Þrjátíu þýðendur frá sautján málsvæðum koma saman og þinga. Styttist í alþjóðlega þýðendaþingið í Reykjavík.

Haldið dagana 11. og 12. september í Veröld - húsi Vigdísar.

29. ágúst, 2017

 

Markmið með þýðendaþinginu er meðal annars að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál. Þýðendaþingið verður haldið dagana 11. og 12. september í Veröld – húsi Vigdísar, en þar koma saman og þinga tæplega 30 þýðendur frá 17 málsvæðum, jafnt reyndir þýðendur og nýir.

 

Vigdisarhus2Nú styttist óðum í þýðendaþingið sem haldið verður dagana 11. og 12. september í Veröld – húsi Vigdísar, en þar koma saman og þinga 30 þýðendur frá 17 málsvæðum, jafnt reyndir þýðendur og nýir. Tungumálin sem þeir þýða á eru enska, danska, finnska, franska, galisíska, hollenska, ítalska, kínverska, norska, portúgalska, pólska, serbneska, spænska, sænska, tékkneska, ungverska og þýska. Um helmingur þátttakenda er búsettur hér á landi og helmingur kemur að utan.

VeroldDagskrá þingsins verður þétt og fjölbreytt, í formi vinnustofa og fyrirlestra höfunda og sérfræðinga um allt mögulegt er lýtur að íslensku máli og gildi þýðinga fyrir höfunda og menningu þjóðarinnar. Jafnframt fara þýðendurnir sem taka þátt í þinginu í bókmenntagöngu, móttökur og fleira. Þingið er ekki opið almenningi.

Þingið er haldið í beinu framhaldi af Bókmenntahátíð í Reykjavík 2017 svo þátttakendur á þinginu geti nýtt tækifærið og sótt viðburði hátíðarinnar og hitt kollega í Reykjavík áður en þingstörfin hefjast.

Markmið með þýðendaþinginu er meðal annars að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru öflugir sendiherrar bókmenntanna og auka hróður þeirra um allan heim. Aðstandendur þingsins vilja jafnframt hvetja nýja og upprennandi þýðendur til dáða og auðvelda þeim að komast í snertingu við íslenskan bókaheim og menningu líðandi stundar - auk þess að hitta og vinna með reyndum þýðendum.

Vinsældir íslenskra bókmennta eru miklar og fara vaxandi víða um heim, sem marka má meðal annars á fjölgun umsókna milli ára til Miðstöðvar íslenskra bókmennta um þýðingastyrki úr íslensku á erlend mál og því verður mikilvægi góðra þýðenda enn brýnna, svo unnt verði að bregðast við eftirspurninni og kynna með því íslenska höfunda og menningu um allan heim.

Þetta er í annað skipti sem slíkt þing er haldið hér á landi fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á ýmis erlend mál samtímis, en fyrsta þingið var haldið árið 2009 í aðdraganda heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt. Einnig hafa áður verið haldin norræn þýðendaþing.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veg og vanda af undirbúningi og skipulagi þingsins. Samstarfsaðilar eru Árnastofnun, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þingið nýtur jafnframt fjárstuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Utanríkisráðuneytis og Íslandsstofu. 


Allar fréttir

Barna- og ungmennabókahöfundar verða áberandi í erlendri kynningu - 12. janúar, 2026 Fréttir

Nýtt kynningarrit um íslenska barna- og ungmennabókahöfunda í vændum, þátttaka í barnabókamessunni í Bologna og aukinn stuðningur við þýðingar barna- og ungmennabóka á erlend mál. 

Nánar

Viðburðaríkt ár hjá Miðstöð íslenskra bókmennta - 8. janúar, 2026 Fréttir

Á árinu veitti Miðstöð íslenskra bókmennta 70 milljónir króna í styrki til bókaútgáfu, innlendra og erlendra þýðinga, ferðalaga höfunda og í nýræktarstyrki. Kynningarstarf erlendis var öflugt og einkenndist af bókamessum, fundahöldum með erlendum útgefendum og gjöfulu samstarfi með þýðendum og sendiráðum. 

Við bjóðum nýtt ár velkomið og hlökkum til komandi verkefna, enn fleiri bóka!

Nánar

24 styrkir veittir til þýðinga á íslensku í seinni úthlutun ársins - 5. janúar, 2026 Fréttir

Veittir voru 44 styrkir að upphæð 17,1 mkr í tveimur úthlutunum á árinu; 9 mkr í fyrri úthlutun ársins og 8,1mkr í þeirri síðari.

Nánar

Allar fréttir