Sölvi Björn Sigurðsson

„Í rauninni getur hver og hvað sem er haft áhrif á mann, safnabæklingur, sjampóbrúsi, jafnvel sjónvarpsþáttur um handarkrika á breskum manni,'' segir Sölvi Björn rithöfundur.


solvi3Sölvi Björn er höfundur þriggja útgefinna skáldsagna, en hann hefur einnig getið sér gott orð sem ljóðskáld. Radíó Selfoss, fjölskyldu- og þroskasaga úr íslenskum veruleika, kom út árið 2003 og var fyrsta skref hans inn á svið skáldsagnagerðar, en áður hafði hann gefið frá sér ljóðabækurnar Ást og frelsi og Vökunætur Glátúnshundsins. Bókin segir af íslenskri fjölskyldu sem flyst frá Danmerkur til Selfoss um miðjan níunda áratuginn, og lýsir vináttu tveggja drengja og stormasömu fjölskyldulífi þeirra. Með verkinu þótti gagnrýnendum Sölvi koma sterkt inn á ritvöllinn með „byrjendaverk eins og byrjendaverk eiga að vera.“, eins og segir í ritdómi Jóns Yngva Jóhannessonar um bókina á Bókmenntavefnum.

Borgarljóð um Reykjavík samtímans

Næstu tvö verk Sölva voru heldur óhefðbundnari í efnistökum og uppbyggingu. Í viðtali við Morgunblaðið skömmu eftir útgáfu Radíó Selfoss var hann spurður að því hvort hægt hefði verið að koma frásögn bókarinnar til skila í formi epísks söguljóðs svaraði hann: „Það yrði þá að vera mjög langt ljóð ort undir hexametri.“ Leiða má líkur að því að þarna hafi hugmyndin að næsta verki hans Gleðileikurinn djöfullegi sprottið fram, metnaðarfullt söguljóð um ferðalag ungs manns um miður geðslegt næturlíf Reykjavíkurborgar með ljóðabálk bókmenntarisans Dante Alighieri, La Divina Commedia, að fyrirmynd; bæði söguþráð þess og form, en Gleðileikur Sölva er samin undir sama bragarhætti og Dante studdist við í verki sínu. Gagnrýnendur voru flestir sammála um að Gleðileikurinn væri djarft verk, á meðal skemmtilegustu og hugmyndaríkustu ljóðabóka sem komið hefur komið út hér á landi undanfarin ár: „Póstmódernísk endurvinnsluafurð í töluvert háum gæðaflokki“ líkt og gagnrýnandi Morgunblaðsins, Skafti Þ. Halldórsson, komst að orði. Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi Víðsjár, var yfir sig hrifinn af verkinu: „Sölva Birni hefur [...] tekist að yrkja borgarljóð um Reykjavík samtímans sem unun er að lesa, ljóð sem hikar ekki við að vera kveðskapur að formi og innihaldi en er líka rennandi lestur fyrir samtímalesendur. Um leið fær hin rómaða Reykjavíkurnótt með rugli sínu á baukinn án þess að nokkur sé að veifa fingri.“

Murakami og póstmódernismi

Verkið sem fylgdi, Fljótandi heimur sem kom út árið 2006, var sömuleiðis tilraunakennt endurvinnsluverk en í því tekst Sölvi á við annan bókmenntajöfur: japanska rithöfundinn Haruki Murakami. Sagan er blanda ólíkra bókmenntagreina – ástarsaga, glæpasaga, vísindaskáldsaga – og lýsir kynnum ungs íslensks stúdents af landsbygðinni af dulúðugu sokkabuxnamódeli, hálfjapanskri stúlku að nafni Saiko. Hún hverfur að sjálfsögðu, eftir Murakamiskri forskrift, og upphefst veruleikabjagandi og viskísósuð leit söguhetjunnar að henni. Gagnrýnandi Morgunblaðsins, Björn Þór Vilhjálmsson, benti á þá hættu sem verk af þessu tagi er undirorpið, þ.e. að festast í klisjufeni póstmódernísks pastís, en sagði ennfremur að Sölvi „nýtir sér þann anda sem ræður ríkjum hjá Murakami til að endurnýja það sem að mörgu leyti eru orðnar klisjur póstmódernismans. [...] Bragðið sem Sölvi beitir til að skáka póstmódernískri kaldhæðni er nefnilega einlægni, en samskipti hans við Murakami einkennast öðru framar af ánægju yfir því að sá síðarnefndi skuli yfirleitt vera til.“ Gagnrýnandi Fréttablaðsins, Kristrún Heiða Hauksdóttir, hreifst af bókinni, gaf henni fjórar stjörnur og sagði hana vera úthugsaða og áhrifamikla: „Frumleg og nútímaleg saga sem tekst á hugrakkan hátt á við bókmenntirnar og samtímann.“

Siðustu dagar móður minnarBarátta upp á líf og dauða

Í nýjustu bók sinni, Síðustu dagar móður minnar, veltir Sölvi í senn fyrir sér dauðanum og lífsgleðinni. Þar segir frá samskiptum hins 37 ára Hermanns við krabbameinssjúka og afar skrautlega móður hans. Þau ferðast saman til Amsterdam, þar sem móðirin á að fara í meðferð, en á meðan glímir Hermann sjálfur við eigin úlfakreppu, því hann er þá nýhættur með kærustunni sinni til margra ára. Krossferð mæðginanna til Amsterdam verður þeim báðum tilefni til vangaveltna um lífið – bæði endalok þess og nýtt upphaf – og verður sömuleiðis prófsteinn á sambandið á milli þeirra. Þó að viðfangsefni bókarinnar væri í þyngri kantinum tók gagnrýnandinn Þórarinn B. Þórarinsson henni fagnandi: „Dásamleg saga og alveg hreint bráðskemmtileg. Ljóðamaðurinn Sölvi er að blómstra sem skáldsagnahöfundur [...]” Bergsteinn Sigurðsson blaðamaður Fréttablaðsins kallaði bókina hans slípaðasta verk: „Stíllinn er þróttmikill og liðugur. Persónu- og atvikslýsingar eru oft kostulegar og samtölin rennandi skemmtileg [...] Síðustu dagar móður minnar er meinfyndið verk en um leið afskaplega sorglegt; barátta upp á líf og dauða, þar sem fögnuður lífsins og óttinn við dauðann fljúgast á og oft er erfitt að greina hvor hefur undirtökin. [...] Frábærlega vel skrifuð bók; meinfyndin, tregafull og undurfalleg.”


„Fear and Loathing in Amsterdam“

Sagenhaftes Island átti á dögunum spjall við Sölva um fótbolta, bókmenntir og nánustu framtíð.

Áttu þér fyrirmynd í bókmenntunum?

Í rauninni getur hver og hvað sem er haft áhrif á mann, safnabæklingur, sjampóbrúsi, jafnvel sjónvarpsþáttur um handarkrika á breskum manni. Í heimildaskránni aftan við Fljótandi heim er viðtal við Nicole Richie en ég myndi þó seint bera hana saman við Dostojevskí. Ég kann að meta brjálæðið í bókum eins og Karamazov bræðrunum en það er samt varla hægt að tala um nokkurs konar áhrif frá þannig höfundi, hann bara er þarna. (...) Ég sogaðist fyrst inn í Þórberg og Laxness og gekk að því leyti hefðbundnu leiðina til móts við íslenskan skáldskap, en svo koma aðrir höfundar, öðruvísi höfundar, og að lokum vonast maður til að vera ekki kópía af neinu af þessu þótt það hafi hreyft við manni á tilteknum tíma.

Síðustu dagar móður minnar vekur upp þungar spurningar um hvernig nútímamaðurinn tekst á við dauðann, t.a.m. með „aðstoðuðu sjálfsvígi“ eins og kemur við sögu í bókinni. Hvað fékk þig til að tækla þetta erfiða viðfangsefni?

Þetta er fín spurning en ég veit varla hvernig ég á að svara henni, kannski vegna þess að bókin átti aldrei að vera „þung“, hún átti einmitt að vera „létt“ og ég held hún sé það, þótt undiraldan sé drama. Ég var hrifinn af titlinum, hann var á meðal þess fyrsta sem ég ákvað. Móðirin sem lífsafl og þetta lífsafl andspænis endalokunum var líka eitthvað sem mér fannst gott kombó í skáldsögu, sérstaklega ef maður færi óhefðbundna leið og tækist að representera mæðginin sem svona tvíeyki í anda Holmes og Watson. Þau eru svona pínu „Fear and Loathing in Amsterdam“, svona „Odd Couple“ í þessum aðstæðum drykkjukeppna og veruleikaflótta, en raunveruleiki aðstæðnanna er auðvitað allt annar og þar dúkka „þungu spurningarnar“ vissulega upp. Þær voru nauðsynlegur hluti af sögunni og það hefði verið svindl að sleppa þeim.

Fyrsta skáldsaga þín var uppvaxtarsaga í hefðbundnari kantinum, næstu tvö verk voru öllu tilraunakenndari; samin í náinni samvist við tvo bókmenntarisa úr sitthvorri áttinni, Dante og Murakami. Í Síðustu dögum móður minnar ertu aftur kominn á hefðbundnar slóðir. Ætlarðu að halda þig þar eða fara í frekari tilraunir?

Ég byrjaði frekar ungur að reyna að skrifa skáldskap og fannst eins og nauðsynlegur þáttur af höfundarferlinu væri að gera tilraunir – með formið, með frásagnaraðferðina og samspil bókmenntaforma, og jafnvel samband minna eigin skrifta við höfunda sem höfðu áhrif á mig, eins og Murakami. Fyrsta skáldsagan sem ég reyndi að klára fjallaði um mann sem kemur sér fyrir á litlu sveitahóteli til að ljúka við skáldsögu. Dvölin er tíðindalítil þar til hann ákveður að taka sér pásu frá skriftunum og boða vini sína til veislu. Á meðan hann bíður eftir gestunum tekur hann að villast inn í ýmsa ókannaða ranghala í húsinu þar sem óvæntir gestir skjóta upp kollinum, til dæmis Raskolnikov og Don Kíkóti og einhverjar fleiri persónur úr bókmenntasögunni. Þær leiða hann svo um hvert herbergið af öðru sem reynast m.a. geyma kafla úr verkum annarra höfunda og þaðan ratar sögumaðurinn í eins konar útópíu skáldskaparins, þar sem Foucault steikir kjötbollur og Cervantes fer í fangelsi, en skáldsagnahöfundurinn finnur aldrei gestina sem hann ætlaði að hitta því sjálfur hefur hann lítið fram að færa í samanburði við það sem fyrir hann ber.

Hugmyndin var að skrifa skáldsögu sem fjallaði um sig sjálfa, um áhrif og samræðu í bókmenntahefðinni og hvernig sérhver texti er „mósaík tilvitnana“ og allt þetta sem póst-strúktúralisminn og T.S. Eliot og Kundera og bókmenntafræðin taldi manni trú um að maður yrði að hafa í huga ef maður ætlaði að verða „alvöru höfundur“. En sagan vaknaði aldrei almennilega til lífsins og ég hætti þessu, skrifaði allt öðruvísi bók sem var þó einskonar tilraun líka. Ætli Radíó Selfoss hafi ekki verið atlaga að því að tóna sig niður, skrifa „straight forward“ sögu, fjölskyldusögu, uppvaxtarsögu, skemmtisögu, hvað sem má kalla hana. Þegar hún var frá fór ég svo aftur aðeins í pælingarnar og gaf út Gleðileikinn og Fljótandi heim, sem ég var miklu ánægðari með en söguna af sveitahótelinu.

Hvert er næsta skref? Um hvað er næsta saga og á hvaða nótum verður hún?

Útgefandinn minn myndi ábyggilega segja eitthvað eins og „Rannsóknarskýrsla Alþingis hittir Karamazov bræðurna“ eða „Eins og Nina Hagen hefði ákveðið að skrifa 21. aldar útgáfu af Boodenbrooks“. (...) Það eina sem ég get sagt er að næsta skáldsaga verður lengri en hinar fyrri, hún á að takast með nýjum hætti á við alisvín, veita ágrip af sögu geldingar, leita að glataðri doktorsritgerð um íslenska bókmenntasögu, stúdera græðgi og hjartasorg, sökkva sér í lífsklúðrið, kanna samband bræðra, kanna samband foreldra og barna, veita innsýn í nútímavísindi og hjónabönd, fjalla um harminn sem sjálfstætt fyrirbæri, hugsanlega ættgengt eða eins konar súblímeraða útgáfu af mistökum eða atviki sem hrindir af stað ógæfu, og ef möguleiki er á þá væri stórkostlegt ef hún gæti varpað einhverju ljósi á það hvers vegna allt fór svona fádæma úrskeiðis hér á Íslandi.

Þú hefur viðurkennt að stunda þá ómenningarlegu iðju (mundu sumir segja) að fylgjast með enska boltanum. Það er því kannski ekki úr vegi að spyrja: Hver vinnur HM?

Það yrði gaman ef einhver af Afríkuþjóðunum næði langt en ætli Brasilía sé ekki líklegust, jafnvel Ítalía? Ég get samt aldrei haldið með þessum þjóðum svo ég verð að segja Spánn. Ekki spurning, það verður Spánn.