Fyrirboði þess sem koma skal

23. mars, 2011

Nýútkomnar bækur fimm íslenskra höfunda á þýsku trekkja að í Leipzig og víðar. Jákvæð viðbrögð gesta á bókasýningunni í Leipzig.

Leipzig1

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Daginn áður en bókasýningin í Leipzig, önnur stærsta bókasýning Þýskalands, opnaði í ár birti þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung langa grein um fimm íslenskar bækur sem eru væntanlegar á þýsku í vor. Í inngangi greinarinar segir: „Fjármálarkísan varð þess valdandi að veraldlegir sjóðir Íslands gufuðu upp. Bókmenntafjársjóðir landsins eru hins vegar langt frá því að vera uppurnir. Það sanna þær bækur sem koma út nú á vordögum og eru fyrirboði þess sem koma skal í haust.“ Ein þeirra bóka sem er lofuð á þennan hátt í greininni er skáldsaga Gyrðis Elíassonar Gangandi íkorni. Fyrsti upplesturinn í tilefni af útgáfu hennar hjá svissneska forlaginu Walde + Graf var haldinn í íslenska sendiráðinu fyrir opnun bókasýningarinnar í Leipzig.  Fullt var út úr dyrum í sendiráðinu þegar Gyrðir Elíasson og Halldór Guðmundsson kynntu bókina en Halldór gaf hana einmitt út fyrst fyrir 25 árum hjá Máli og menningu.

„Ég læt bara mynda mig með þessa bók“

Leipzig4Auk Halldórs og Gyrðis las þýski leikarinn Thomas Sarbacher upp úr bókinni. Sarbacher er þekktur kvikmynda- og sjónvarpsleikari í Þýskalandi og fór ekki leynt með aðdáun sína á bókinni á hinum fjölmörgu upplestrum sem fram fóru í Þýskalandi á dögunum. Þegar aðdáandi vildi mynda hann á upplestri í Leipzig greip Sarbacher bókina, hélt henni fyrir framan sig og sagði: „Ég læt bara mynda mig með þessa bók.“

Rithöfundarnir Kristín Marja Baldursdóttir og Einar Kárason voru í sviðsljósinu á blaðamannafundi Sögueyjunnar, sem haldinn var í upphafi bókasýningarinnar. Kristín Marja lýsti mikilvægi heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt á þessa leið: „Rithöfundar um allan heim eiga sér þá ósk að verk þeirra fari sem víðast. Þessi ósk er tengd sköpunargleði og er á sama tíma þörf fyrir viðurkenningu. Það er auðvelt að ímynda sér hversu mikilvægt það er fyrir rithöfund frá einu minnsta landi Evrópu að verk hans séu lesin í öðrum löndum.“

Leipzig2Thomas Böhm, verkefnastjóri bókmennta í Þýskalandi hjá Sögueyjunni kynnti fyrirhugaða bókamenntadagskrá í Þýskalandi í tilefni heiðursþátttökunnar í Frankfurt. Á dagskránni er meðal annars „dagur íslenskrar ljóðlistar“ sem haldinn verður 8. júní í samstarfi við tengslanet bókmenntahúsanna í Þýskalandi og sjónvarpsstöðina ARTE, sem og fjölmargar og margvíslegar kynningar á Íslendingasögunum eða eins og Thomas Böhm sagði á fundinum: „Persónur og aðstæður úr Íslendingasögunum og eddukvæðunum taka stöðugt á sig nýja mynd í íslenskum samtímabókmenntum. Þannig mun bókmenntadagskrá Sögueyjunnar verða;  sígild verk í bland við framsækin sýningar- og kynningarform. Við gleðjumst yfir því að hafa fengið svo mörg tilboð sem raun ber ber vitni frá rómuðum skipuleggjendum bókmenntahátíða í Þýskalandi, Austurríki og Sviss til að kynna íslenskar bókmenntir.“

Forlag sem gefur út íslenskar bækur hlýtur mikilvæg verðlaun

Upplestrar á bókasýningunni sem og í borginni sjálfri sýndu vel hversu mikilla vinsælda íslenskar bókmenntir njóta í Þýskalandi. Kristín Marja Baldursdóttir, Andri Snær Magnason, Einar Kárason, Gyrðir Elíasson og Sjón lásu úr nýútkomnum verkum sínum,meðal annars á samnorræna standinum, hjá ARTE sjóvarpsstöðinni og  á hinu „langa kvöldi norrænna bókmennta“ svonefnda, en hefð er fyrir því að Norðurlöndin haldi sameiginlegt upplestrarkvöld í Leipzig.

Leipzig3(crop)Sérstaka athygli vakti upplestur úr íslenskum bókmenntum sem haldinn var í Myndlistarsafninu í Leipzig (Museum der bildenden Künste Leipzig). Þýski stórleikarinn Joachim Król las úr 79 af stöðinni (Taxi 79 ab Station) eftir Indriða G. Þorsteinsson og rithöfundurinn Kristof Magnusson las úr bókinni Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson sem fengið hefur hið skemmtilega nafn Das Glitzern der Heringsschuppe in der Stirnlocke á þýsku. Um 280 gestir sóttu upplesturinn og lófatak og feiknagóð sala beggja bókanna í lokin sýndu  hversu mikil áhrif þessar tvær „litlu“ bækur höfðu.

Báðar bækurnar eru nýkomnar út hjá þýska forlaginu Transit Verlag, sem tók við Kurt Wolff viðurkenningunni, virtustu viðurkenningu sem veitt er þýskum forlögum,  á bókasýningunni í Leipzig. Við verðlaunaafhendinguna var oftar en einu sinni minnst á hinar nýútkomnu Íslandsbækur sem forlagið gefur út en veggspjöld sem prýddu kápur bókanna mátti sjá þar upp um alla veggi.

Upplestur Einars Kárasonar á bókmenntahátíðinni LitCologne var með eindæmum vel sóttur og dró að 500 gesti. Kristof Magnusson stýrði umræðum á upplestrinum og leikarinn Gert Köster las á þýsku.

Að lokum má geta þess að hljóðbókin „Leben im Fisch. Kristín Steinsdóttir erzählt ihre Kindheit in Island“ (Lífið í fiskinum. Kristín Steinsdóttir segir frá uppvaxtarárum sínum á Íslandi) var valin besta hljóðbókin af útvarpstöðinni HR 2 sem „hljóðbók mánaðarins“ í apríl.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir