Landsbankinn bakhjarl á Bókasýningunni í Frankfurt

25. nóvember, 2010

Sögueyjan Ísland og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að Landsbankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins.

Sögueyjan Ísland (Sagenhaftes Island) og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að Landsbankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins, bæði við kynningu innanlands og í starfinu erlendis.

Landsbankinn mun styrkja sérstaklega einstæða sýningu á íslenskum handritum sem opnuð verður í Schirn listasafninu í Frankfurt í september 2011, en handritasýningin er hluti af stærri sýningu Gabríelu Friðriksdóttur. Á sýningunni er farin óvenjuleg leið með því að blanda saman hinu forna og hinu nýja.

Innanlands verður Landsbankinn bakhjarl sérstaks kynningarverkefnis um Íslendingasögurnar í nútímanum. Listafólkið unga Bergur Ebbi Benediktsson, Ugla Egilsdóttur og Dóri DNA munu setja saman uppistand byggt á Íslendingasögunum og verður það þróað í samstarfi við þrjú þýsk ungskáld sem eru afar vinsæl í Þýskalandi um þessar mundir. Þau munu verða á ferðinni bæði hérlendis og í Þýskalandi og hefst verkefnið á vordögum 2011.

Landsbankinn - undirritunHalldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sögueyjunnar, fagnar samstarfssamningi við Landsbankann og segir stuðninginn við heiðurssýningu Íslands í Frankfurt vera afar mikilvægan. Flutningur íslenskra handrita til Þýskalands sé viðamikið verkefni sem verði að vanda til, og það verði spennandi að fella þau inn í sýningu íslenskrar nútímalistar. Halldór segir ennfremur að mikill fengur sé að stuðningi Landsbankans við kynningar innanlands.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir þennan samning gleðiefni fyrir bankann. „Handritin eru þjóðargersemi og það er heiður fyrir bankann að taka þátt í að flytja og sýna íslensku handritin á stærstu bókamessu heims. Þetta er einstætt tækifæri fyrir Ísland, íslenskar bókmenntir og Íslendinga til að kynna menningu sína og sögu og Landsbankinn fagnar því að fá tækifæri til að taka þátt í því verkefni. Ekki síður hlökkum við til að fylgjast með íslenskum og þýskum ungskáldum ferðast um landið með Íslendingasögurnar í farteskinu og endurnýja þar með þjóðararfinn.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir