Íslenskur teiknari tilnefndur til Þýsku barnabókaverðlaunanna

20. mars, 2012

Barnabókin Frerk, du Zwerg!, með myndskreytingum Ránar Flygenring, hefur verið tilnefnd til Þýsku barnabókaverðlaunanna.

frerk_du_zwergBarnabókin Frerk, du Zwerg! (Frerk, dvergurinn þinn!), með myndskreytingum Ránar Flygenring, hefur verið tilnefnd til Þýsku barnabókaverðlaunanna. Höfundur bókarinnar er Finn-Ole Heinrich, en hann var á meðal þýskra unglistamanna sem stigu á stokk á Íslandi og í Þýskalandi í sýningunni „Bændur flugust á“ sem Sögueyjan stóð fyrir í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt 2011.

Bókin fjallar um dreng að nafni Frerk sem sökum smæðar og máttleysis er utanveltu í skólanum. Til að bæta gráu ofan á svart býr Frerk við ofríki ráðríkrar móður sem klæðir hann upp eins og pabba hans, sem er fámáll skósölumaður. Á meðan háðsglósurnar dynja á Frerk í skólanum gerjast í huga hans villtar hugsanir, skrautleg orð og draumur um úfinn hund. Dag einn tekur líf Frerks miklum stakkaskiptum þegar hann finnur undarlegt egg sem af hendingu klekst út í vasa hans.

Frerk, du Zwerg! kom út í þýskalandi í fyrra og er fyrsta barnabókin sem Rán myndskreytir. Sjá má stórskemmtilegar teikningar hennar í kynningarstiklu bókarinnar. Önnur barnabók með myndskreytingum Ránar, Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason, kom út á Íslandi fyrir síðustu jól.

Þýsku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 1956. Dómnefndin er skipuð gagnrýnendum og bókmenntasérfræðingum og veitir hún verðlaun í fjórum flokkum: myndabóka, barnabóka, unglingabóka og rita almenns efnis. Afhending verðlaunanna fer fram í október á Bókasýningunni í Frankfurt 2012.


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 spennandi verk hljóta styrki - 6. maí, 2024 Fréttir

8 milljónum var veitt úr sjóðnum til 25 barna- og ungmennaverka sem koma út á næstunni.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 27 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir