Tvær nýjar bækur frá Gyrði Elíassyni

14. desember, 2009

Í haust komu út tvær nýjar bækur frá Gyrði Elíassyni, smásagnasafn og ljóðabók. Gagnrýnendur eru á einu máli að Gyrðir sé upp á sitt besta.

 Í haust komu út tvær nýjar bækur frá Gyrði Elíassyni, smásagnasafnið Milli trjánna og ljóðabókin Nokkur almenn orð um kulnun sólar. Bókaforlagið Uppheimar gefur út.

Milli trjánna er áttunda smásagnasafn Gyrðis, en hann hlaut tilnefningu til hinna virtu Frank O'Connor bókmenntaverðlauna vorið 2009 fyrir Steintré, síðasta smásagnasafn sitt. Í nýja safninu eru 47 smásögur sem einkennast allar af þeim áreynslulausa og myndríka stíl sem prýðir verk Gyrðis. Þá kallast umfjöllunarefni þessa safns á við fyrri sögur höfundar. Hér bregður fyrir líkt og áður ýmiskonar óhugnaði og furðum, einsemd, draumum, ferðalögum, bernskuminningum og framtíðarsýnum, auk þeirrar ísmeygilegu fyndni sem lesendur þekkja úr fyrri verkum

Gagnrýnendur eru á einu máli að Gyrðir Elíasson sé upp á sitt besta í verkinu. Gagnrýnandi Fréttablaðsins, Bergsteinn Sigurðsson, sagði bókina vera „hreinn og beinn listgaldur“ og skynjaði endurnýjaða ástríðu höfundarins fyrir skáldskapnun: „Milli trjánna er verk samið af höfundi sem hefur náð fullkomnum tökum á list sinni, liggur  mikið á hjarta og kemur því til skila af leiftrandi sköpunargleði.“ Gagnrýnendur Kiljunnar, Páll Baldvin Baldvinsson og Kolbrún Bergþórsdóttir, sögðu bókina vera fjölbreytilegt og skemmtilegt safn: „Glæsilegt smásagnasafn. [...] Gyrðir eins og hann gerist bestur.“ Þröstur Helgason, gagnrýnandi Víðsjár, vildi ekki að lesturinn tæki enda: „Helst er ég þó bara á því að Gyrðir sé upp á sitt allra besta í þessari bók. Hún er hreinasta gersemi.“ Og Ingi F. Vilhjálmsson, gagnrýnandi DV, sagði safnið vera eitt af hans bestu verkum: „ Milli trjánna er óneitanlega ein af hans bestu bókum og ég tel hana bera þess merki að Gyrðir hljóti að vera að nálgast hátind sinn sem höfundur.“

Nokkur almenn orð um kulnun sólar er þrettánda ljóðabók Gyrðis Elíassonar. Í henni heldur hann áfram að einfalda og tálga til ljóðmál sitt. Ljós og áhrifaríkur skáldskapur, prýddur þeirri myndvísi sem einkennir verk Gyrðis Elíassonar, blandast hér gamansemi og náttúrulýrík af ýmsu tagi, heitum tilfinningum og ótta sem er nær yfirborðinu en oft áður. Þá geymir bókin hvassa samfélagsgagnrýni í afstöðu sinni til náttúrunnar og þess smáa sem hún geymir.

Þröstur Helgason  sagði í gagnrýni sinni í útvarpsþættinum Víðsjá að hún sé það verk sem hann hafi beðið eftir þetta haust: „Eins ljóst og umfjöllunarefnið er af titli bókarinnar, Nokkur almenn orð um kulnun sólar, þá eru ljóðin skýr og óskeikul í ætlunarverki sínu. Þessi bók er satt að segja engin hvítbók, heldur svört skýrsla um það hvernig okkur hefur farnast eftir að frægðarsólin hné til viðar. Það er fátt að orna sér við og svartur himinn hangir yfir ljóðmælanda, lífið er þungur draumur, [...] En þrátt fyrir kuldann og myrkrið er þetta eiginlega bókin sem maður hefur beðið eftir þetta haust. Hér eru hlutirnir sagðir eins og þeir eru – og í því felst kannski ákveðin huggun, jafnvel lausn.“


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir