Þetta er raunverulegt ævintýri. Eric Boury þýðandi.

Þeim finnst það hljóma eins og álfamál... það gleður mig svo mikið þegar fólki líkar vel við íslenskuna.

21. september, 2018

Eric Boury hefur þýtt um fimmtíu íslensk verk yfir á frönsku. Hér er hann í viðtali við Magnús Guðmundsson um upphafið að ævintýrinu, áhugann á íslenskri tungu, ólík bókmenntaverk og hlutverk þýðandans.

Eric Boury er ötull þýðandi íslenskra bókmennta á franska tungu. Á liðnum árum hefur hann þýtt verk höfunda á borð við Arnald Indriðason, Jón Kalman Stefánsson, Guðberg Bergsson, Steinunni Jóhannesdóttur, Einar Má Guðmundsson og Árna Þórarinsson og fjölda annarra enda á hann að baki um fimmtíu þýðingar úr íslensku.

Dreymdi um tungumál og norðrið

Aðspurður um hvað hafi orðið til þess að maður sem er fæddur og uppalinn í Frakklandi með alla sína menningu sæki í örmenningu norður í Atlantshafi, segir hann að það sé reyndar sitthvað líkt með hans baklandi og íslenskum menningarheimi. „Þar sem ég er fæddur og uppalinn var fyrst og fremst bændamenning. Ég kem frá agnarsmáu þorpi sem heitir Sainte-Sévère-sur-Indre og menningarlega séð er það meira eins og að koma frá Vestfjörðum en miðju Frakklands. Á þeim tíma þegar ég var að alast upp, en ég er fimmtugur núna, þá var þetta litla þorp mjög einangrað og samfélagið smátt. Og það er nú einu sinni þannig með exotisma að suma dreymir um fjarlægar eyjar í suðurhöfum en sem ungan mann dreymdi mig um tungumál og norðrið.”

Eric byrjaði að læra sænsku með eina kennslubók að vopni sextán ára gamall. Hann hafi hins vegar uppgötvað að íslenska var elsta tungumál norðursins og það kveikti í honum. Seinna fór hann svo í háskóla til Normandí til þess að læra norræn mál og eftir að hafa stundað það nám í tvö ár hafi hann haldið til Íslands til þess að læra drauma tungumálið og bjó þar í tvö ár. „Um tveggja mánaða skeið dvaldi ég á bóndabæ í Eyjafirði og þar sá ég margt framandi en líka margt sem minnti mig á mínar æskuslóðir. Heima sá maður ekki margar bækur inni á heimilunum en þar sem ég var í Eyjafirðinum voru veggirnir þaktir bókum. Þarna var ég eins og fiskur í vatni,” bætir Eric við og hlær hlýlega við tilhugsunina.

„Um tveggja mánaða skeið dvaldi ég á bóndabæ í Eyjafirði og þar sá ég margt framandi en líka margt sem minnti mig á mínar æskuslóðir. Heima sá maður ekki margar bækur inni á heimilunum en þar sem ég var í Eyjafirðinum voru veggirnir þaktir bókum. Þarna var ég eins og fiskur í vatni,” bætir Eric við og hlær hlýlega við tilhugsunina.

Þýðandi án þess að vita af því

Eric kom til Íslands árið 1987 tæpleg tvítugur, sneri heim tveimur árum síðar og tók þá próf í ensku og kennararéttindum fyrir verkmenntaskóla. Jean Renaud, deildarstjóri norrænu deildarinnar og virkur þýðandi, bauð honum að taka að sér smá íslenskukennslu og þá hafi boltinn byrjað að rúlla. „Jean Renaud ráðlagði mér svo tveimur árum síðar að fara í Sorbonne í París og skrifa doktorsritgerð og þá þurfti ég að byrja á því að skrifa mastersritgerð númer tvö hún fjallaði um íslenskar kvennabókmenntir. Ég þurfti að þýða talsvert af þeim texta sem ég var að fjalla um og leiðbeinandi minn Régis Boyer sagði að ég væri ljómandi fínn þýðandi sem ég hafði satt best að segja enga hugmynd um. 

Það hafði aldrei hvarflað að mér að fara að þýða bækur en þarna fékk ég hvatninguna og fyrsta verkefnið reyndist vera 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason. Það þurfti reyndar að tuða talsvert í mér því hún er full af orðaleikjum og mér fannst að þetta væri eiginlega óþýðanlegt verk. En ég lét þó tilleiðast og þetta gekk ljómandi vel. Útgefandinn sagði að ég væri þýðandi án þess að vita af því og að kannski var það vegna þess að ég hafði alltaf skrifað sjálfur. Það er nefnilega svo mikilvægt að kunna að skrifa á eigin tungumáli ef þetta á að gera sig,” segir Eric og bætir við að eftir þetta hafi ekki verið aftur snúið. „Næst þýddi ég Elskan mín ég dey, eftir Kristínu Ómarsdóttur og svo Arnald sem ég hef fengist við allar götur síðan og núna er ég að leggja lokahönd á Myrkrið veit.”

Þannig að maður verður að vera mjög gagnrýninn þegar maður er að þýða því það er mikilvægast að textinn virki á frönsku.

Mikilvægast að textinn virki

Eric Boury segir að þýðingarstarfið sé skemmtilegt viðfangs enda feli það í sér sífellt nýjar og spennandi áskoranir. „Íslenskan lýtur til að mynda öðrum lögmálum en franskan og það er margt sem þú getur gert á íslensku sem þú getur ekki gert á sama hátt á frönsku. Þetta er eitthvað sem ég sé alltaf betur og betur. Íslenskan á það til að mynda til að endurtaka sig mikið en maður sér það ekki þegar maður er að lesa á íslensku. Ég tek ekki eftir því frekar en aðrir en þegar ég byrja að þýða textann þá kemur þetta í ljós og jafnframt að þetta er ekki hægt á frönsku. Það þýðir ekki að textinn sé illa skrifaður á íslensku heldur er þetta íslenskur stíll á meðan franskan hreinlega hatar endurtekningar. Þannig að maður verður að vera mjög gagnrýninn þegar maður er að þýða því það sem er mikilvægast er að textinn virki á frönsku.”

Ég veit að það er klisja

Síðastliðið haust hélt Miðstöð íslenskra bókmennta þýðendaþing á Íslandi sem þótti takast afar vel. Eric Boury var á meðal þátttakenda og hlaut ásamt Victoriu Cribb, enskuþýðanda, heiðursviðurkenninguna Orðstír, sem veitt er þýðendum íslenskra bókmennta á erlend mál.

Eric segir að þing sem þessi séu ákaflega mikilvæg fyrir starfandi þýðendur því stundum sé starfið eilítið einmanalegt. „Það er svo gaman að vera á svona þingi og við vorum þarna um þrjátíu talsins og töluðum endalaust. Við þekktumst ekki öll fyrir þingið en það sem við áttuðum okkur strax á er hversu margar bækur við eigum sameiginlegar og að í því er fólgin sameiginleg reynsla. Ég veit að það er klisja að segja að rithöfundar, þýðendur og bókmenntir byggi brýr á milli menningarheima og tengsl á milli þjóða, en á svona þýðendaþingi þá er það engin klisja. Maður hreinlega sér þetta gerast. Þetta er raunverulegt ævintýri.
Ég hitti þýðendur sem er búnir að þýða það sem ég hef líka þýtt og þá veit ég hvað býr að baki, vorkenni jafnvel viðkomandi að hafa látið hafa sig út í þetta en dáist að honum eða henni um leið", segir Eric glettinn og bætir við. „Og þó svo maður þekki ekki fólkið þá verður þarna mikill vinafagnaður fólks frá fjölda landa og maður kynnist fólki með ógnarhraða."

Ég veit að það er klisja að segja að rithöfundar, þýðendur og bókmenntir byggi brýr á milli menningarheima og tengsl á milli þjóða, en á svona þýðendaþingi þá er það engin klisja. Maður hreinlega sér þetta gerast. Þetta er raunverulegt ævintýri.

Gæti ekki hugsað mér að þýða einungis glæpasögur eða bara fagurbókmenntir

Það eru gríðarlega ólíkir höfundar og verk sem Eric hefur tekist á við að þýða í gegnum tíðina og hann segir að það sé honum mikilvægt að fást við svo fjölbreytta flóru. „Ég gæti ekki hugsað mér að þýða einungis glæpasögur eða bara fagurbókmenntir. Ég hef reyndar hvorki þýtt leikrit né ljóð, nema hið síðarnefnda þegar þau koma við sögu í skáldsögum sem ég er að fást við. En aldrei ljóðabálk eða bók, meðal annars vegna þess hversu eftirspurnin er takmörkuð í Frakklandi þar sem maður finnur fyrir þessu viðhorfi að ljóðskáld þurfi að vera í „alvöru” vinnu. Eins og það sé ekki vinna að vera ljóðskáld sem er auðvitað mjög mikil vinna en því miður er þetta viðhorf við lýði."

Vinir mínir sem lesa bækurnar spyrja mig svo oft hvernig ég geti skrifað svona ólíka stíla en ég bendi þeim þá á að það sé ekki mitt verk heldur höfundanna. 

Eric bendir á að þegar hann er að þýða Arnald eða Árna Þórarinsson þá sé hann í raun að gera nákvæmlega það sama og þegar hann er að þýða Jón Kalman eða Sjón svo dæmi sé tekið. „Vinir mínir sem lesa bækurnar spyrja mig svo oft hvernig ég geti skrifað svona ólíka stíla en ég bendi þeim þá á að það sé ekki mitt verk heldur höfundanna. Ég reyni eins og ég get að varðveita stílinn því það er mitt verkefni. Þannig er ég til dæmis núna búinn að þýða sautján bækur eftir Arnald og er því eins og heima hjá mér þegar ég opna bók eftir hann og það er stundum gott en svo þarf maður líka að takast á við nýjar áskoranir.” 

Íslenskum bókmenntum vel tekið í Frakklandi

Eric segir að íslenskum bókmenntum sé almennt vel tekið í Frakklandi og bendir á að gott dæmi um það séu tilnefningar Jóns Kalmans fyrir Sögu Ástu til bæði Médici og Femina-verðlaunanna með skömmu millibili nú í haust. „Médici-verðlaunin eru stærstu verðlaunin þar sem þýddar bókmenntir koma til greina og svo koma Femina þar skammt á eftir þannig að þetta er stórt,” segir Eric léttur og bendir á að Jón Kalman sé einmitt í Frakklandi um þessar mundir að kynna Sögu Ástu. „Það hefur allt verið troðfullt hvar sem hann kemur og það er gaman að sjá hvað þessi bók hefur gengið vel hér.”

Þeim finnst það hljóma eins og álfamál

Eric hefur í gegnum árin sinnt því hlutverki vel að kynna íslenskar bókmenntir og hann segir að það geti líka verið mjög skemmtilegt. „Það skiptir miklu máli fyrir marga lesendur að geta fengið að heyra hljóminn í íslenskunni þó svo þeir skilji ekki það sem er sagt. Að heyra tungumálið og geta svo nálgast þýðinguna. Það kemur oft til mín fólk eftir slík upplestrarkvöld og talar um hvað þetta er fallegt tungumál. Þeim finnst það hljóma eins og álfamál og þó svo það sé smá klisjukennt þá er það samt skemmtilegt. Það gleður mig svo mikið þegar fólki líkar vel við íslenskuna." 

Viðtal: Magnús Guðmundsson, september 2018. 

 

Eric BouryEric Boury


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir