Fréttir

Jón Kalman, Þórarinn og Ingibjörg á Bókasýningunni í Leipzig 14. - 17. mars

17.3.2013

Miðstöð íslenskra bókmennta á Bókasýningunni í Leipzig.


Rithöfundarnir Þórarinn Eldjárn, Jón Kalman Stefánsson og Ingibjörg Hjartardóttir taka þátt í Bókasýningunni í Leipzig í Þýskalandi sem stendur yfir dagana 14. til 17. mars. Öll eiga þau nýútkomnar bækur á þýsku, bók Þórarins, Brotahöfuð/Blauturm kom út í janúar og bók Jóns Kalmans, Hjarta mannsins/Das Herz des Menschen og bók Ingibjargar Upp til Sigurhæða/Die andere Tochter, sem er hennar þriðja bók sem kemur út í Þýskalandi, komu út núna í mars. Á annan tug íslenskra verka eru væntanleg á þýsku á árinu.

Miðstöð íslenskra bókmennta og sendiráð Íslands í Berlín standa að þátttöku íslensku höfundanna í sýningunni en sendiráð Norðurlandanna í Berlín skipuleggja norrænu þátttökuna þar sem bækur landanna eru kynntar og höfundar koma fram.

Bókamessuna í Leipzig sækja á hverju ári um 160.000 gestir þar sem rúmlega 2000 sýnendur frá 43 löndum kynna bókmenntir sínar og höfunda.

Föstudagskvöldið 15. mars var hápunktur norrænu þátttökunnar en þá lásu þeir Þórarinn og Jón Kalman úr verkum sínum fyrir stappfullu húsi a norrænu bókmenntakvöldi sem haldið er í sjöunda sinn í tengslum við bókamessuna í Leipzig. Spyrill hjá þeim Jóni og Þórarni var Thomas Böhm en Thomas er íslenskum rithöfundum að góðu kunnur fyrir störf hans í þágu íslenskra bókmennta í tengslum við þátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011.

Miðstöð íslenskra bókmennta, sem tók til starfa 1. janúar síðastliðinn og sameinar Sögueyjuverkefnið og Bókmenntasjóð, heldur utan um eftirfylgni við góðan árangur Íslands sem heiðursgests á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011 og er þátttakan í Leipzig hluti af þeirri eftirfylgni.