Að lifa sig sterkt inn í tvö tungumál

5. september, 2012

Þýðendur máttu hafa sig alla við að koma íslenskum bókmenntum í þýskan búning á heiðursárinu í Frankfurt. Sögueyjan ræddi við þýðandann Richard Kölbl um hvað hafi staðið upp úr á árinu.

Þýðendur úr íslensku yfir á erlend tungumál eru sendiherrar tungumálsins og þjóðarinnar. Þeirra starf skilar sér í útbreiðslu íslenskrar menningar um heimsbyggðina og án þeirra færu íslenskar bókmenntir varla  víða. Í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt 2011, þegar Ísland var heiðursgestur, má segja að þýðendur hafi verið í akkorðsvinnu við að koma íslenskum texta í þýskan búning, þeir voru umsetnir af útgefendum og verkefnalistinn var fjölbreyttur: Íslendingasögur, ljóð, leikrit, barnabækur, glæpasögur og fagurbókmenntir.

Richard Kölbl er einn þeirra sem stóð í ströngu í fyrra og eftir hann liggja fjölmargar þýðingar. Við spurðum Richard hvað stæði upp úr og það stóð ekki á svörum.

„Allt var þetta skemmtilegt en það var þó einkum þrennt sem stóð upp úr í þýðingarvinnunni. Í fyrsta lagi var það bók Hermanns Stefánssonar, Algleymi,  sem er ein sú besta sem ég hef lesið, en hún kom út hjá litlu forlagi sem heitir Litteraturverlag Roland Hoffmann í fyrra og hlaut ágætar viðtökur. Í öðru lagi var það safn ljóðaþýðinga sem kom út hjá Suhrkamp-forlaginu og innihélt ljóð sem spönnuðu breitt tímabil, allt frá Agli Skallagrímssyni til nútímaljóðskálda. Og í þriðja lagi voru það leikritaþýðingarnar, en ég þýddi íslensk leikrit eftir Braga Ólafsson, Jón Atla Jónasson og Sigtrygg Magnason sem öll komu út í einni bók hjá Henschel Schauspiel. Nú á einmitt að setja leikritið Djúpið eftir Jón Atla upp í Berlín, en það var eitt af þessum þremur sem ég þýddi. Það var gaman að vinna með svo mörg form og það gerði þýðingarstarfið svo fjölbreytt. Sérstaklega þótti mér gaman að sinna ljóðaþýðingum og er stoltur af þeim, því þá þurfti ég að lifa mig svo sterkt inn í bæði tungumálin, íslenskuna og þýskuna.“

Ljóðaþýðingar Richard Kölbl birtust ekki eingöngu í safnritinu frá Suhrkamp því hann á einnig heiðurinn að þýskri þýðingu ljóðsins Jesús Kristur og ég eftir Vilhjálm frá Skáholti sem borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, las upp á blaðamannafundi sem haldinn var í sýningarskála Íslands í Frankfurt. Jón las ljóðið á þýsku frammi fyrir miklum mannfjölda.

Mynd um Þórberg óvæntur ávöxtur af verkefninu

Við spurðum Richard hvort það væri rólegra hjá honum þessa dagana en á sama tíma í fyrra. „Jú, vissulega er rólegra, en það var líka brjálað að gera í fyrra. Það var ekkert lát á þýðingum úr íslensku á þýsku og ég hugsaði alltaf sem svo að þetta væri bara tímabundið. En sú von brást hins vegar,“ segir Richard og hlær „því ég fékk aldrei frí.“

Þegar rætt er um næstu verkefni rifjar Richard upp dvöl á Hala í Suðursveit þar sem Sögueyjan stóð fyrir þýðendaþingi í árdaga verkefnisins árið 2009. Fjölmörgum þýðendum var boðið á þingið og meðal annars héldu Pétur Gunnarsson og Soffía Auður Birgisdóttir kynningu á Þórbergi Þórðarsyni fyrir ráðstefnugesti. Síðan þá hefur Richard verið heillaður af þessum snjalla en skrýtna höfundi sem var ólíkur sveitungum sínum og algjörlega sér á parti.

Neistinn sem kviknaði á þýðendaþinginu er að verða að báli. Nú vinnur Richard að heimildarmynd um líf og störf Þórbergs í samvinnu við Þórbergssetur á Hala og hefur hann sankað að sér þekkingu og efni um skáldið og birt um hann greinar. Þegar Sögueyjan hitti Richard að máli til að ræða um þýðingar var hann einmitt á leið í fornbókaverslun til að útvega sér eintök af bókum Þórbergs sem hann vantaði í safnið. Við þetta má bæta að Íslenskur aðall kom út í þýskri þýðingu Kristofs Magnússonar hjá S. Fischer Verlage og er það eina bók Þórbergs sem hefur komið út á þýsku.

Aukin meðvitund: Íslenskir höfundar á siglingu

Richard segist verða var við aukna meðvitund um Ísland og íslenskar bókmenntir eftir heiðursþátttökuna á Bókasýningunni í Frankfurt. „Mér finnst, án þess að ég hafi nokkrar tölur á bak við það, að hugmyndin um Ísland hafi færst ofar í meðvitund fólks í Þýskalandi og það er svo merkilegt að það heyrast aldrei neikvæðar raddir um Ísland eða íslenska menningu. Þjóðverjar eru heillaðir af Íslandi og finnst landið framandi, en það er líka margt sem þeir gera sér enga grein fyrir um landið. Til dæmis hversu dýrt það er að vera Íslendingur, hvað það kostar að vera svo fámenn þjóð en reka samt alla grunnþjónustu. Það væri gaman að skrifa grein um Ísland og að víkka sjóndeildarhring Þjóðverja gagnvart Íslendingum og gera þá minna framandi.

Richard stoppar ekki lengi á landinu bláa að þessu sinni en er væntanlegur hingað fljótlega aftur. „En það er gaman að sjá árangurinn af verkefninu, samstarf Íslands og Þýskalands gekk afar vel og íslenskar bókmenntir eru bókstaflega á siglingu þessa dagana. Þegar ég sigldi hingað með Norrænu um daginn rakst ég á fjölmarga Þjóðverja sem lásu í nýútkomnum þýskum þýðingum íslenskra bókmennta. Það var skemmtilegt!”


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir