Mikill meirihluti þjóðarinnar les eingöngu eða oftast á íslensku

Áhugaverðar niðurstöður könnunar sem Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera um bóklestur og bókmenningu.

6. desember, 2017

Niðurstöður könnunar sem Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera um bóklestur gefa tilefni til bjartsýni um framtíð íslenskunnar og bókmenntanna.

  • Thyding-a-islensku-1

Miðstöð íslenskra bókmennta lét nýlega gera könnun á viðhorfi þjóðarinnar til bóklesturs, þýðinga og opinbers stuðnings við bókmenntir. Niðurstöðurnar gefa tilefni til bjartsýni um framtíð bókmenntanna og tungunnar. 

  • Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar les mikill meirihluti þjóðarinnar einungis eða oftar á íslensku en öðrum tungumálum.
  • Niðurstöður sýna einnig að meirihlutinn er sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.
  • Auk þess er meirihluti landsmanna sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að íslensk bókmenning hafi aðgang að opinberum stuðningi.

 

Þátttakendur voru spurðir eftirfarandi spurninga:

„Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?“

„Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu? Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“

„Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu? Það er mikilvægt að íslensk bókmenning hafi aðgang að opinberum stuðningi.“

Zenter rannsóknir framkvæmdi könnunina á tímabilinu 23. október til 8. nóvember 2017, hún náði til 1340 einstaklinga, 18 ára og eldri, og var svarhlutfall 54%. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu. 

Eftirtaldir komu að könnuninni með Miðstöð íslenskra bókmennta:  Borgarbókasafnið, Félag íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkir, Landsbókasafn-Háskólabókasafn og Rithöfundasamband Íslands.

Sjá ítarlegar niðurstöður könnunarinnar hér neðar.

Lestur eftir tungumálum

Um 66% Íslendinga les einungis eða oftar á íslensku en á öðrum tungumálum. 28,9% les einungis á íslensku, 36,7% les oftar á íslensku og 17,5% les jafnoft á íslensku og öðru tungumáli. 15,6% svarenda les oftar á öðru tungumáli en íslensku og 1,3% les einungis á öðru tungumáli. Þeir sem eru 34 ára og yngri lesa mun síður á íslensku en þeir sem eldri eru. 4% á aldrinum 18 til 24 ára lesa einungis á íslensku en hlutfallið er 51% hjá 65 ára og eldri. Íbúar á landsbyggðinni lesa einnig frekar á íslensku en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi lesa síður á íslensku en aðrir hópar og námsmenn síður en aðrir.

Lestur-eftir-tungumalum

Mynd 1. Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu 

 


Lestur-eftir-tungumalum-linuritMynd 2. Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu. Niðurstöður sýndar niður á kyn, aldur og búsetu.

 

Þýðing yfir á íslensku 

80,7% er sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku. 3,6% svarenda er ósammála og 15,7% hvorki sammála né ósammála. Aldurshópurinn 25 til 34 ára er minna sammála en þeir eldri og íbúar landsbyggðarinnar meira sammála en íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Thyding-a-islensku-1Mynd 3. Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu 

 

Thyding-a-islensku-2Mynd 4. Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu. Niðurstöður sýndar niður á kyn, aldur og búsetu.

 


Opinber stuðningur

77,5%  er sammála þeirri fullyrðingu að mikilvægt sé að íslensk bókmenning hafi aðgang að opinberum stuðningi. Yngsti aldurshópurinn, 18 til 24 ára, er meira sammála en þeir sem eldri eru og konur meira sammála en karlar. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru meira sammála en íbúar landsbyggðarinnar og einstaklingar með háskólapróf meira sammála en aðrir.

Opinber-studningur-1Mynd 5. Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu 


Opinber-studningur-2

Mynd 6. Hlutfall þeirra sem tóku afstöðu. Niðurstöður sýndar niður á kyn, aldur og búsetu.

 

Framkvæmd:
Lýsing á rannsókn
Framkvæmdatími 23. október til 8. nóvember 2017.
Aðferð: Netkönnun meðal könnunarhóps Zenter rannsókna, einstaklingar 18 ára og eldri.
Svarfjöldi: 1340 einstaklingar.
Svarhlutfall: 54%

Gögn eru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir