hljóðbækur
  4. Hversu miklum tíma verð þú á dag að jafnaði í að lesa og/eða hlusta á bækur?
  5. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?
  6. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna (heimsóknir og rafræna þjónustu) á Íslandi undanfarna 12 mánuði?
  7. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: „Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
  8. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?
  9. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?
  10. Hefur þú gefið einhverjum bók/bækur sl. 12 mánuði?

Um framkvæmd könnunar

Prósent Rannsóknarfyrirtæki Prósent sá um framkvæmd könnunar og fór hún fram dagana 10. til 27. október 2023. Send var könnun á könnunarhóp Prósents, 18 ára og eldri á Íslandi. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu. Úrtak: 2.500 (einstaklingar 18 ára og eldri). Svarendur: 1281. Svarhlutfall: 51,2%

 


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði: 25 spennandi verk hljóta styrki - 3. maí, 2024 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað 8 millj.kr. til 25 verka árið 2024. Alls bárust 45 umsóknir og sótt var um 30,6 millj.kr.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 28 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir