Kristín Marja verðlaunuð á degi íslenskrar tungu

16. nóvember, 2011

Rithöfundurinn Kristín Marja Baldursdóttur hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar  2011, en þau voru afhent á hátíðardagskrá í Gerðubergi í Breiðholti í tilefni af degi íslenskrar tungu.

Kristín Marja Baldursdóttir

Rithöfundurinn Kristín Marja Baldursdóttur hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2011, en þau voru afhent á hátíðardagskrá í Gerðubergi í Breiðholti í tilefni af degi íslenskrar tungu.

Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir meðal annars: „Veruleiki íslenskra kvenna er yrkisefni Kristínar Marju og varpar hún í verkum sínum ljósi á líf og störf kvenna, hlutverk, drauma og þrár. Jafnrétti kynjanna var markmið og leiðarljós er hún hóf skáldaferil sinn og má merkja það ljóst og leynt í gegnum verk hennar. Kristín Marja er alþýðuskáld í þeim skilningi að bækur hennar eru lesnar í öllum kimum íslensks samfélags og þjóðin sameinast í sagnaheimi hennar.  Þá hafa verk Kristínar Marju hlotið miklar vinsældir erlendis og þá sérstaklega í þýskumælandi löndum [...] Hún glímir í sögum sínum við margslungnar hliðar mannlífsins og undirtónninn er konan og hin kvenlæga veröld. Í bókmenntunum lifir tungumálið, en eingöngu ef þær eru lesnar og Kristín Marja hefur fyrir margt löngu kvatt sér hljóðs hjá íslenskri þjóð og fangað fjöldann með myndrænum lýsingum og fjölskrúðugu máli sagnameistarans, enda blómstrar tungan í snjáðustu bókunum.“

„Þegar íslenskir rithöfundar lesa upp úr þýddum verkum sínum á erlendri grundu fá þeir gjarnan spurningar frá áheyrendum á eftir. Meðal annars þá hvort það sé ekki erfitt fyrir höfundinn að skrifa á tungu sem svo fáir skilja – hafa þeir þá eflaust bágborna afkomu aumingja höfundarins í huga,“ sagði Kristín Marja í ávarpi sínu. „Á slíkum stundum er ekki laust við að sú hugsun sækji að höfundi að þeir hafi rétt fyrir sér; hann sé náttúrulega leiksoppur þeirra örlaga að vera fæddur á Íslandi. Og til að upplýsa þá enn betur um þann vanda sem íslenskir höfundar glíma við, ef til vill til að fá samúð, er gjarnan gripið til þess ráðs að lesa stuttan texta úr frumsamda verkinu, með ríkri áherslu á stuðla og höfuðstafi, á r-ið mikla og aðblásturinn, láta textann flæða – eins og íslenskan foss í leysingum – af fullum þunga yfir mannskapinn. En viðbrögðin við lestrinum hafa ætíð verið á annan veg en ég ætla þeim. Í stað þess að fá þann dóm um íslenskuna, að hún sé hart tungumál og óþjált, segja útlendingarnir með aðdáun: ‚Það er svo mikil músík í íslenskunni.‘“

„Ég er afar upp með mér að veita verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar viðtöku,“ sagði hún að lokum. „Ég hef alltaf verið svo veik fyrir þeim verðlaunum – og kannski engin furða, á undan mér hafa farið íslenskujöfrar. Ég vil þakka íslenskum skáldum, rithöfundum, kennurum, tónlistarmönnum, foreldrum, afa og ömmu fyrir að hafa auðgað mál mitt.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir