Dans

Goðsagnaverur svamlandi í Bláa lóninu, fótboltaleikur í dansflutningi, heimspeki opins hugbúnaðar túlkuð í listrænum gjörningi  – danssenan á Íslandi holdgerir orku, nýjungargirni og sköpunargleði.  Íslenskir danshöfundar, listdansarar og félög þeirra hafa verið ausin lofi á alþjóðlegum vettvangi í fjölda ára.

Dans hefur verið mikilvægur liður í íslensku menningarlífi frá alda öðli en finna má óbeinar tilvísanir í Íslendingasögunum til vikivaka danshefðarinnar sem tíðkaðist hér á landi á 17. og 18. öld. Klassískan ballet rak þó seint á strendur Íslands. Félag íslenskra listdansara (FÍLD) var stofnað árið 1947 og þökk sé frumkvöðlastarfi ungra kvenna sem höfðu lært dans í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu náði hann að festa rætur hér.

Fyrsti ríkisstyrkti listdansskólinn var ekki stofnaður fyrr en árið 1952 og rúmir tveir áratugir liðu þar til fyrsti (og eini) dansflokkur atvinnudansara, Íslenski dansflokkurinn (ÍD), var stofnaður. ÍD  hefur verið sjálfstæð, opinber stofnun síðan 1992. Þrátt fyrir að ballett blómstraði seint sem listgrein í íslensku menningarlífi hefur framþróun hans hér fleygt áfram og getið af sér einn af fremstu ballettdönsurum heims, Helga Tómasson (f. 1942), sem var aðaldansari New York City Ballet Company í fimmtán ár og danshöfundur og listrænn stjórnandi San Francisco Ballet Company.

Árið 1996, undir forystu Katrínar Hall listræns stjórnenda ÍD, tók dansflokkurinn róttækum breytingum þar sem áhersla var með öllu lögð á nútímadans. Þetta var óvenjulega djarft skref fyrir eina listdansflokk landsins. ÍD, með búsetu í Borgarleikhúsinu og þéttskipaða sýningaráætlun erlendis, hefur fengið til liðs við sig fjölda innlendra  og erlendra danshöfunda sem ogl evrópska dansflokka  ásamt því að vinna með fremstu listamönnum landsins úr öðrum geirum. Velgengni dansflokksins eftir stefnubreytinguna hefur orðið til þess að orðspor hans hefur vaxið og dafnað á alþjóðlegum vettvangi og kynt undir frekari hræringum í listdansi á Íslandi.

Árið 2002 var haldin listdanshátíð í fyrsta sinn í Reykjavík þar sem kjörin vettvangur myndaðist fyrir sjálfstæð dansfélög til að sýna sig og sanna. Árleg Listahátíð Reykjavíkur hefur að auki haft listdans á dagskrá sinni og leikhús víðs vegar um landið  hafa veitt minni félögum vettvang til að setja á svið sýningar.

Á meðan vikivakinn, með höfugri blöndu sinni af leiklist, búningum og hátíðarhöldum, voru bannaðir undir yfirráðum Dana þá féll kjarninn í íslenskri menningu ekki undan okinu. Sjá má hvar villt orkan og hin dæmigerða einstaklingshyggja Íslendinga brýst fram í sköpunargleði nútímadansara og danshöfunda þjóðarinnar.

Höfundur: Sari Peltonen